Hvítasunnuhelgin

Það má vera til marks um hversu hratt við Ráðska eldumst að einungis einn af fjórum sonum okkar vildi koma með okkur í ferðalag um hvítasunnuhelgina. Við buðum gull og græna skóga, siglingar og útreiðar, fugla- og hvalaskoðun, en allt kom fyrir ekki. Sigursteinn lét einn tilleiðast af tómum kærleik eða meðaumkun við gamla slektið.

Í þessu felast bæði fyrirheit og vonbrigði, tilhlökkun og eftirsjá, eftir því hvernig á það er litið, — eftir því hvort þið spyrjið mig eða Ráðsku.

Við hættum við að gista í Stykkishólmi af þessum ástæðum og fórum dagsferð um Reykjanes í staðinn. Byrjuðum á því að skoða Fræðasetrið í Sandgerði á laugardaginn. Sigursteinn hafði verið þar skömmu áður með bekkjarsystkinum sínum og var ennþá svo snortinn af grænlenska rostungnum sem stendur uppstoppaður í innganginum að hann vildi ólmur sýna okkur herlegheitin. Ég varð hugfanginn af fuglasafninu. Sá tímaritið Blika í fyrsta sinn. — Svona fylgist maður illa með.

Því næst ókum við Garðskagaveg til suðurs og skoðuðum Hvalsneskirkju þar sem Hallgrímur Pétursson þjónaði 1644–1651. Ekki grunaði sálmaskáldið að við ættum eftir að aka þarna á vélknúnu faratæki árið 2006 og flytja nokkra Passíusálma utanbókar! Við lögðum farartækinu við Stafnesvita og fórum á tveimur jafnfljótum inn í Básenda skammt sunnan við Stafnes. Þetta er létt ganga og tekur ekki nema um eina klukkustund. Á Básendum var einn stærsti verslunarstaður einokunarverslunarinnar fyrr á öldum, en þar mun flóðbylgja hafa gengið á land 9. janúar 1799 ekki ósvipað og í Asíu fyrir tveimur árum. Skemmst er frá því að segja að staðinn tók af með öllu, sjávarflóðið braut öll hús og mannvirki og sögur herma að fólk hafi átt fótum sínum fjör að launa.

Úr Stafnesi ókum við til Grindavíkur til þess að fara í sund en bæjarbúar hljóta að hafa frétt af ferðum okkar því þeir lokuðu lauginni skyndilega og sneru í okkur baki. Sundlaugarvörðurinn þóttist vera að lesa blöðin. Við lékum körfubolta á skólalóðinni í staðinn og héldum svo áleiðis eftir Suðurstrandarvegi og enduðum við Kleifarvatn þar sem Sigursteinn fékk að vaða.

Ég tók nokkrar myndir úr ferðinni. Ég er ósáttur að vanda.

Á hvítasunnudag blésum við til sameiginlegrar matarveislu með Gústa og Siggu og buðum börnum okkar beggja og tilvonandi tengdabörnum. Þetta eru samtals 15 manns með gamla slektinu. Við gerðum þetta með skömmum fyrirvara og það mæltist vel fyrir.

Es: Gamla slektið er að sjálfsögðu ég og Gústi og viðhengi okkar.

Comments

  1. Óli Ágústar skrifar:

    Sagan endurtekur sig!

Submit a Comment