100 lýsandi atriði?

 1. Ég er „málfarsfasisti“. Það var í eina tíð kallað að vera málræktarmaður.
 2. Forskriftarmálfræði og stílfræði eru aðaláhugamál mín, eins og golf og fótbolti hjá öðrum.
 3. Ég aðhyllist hófsama hreintungustefnu. Það merkir ekki að ég sé öfgafullur þjóðernissinni.
 4. „Málfarsfasismi“ minn beinist einkum að sjálfum mér. Viðkvæði mitt er að hafa ekki vont mál fyrir öðrum.
 5. Hið óljóst sagða er hið óljóst hugsaða.
 6. Þegar ég les blöðin hættir mér við að leiðrétta þau.
 7. Vankunnátta í tungumálum er stundum kölluð málbreytingar, sérstaklega vankunnátta í móðurmálinu. Þetta reitir mig til reiði. Foreldrar ódælla barna og meðvirkir vandamenn vímuefnaneytenda reita mig einnig til reiði. Þeir eiga þó alla samúð skilda.
 8. Fæstir málfræðingar sem ég þekki eru ritfærir menn.
 9. Ég get ekki skrifað á krumpuð blöð. Tölvuskjárinn þarf að sama skapi að vera hreinn og sniðin tilbúin fyrirfram.
 10. Ég þoli ekki stafsetningarvillur. Þeir sem finna þær hér eru vinsamlegast beðnir að gera mér viðvart.
 11. Ég hef leyst öll próf við Háskólann með blýanti. [Við skulum umorða þetta: Öll próf sem ég hef þreytt við Háskólann hef ég þreytt með blýanti.]
 12. Ég gæti hugsað mér að kenna íslenska málfræði. Ég held ég gæti það skammlaust.
 13. Sigurður Nordal er eini íslenski páfinn.
 14. Helgi Hálfdanarson.
 15. Nóbelsskáldið fellir sín tíu þúsund meðan aðrir fella sín þúsund í íslenskum bókmenntum. Það kom ekki að sök þótt skáldið kynni ekki stafsetningu.
 16. Ég hef kunnað fyrsta kaflann í Íslandsklukkunni og Sjálfstæðu fólki utanbókar frá því ég var barn.
 17. Íslandsklukkan, sem hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þingvöllum, fest við bjálka uppi í kverkinni, er íslensk tunga. Það er löngu kominn brestur í þá klukku.
 18. Fyrst þegar ég las Sjálfstætt fólk grét ég af samúð yfir Gvendi litla. Ég skrifaði Halldóri Laxness langt bréf fyrir hans hönd þegar ég var 15 ára.
 19. Ég á handskrifað svar frá Halldóri þar sem hann býður mér að heimsækja sig og spjalla við sig dálitla stund. Bréfinu fylgdi jólakort með mynd af Gljúfrasteini.
 20. Ég var 17 ára þegar ég áræddi að drepa á dyr að Gljúfrasteini. Auður yngri lauk upp dyrunum en Auður eldri vísaði mér inn í stofu. Ég fann lykt af soðinni ýsu úr eldhúsinu en Halldór sat í lesstólnum sínum og reykti vindil. Hann ræddi við mig drykklanga stund og spurði mig persónulegra spurninga.
 21. Ég geymi bréfið frá Halldóri og jólakortið hans inni í íslensku orðabókinni minni eins og bókamerki.
 22. Ég hef vissar efasemdir um að bréfið mitt sé varðveitt í Þjóðskjalasafninu.
 23. Ég hef einu sinni farið að Gljúfrasteini eftir að það varð safn. Það hafði mikil áhrif á mig. Ég kæri mig samt kollóttann um fortíð Halldórs Laxness. Lesmálið sem skáldið skildi eftir sig þarf ekki á manninum að halda. Skáldverkin eru sá eini gljúfrasteinn sem verðugt er að greiða aðgangseyri fyrir.
 24. Stíllinn, það er maðurinn.
 25. Gyrðir Elíasson ber af öðrum samtímahöfundum. Hann vandar ekki aðeins stílinn, heldur segir flest sem máli skiptir milli línanna.
 26. Þögnin lætur hæst í eyrum.
 27. Frazier.
 28. Ég þoli ekki pólitískar staðalímyndir sem eru landlægar á Íslandi.
 29. Ég er hægrisinnaður. Ég hef stundum reynt að breyta því árangurslaust.
 30. Ég gat aldrei verið í Heimdalli á mínum yngri árum. Félagsskapur vinstrisinna heillar mig miklu meira allt fram á þennan dag.
 31. Ég var svarinn fylgismaður Davíðs Oddssonar og slektis hans.
 32. Ég er rammur andstæðingur Ólafs Ragnars Grímssonar.
 33. Ég vil leggja forsetaembættið niður.
 34. Ég vildi að Davíð og Össur mynduðu saman ríkisstjórn.
 35. Ég hef illan bifur á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún grefur undan voninni um nýja viðreisn og frestar henni langt fram á annan áratug nýrrar aldar. Hún er svo mikill samræðu-pólitíkus að hún hefði aldrei getað starfað með Davíð Oddssyni af persónulegum ástæðum.
 36. Ég er á móti tóbaksvarnarlögunum.
 37. Mér þykir gott að reykja feita vindla. Þeir eru ekki ætlaðir til að fullnægja tóbaksfíkn, heldur til að vekja yndisauka. Eins og Mark Twain reyki ég í hófi: Aðeins einn vindil í einu.
 38. Ég er andvígur lögleiðingu fíkniefna.
 39. Ég er forfallinn kaffidrykkjumaður.
 40. Mér þykir gott að drekka viskí, mjöð seiðskrattans. Einkum hrífst ég af skosku maltviskíi. Ég er kominn með söfnunaráráttu.
 41. Mér þykir gott að borða og hef löngum gert það í óhófi. Besta máltíð sem ég hef smakkað er sterkur kókoskjúklingur sem ég fékk hjá seiðkonu í Tansaníu 1991. Ég horfði á konuna drepa hænsnið við vegkantinn og fylgdist með henni matreiða það. Fyrir einhverja galdra get ég ekki munað uppskriftina. Ég hef leitað að sama bragðinu allar götur síðan. Karríkjúklingurinn hans pabba kemst næst þessu. Þetta eru hreinir töfrar.
 42. Ég þrái að snúa aftur til Afríku. Allt annað er þvættingur. Það er þó af allt öðrum ástæðum en hér að ofan greinir.
 43. „Ég átti jörð í Afríku“ eru bestu upphafsorðin.
 44. Fíll.
 45. Gíraffi.
 46. Nashyrningur.
 47. Mímósutré.
 48. Ég fæ kökk í hálsinn þegar ég skoða litskyggnurnar mínar frá Afríku. Stundum dreymir mig sólarlagið á Serengeti-völlum og vakna með tár á hvörmunum.
 49. Ég held ég hafi verið Delamere lávarður í fyrra lífi.
 50. Karen Blixen.
 51. Sting.
 52. Clapton.
 53. Hemingway.
 54. Auden.
 55. Keats.
 56. Ishiguro.
 57. Eftir að ég var í löggunni hætti ég að hræðast dauðann. Ég hitti dauðann þá, en aðeins sem kyrrð hjá fólki sem ég þekkti ekki neitt.
 58. Trúarrætur mínar lágu eitt sinn í Hvítasunnukirkjunni. Ég reif þær upp og færði þær í nýjan jarðveg. Það var ótrúlega auðvelt. Ég var aldrei sannfærður hvítasunnumaður.
 59. „If you don’t change your beliefs, your life will be like this forever. Is that good news?“ (Douglas Adams).
 60. Þegar ég var táningur sótti ég messu í Dómkirkjunni á degi aldraðra og hlýddi á Sigurbjörn Einarsson biskup prédika. Þá voru örlög mín ráðin í trúarefnum.
 61. Ég er lúterskur frjálshyggjumaður (ef það er til).
 62. Katólsk trú heillar mig, ekki síst dulúð hennar. Yfirbyggingin er þó helst til stór og pápískan full afturhaldssöm.
 63. Særingarkvikmyndir hafa jafnan höfðað sterkt til mín.
 64. Mér leiðast öfgafullir trúmenn og öfgafullir vantrúarmenn. Þeir eru af sama sauðahúsi.
 65. „Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.“ Ég er ekki orðinn fulltíða maður.
 66. Jesús er besti vinur barnanna.
 67. Stundum er sál mín þurfalingur.
 68. Ég þoli ekki þungarokk og gospel.
 69. Ég dái djass og blús.
 70. Beethoven, Mozart og Bach.
 71. Ég hef verið vatnshræddur frá því ég var barn. Eftir að ég kynntist Ráðsku hef ég þó að mestu losnað við þessa hræðslu. Ég nýt þess að fara í sund með henni og strákunum okkar.
 72. Ég er Bretadýrkandi. Ég hef reynt að tileinka mér RP-framburðinn frá því ég man eftir mér. Einu sinni tókst mér svo vel upp, að biskupinn af Worcester lét blekkjast í lest milli Lundúna og Birmingham og trúði því að ég væri breskur aristókrati.
 73. Borg tóbaksbúðanna og veitingastaðanna, Lundúnir, er uppáhaldsborgin mín. Þeir sem dveljast í Lundúnum vita að fjölhyggja er ekki til á Íslandi.
 74. Ég hef samúð með Karli Bretaprinsi og Kamillu Parker Bowles. Ég hafði illan bifur á Díönu prinsessu þangað til hún lést.
 75. Bretar eru of sparsamir og fyrirsjáanlegir, eins og Þjóðverjar.
 76. Enskar bókmenntir eru fylgjur mínar.
 77. Ég er hrifinn af hinsegin fólki. Það er siðmenntaðra en margir „kynvísir“. Ég vil að kirkjan leggi gagnkynhneigðarhyggjuna niður. Eftir tvær kynslóðir verður málið dautt og biskupinn lesbía.
 78. Hamlet er besta bókmenntaverk sem samið hefur verið.
 79. Forritun er ljóðlist.
 80. Helvíti er hugarástand.
 81. Baudrillard gerði mig árrisulan.
 82. Ég sakna Michaels Ciminos síðan úr Hjartarbananum og Sikileyingnum.
 83. Roger Waters.
 84. Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Það er ómerkilegt formsatriði og hefur litla þýðingu í framkvæmdinni.
 85. Ég hyggst ná 100 fljótlega, bæði í þyngd og þessum „lýsandi“ atriðum.