Flugpróf á undan bílprófi?

Alexander Máni, fóstursonur minn, ákvað að verða flugmaður þegar í barnæsku. Hann keypti sér flugleik í tölvuna sína löngu fyrir fermingu og hefur flogið öllum heimsins farþegaþotum stórslysalaust heimsálfa á milli.

Nú er drengurinn orðinn 16 ára og situr enn við sinn keip. Hann fór í sinn fyrsta flugtíma hjá Flugskóla Íslands í síðustu viku og annan í gær. Ég tók þessa símamynd af piltinum áður en hann steig um borð í vélina sem stendur fyrir aftan hann og flaug henni yfir höfuðborgarsvæðið jafnauðveldlega og að drekka vatn.

Alexander hyggst sækja um inngöngu í Fjöltækniskóla Íslands á hausti komanda en þar ku vera hægt að taka einkaflugmannspróf samhliða stúdentsprófi.

Drengurinn hefur hins vegar ekki snefil af áhuga á að hefja æfingaakstur til þess að koma sér í skólann og er ég satt að segja farinn að óttast að hann taki flugmannsprófið á undan bílprófinu. Hann hefur boðist til að ferja eldri bræður sína á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á næsta ári — flugleiðis. Pilturinn á vafalaust eftir að fljúga farþegaþotu áður en hann eignast sinn fyrsta bíl.

Comments

  1. Jón Gils Ólason skrifar:

    Top Gun! Flottur.

  2. Óli Ágústar skrifar:

    Tek undir það.

Submit a Comment