50 bestu bókakápurnar 2008

AIGA valdi 50 bestu bókakápurnar úr 900 bókum. Sheer joy!

Hvers vegna Akureyri er menningarbær

Ég komst að því um verslunarmannahelgina að Akureyri er nú sannkallaður menningarbær. Hvers vegna? Jú, vegna þess að við Hafnarstræti 100 er indverskur skyndibitastaður með alvöru indverskum kokkum og heitir Indian Curry Hut. Þetta hefði skáldinu á Sigurhæðum aldrei hvarflað í hug frostaveturinn mikla 1917.

Þetta kom sannarlega á óvart — og vóg mjög á móti öllu pítsu- og hamborgaradraslinu sem umlukti miðbæinn á útihátíð sem dregur nafn sitt af pylsu.

Á milli Reykjavíkur og Akureyrar er ekkert á boðstólum annað en bras í anda Staðarskála. En í þessum tveimur menningarbæjum má nú setjast niður og eta indverskt góðgæti.

WordPress 2.8 á íslensku

Ég hef lokið við að þýða stigbót 2.8 af WordPress. Þeir sem vilja nota þýðinguna geta sótt sér þýðingarskrána hér.

Súkkulaðihátíð

Gleðilega súkkulaðihátíð, allir kristnir menn!

Málið okkar í boði Marðar

Bendi á þessa góðu lesningu á Eyjunni eftir einn besta prófarkalesara landsins, Mörð Árnason: Málið okkar.

Mörður fékk ekki verðugan stuðning í prófkjöri Samfylkingarinnar um helgina. Er það með miklum ólíkindum. Sá sem fylgir úr hlaði þingsályktunartillögu um íslenska málstefnu — og fær löggfjafarþingið til að samþykkja formlega í fyrsta sinn að Íslendingar tali íslensku á Íslandi — mætti gjarnan eiga sæti á þingi.

Arður tungunnar verður ekki metinn til peninga. Það er kannski þess vegna sem þetta framtak fær enga umfjöllun um það leyti sem þjóðin verður gjaldþrota.

Bestu lógóin 2008

Wolda hefur tilnefnt vinningshafa í alþjóðlegri samkeppni um bestu lógóin 2008. Missið ekki af þessu.

WordPress 2.7 á íslensku

Ég hef verið að rísla mér við að þýða nýjustu útgáfuna af WordPress-kerfinu, útgáfu 2.7. Henni er ekki að fullu lokið, en vegna fjölda áskorana er þýðingarskráin komin á vefinn. Um það bil 60 strengir eru óþýddir í skránni en þeir eru lítt áberandi í kerfinu. Áhugasamir geta nálgast þýðingarskrána hér.

Ég stefni að því að ljúka þýðingunni í febrúar. Þeir sem sækja sér þýðingarskrána núna eru vinsamlegast beðnir að fylgjast með uppfærslum hér og sækja sér lokagerðina þegar hún er tilbúin.

WordPress 2.6 á íslensku

Ég skellti inn þýðingu fyrir WordPress útgáfu 2.6 nú nýverið ef einhverjir áhugasamir vilja nýta sér hana. Sækja má þýðingarskrána hér.

Örfáar breytingar eru á milli útgáfu 2.6 og undirútgáfunnar 2.6.1 sem kom 15. ágúst síðastliðinn. Kannski lánast mér að ljúka henni innan tíðar, hver veit.

Haukar verja Íslandsmeistaratitilinn

Haukar urðu Íslandsmeistarar annað árið í röð í dag í körfuknattleik, minni bolta 11 ára. Sigursteinn Snær er í liðinu og við Ráðska fylgdumst með sigrinum í KR-húsinu.
Read more »

Nýtt útlit

Eins og sjá má hef ég umturnað útliti heimasíðunnar eftir alllangt hlé. Ég hef að sjálfsögðu sótt mér WordPress-stigbótina, útgáfu 2.5, og nýti hér eiginleika hennar til fulls. Til þess hef ég notið góðs af atorkusemi Michaels Pollocks. Honum séu þakkir, lof og prís fyrir sniðið.

Eins og sjá má er mikilvægt að nota myndir með þessu sniði, helst í hverri færslu svo að vel fari. Nú verður að koma í ljós hvort mér vinnist tími til þess arna.

Mestu varðar að þörfin fyrir að skrifa skjátexta og birta hann er enn frumhvötin að baki þessari gandreið.

Þó að sniðið sé eftir nýríkan Bandaríkjamann, þá er það allt á íslensku. Fattiði? Ég get ekki hugsað mér að setja upp vefsíðu þar sem enskir strengir standa bísperrtir og ulla framan í lesendur. Hvílíkt metnaðarleysi!

Þetta kemur því ekkert við að innan skamms er okkur Íslendingum líklega nauðugur sá einn kostur að ganga í Evrópusambandið og taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil. Við getum lagt rækt við móðurmálið þó að það ólánist fyrir okkur að stjórna efnahagsmálum okkar.

Megi ríkisstjórnin týna lífi í Kastljósinu.