Ráðhildur Jónsdóttir

Í gær var útför Ráðhildar Jónsdóttur gerð frá Fossvogskirkju. Hún var amma og nafna Ráðsku, sem lesendur ættu að vera farnir að þekkja af færslum mínum hér á vefnum.

Ráðhildur lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík 16. maí síðastliðinn á nítugasta og fyrsta aldursári. Hún var fædd í Vestmannaeyjum 18. október 1916. Foreldrar hennar voru Jón Guðmundsson sjómaður, fæddur á Hóli í Skagafirði 4. september 1891, dáinn 3. september 1916, og Elenóra [svo!] Ingvarsdóttir, fædd að Kalmannstjörn í Höfnum 31. desember 1890, dáin 25. apríl 1977.

Systkini Ráðhildar eru Guðbjörg Áslaug, fædd 15. nóvember 1910, dáin 9. júní 1912, og Alda Sigurrós, fædd 26. ágúst 1928.

Ráðhildur giftist Sigurði Gunnlaugssyni frá Hofsárkoti í Svarfaðardal, en hann var fæddur 8. maí 1912, dáinn 6. júní 1988. Börn Ráðhildar og Sigurðar eru Guðrún Valgerður, fædd 17. mars 1939, og Kristinn, fæddur 9. apríl 1944.

Myndin hér að neðan er af mæðgunum Ráðhildi Jónsdóttur og Guðrúnu Valgerði Sigurðardóttur, en lengst til hægri er Ásta Jónsdóttir, móðir mín. Myndin er tekin á sextugsafmæli Guðrúnar Valgerðar, tengdamóður minnar, árið 1999, aðeins um ári eftir að við Ráðska byrjuðum að rugla saman reytum.

Ráðhildur, Guðrún, Ásta

Úrvalsnafnið Ráðhildur er ævafornt í íslensku, það elsta líklega frá miðri 16. öld — ef ekki eldra. Einungis átta konur bera þetta eiginnafn þegar þetta er skrifað samkvæmt þjóðskrá.

Við Ráðska heimsóttum Ráðhildi gömlu á Hrafnistu nokkrum sinnum áður en hún lést. Ráðhildur hafði mjúkt tungutak og fima fingur þó að hún væri komin á tíræðisaldur. Prjónalesið hennar frá því í haust er laust við lykkjuföll. Þá var hún svo frásögufær á endasprettinum að minni og tungutak héldust í hendur. Undir hið síðasta tók ég með mér blað og skriffæri þegar ég heimsótti hana og páraði eitt og annað eftir henni. Mér fannst Ráðhildur reka lestina þeirra kvenna sem eru af ættkvísl völvanna. Hún var kvöldvökukona á forna vísu.

Ég heyrði hana rifja upp þetta orðtak sem amma hennar ku hafa notað um endurtekin vandræði:

Hvur silkiskotthúfan upp af annarri.

Orðið „silkihúfa“ er þekktara en „silkiskotthúfa“ í þessu orðtaki en merkingin virðist vera sú sama. Orðtakið merkir í raun „hver auminginn eða kjáninn á fætur öðrum“ eða „hver vitleysan á fætur annarri“. Þess vegna kom mér nokkuð á óvart að sjá þetta orðtak notað í fyrirsögn í Fréttablaðinu á dögunum þar sem blaðamaður var að lýsa kvikmyndastjörnum á rauða dreglinum í Cannes í Frakklandi.

Ráðhildur rifjaði einnig upp, að þegar afi hennar drukknaði, gekk amma hennar fjörur lengi á eftir og vildi ekki gefa upp vonina. Ekki vonina um að finna manninn sinn á lífi, heldur vonina um að geta signt hann. Daginn sem líkið rak á fjöruna ávarpaði amma Ráðhildar vinnukonuna á Kalmannstjörn með þessum orðum:

Brotin væri ég, væri ég gler,
bráðin væri ég, væri ég smjer,
farðu inn, Sigríður, og settu upp ketilinn.

Ráðska skrifaði litla minningargrein um ömmu sína í Morgunblaðið í gær og þar segir m.a.: „Hennar verður helst minnst fyrir höfðingsskap, gjafmildi, hlýju og það hvað hún stóð alltaf ákveðið með þeim sem minna mega sín.“ Þetta eru orð að sönnu. Ég stælaði stundum við Ráðhildi gömlu um kristilegan kærleik. Ævinlega þegar ég stóð á öndverðum meið við gamla tímann fór hún að fikta við heyrnartækin sín og lét eins og hún heyrði ekki það sem ég sagði. Ráðhildur stóð fast á sínu. Hún vildi öllum vel og lét eitt yfir alla ganga.

Blessuð sé minning hennar.

Comments

  1. Óli Ágústar skrifar:

    Það er við hæfi að ítreka samúð við fráfall Ráðhildar og það geri ég hér með.

  2. Flyt ykkur síðbúnar samúðarkveðjur.

Submit a Comment