Á tímamótum

Ég er oftast önnum kafinn og starfsglaður. Stundum set ég met í glaðværð og fjöri. Þrátt fyrir alla starfsönn og áhyggjur sækja þó að mér leiðindaköst annað veifið. Og þrátt fyrir allan sjálfsaga sækja að mér efi og kvíði við og við. Þetta veldur mér hins vegar engum geðbrigðum því að ég er orðinn manninum kunnugur og þekki þær tilfinningar sem honum stjórna.

Ég er með öðrum orðum nokkuð heilbrigður maður og lánast oftast hið vandasama verk að höndla hamingjuna.

Í fyrramálið held ég til Lundúna með stóru ástinni í lífi mínu. Við ætlum ekki að reyna að bjarga heiminum. Öðru nær, við ætlum að fóðra dúfurnar á Trafalgartorgi og hlusta á kurrið í bland við bílaniðinn, sigla á ánni Thames og hlusta á stóru klukkuna glymja Westminster, leiðast um götur Notting Hill og kaupa ferðahandbók um Spán, æfa RP-framburðinn á Oxfordstræti, drekka viskí á Guinea, panta ölkollu á Salisbury, spýta h-unum á Covent Garden, dansa við homma og lesbíur á Stringfellows, boða endalokin á horni Hyde Park, reykja vindla á nafnlausum næturklúbbi í torfundnu öngstræti, fara í bíó, sækja leikhús, skoða kirkju, kaupa skó og láta berast fyrir straumi matargerðarlistarinnar í Mayfair og Soho.

  Getur skeð að gleymméreiin
  gleymist inní himinblámann?
  Hamingjan er hversdags-kvöldið.
  Hvort mun lífið tapa á því?
  Ef við söknum einhvers dauðir,
  aðeins þessa verður saknað.
  Já, ég veit að það er þetta;
  — þó er ég ei dauður enn.
  (Gunnar Reiss-Andersen)

Comments

 1. Óli Ágústar skrifar:

  Fertugur í dag, karlinn. Til hamingju með það.
  Njóttu dagsins af afli. Hann kemur aldrei aftur.

  Og komir þú til London, þá komdu við á Tate
  og kæta láttu Turner sálu þína.
  Ég aldrei meiri gersemar á ævi minni leit
  og undrabirtu, litatöfra, skína.

  Og allar bestu óskir á ferðum fylgi þér,
  og farir þú um Dawning Street, þá segðu hæ við Blair.

  Kveðja
  pabbi

 2. stína og co. skrifar:

  Hjartanlega til hamingju með þennan merkisdag, elsku Binni. Vona að næstu fjörutíu ár verði þér gifturík og sérdeilis skemmtileg þrátt fyrir að nú sértu óneitanlega kominn í hóp hinna eldri og virðulegri 😉

  Njóttu London í tætlur alveg lon og don.

  Bestu kveðjur til stóru ástarinnar.

  Afmæliskveðjur,
  Stína, Marcelo, Bryndís og Marcelito

 3. Árni Svanur skrifar:

  Til hamingju með daginn og njóttu borgarinnar.

 4. Gunný skrifar:

  Mikið gerast menn ljóðelskir og mælskir á þessum tímamótum. Ég þori ekkert að segja af ótta við að eyðileggja andagiftina.

  En njóttu heill afmælis bróðir sæll!

 5. Innilega til hamingju með afmælið Binni og góða skemmtun í London.
  Sammála pabba þínum með Turner, ómissandi.
  Hafði gaman af pistlinum.

  Bestu kveðjur

  Snorri og Ísól

 6. Hrönn Guðmundsdóttir skrifar:

  Kæra afmælisbarn!

  Hjartanlegar hamingjuóskir til þín með afmælið.
  Njóttu dagsins og þess að vera til.

  Bestu kveðjur
  Hrönn og Denni

 7. Kiddi Klettur skrifar:

  Innilegar hamingjuóskir með daginn. Góða ferð. Kiddi Klettur

 8. agust.o skrifar:

  Elsku Binni okkar (litli bróðir)

  Til hamingju með daginn ljúfastur!
  Stórkostlegt að eldast og verða bragðmeiri eins og vín og meitlaður texti. Njóttu dagsins og ástarinnar þá næstu í borginni við ána.

  Ástarkveðjur,
  Gústi, Sigga, Heiðrún, Óli og Hanna.

 9. Sirrý skrifar:

  Jú, þú ert maður sem bjargar heiminum.

 10. Arngrímur skrifar:

  Til hamingju með afmælið!

 11. Binni skrifar:

  Ég þakka ykkur öllum þessar hlýju kveðjur.

Submit a Comment