Nýtt útlit

Eins og sjá má hef ég umturnað útliti heimasíðunnar eftir alllangt hlé. Ég hef að sjálfsögðu sótt mér WordPress-stigbótina, útgáfu 2.5, og nýti hér eiginleika hennar til fulls. Til þess hef ég notið góðs af atorkusemi Michaels Pollocks. Honum séu þakkir, lof og prís fyrir sniðið.

Eins og sjá má er mikilvægt að nota myndir með þessu sniði, helst í hverri færslu svo að vel fari. Nú verður að koma í ljós hvort mér vinnist tími til þess arna.

Mestu varðar að þörfin fyrir að skrifa skjátexta og birta hann er enn frumhvötin að baki þessari gandreið.

Þó að sniðið sé eftir nýríkan Bandaríkjamann, þá er það allt á íslensku. Fattiði? Ég get ekki hugsað mér að setja upp vefsíðu þar sem enskir strengir standa bísperrtir og ulla framan í lesendur. Hvílíkt metnaðarleysi!

Þetta kemur því ekkert við að innan skamms er okkur Íslendingum líklega nauðugur sá einn kostur að ganga í Evrópusambandið og taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil. Við getum lagt rækt við móðurmálið þó að það ólánist fyrir okkur að stjórna efnahagsmálum okkar.

Megi ríkisstjórnin týna lífi í Kastljósinu.

Comments

 1. Óli Ágústsson skrifar:

  Til hamingju með stórglæsilega síðu.
  Var farinn að halda að Kúbu vindlarnir hefðu gert út af við þig.
  Sé nú að svo er ekki.
  En það tekur talsverðan tíma að meðtaka alla breytinguna á síðunni.
  En til að byrja með: Glæsilegt. Til hamingju.

 2. Snorri skrifar:

  Vá stórglæsilegt, til hamingju með útlitið.
  Sé að ég verð að leita til þín með uppsetningu á nýrri heimasíðu.

  Vonast til að geta lesið vikulega pistla frá þér, enda verið daglegur gestur meira að segja þegar ekkert var hér á seiði.

  Þú mættir laga tengilinn á okkur, erum á nýju svæði – isologsnorri.wordpress.com

  Bestu kveðjur til hele familien

  Snorri

 3. Gunný skrifar:

  Fékk vísbendingu í morgun um breytingar. Ég er dolfallin! Þetta er algjörlega brillíant!! Til lukku með það og takk fyrir gærkvöldið. Ég vaknaði í thaílönskum kryddhöfga í morgun.

 4. Gunný skrifar:

  Er núna búin að lesa hundrað lýsandi atriði einnig og verð að segja að þau eru á heimsmælikvarða! Kannski ættir þú að gera skriftir að skyldu og umbrot Hagstofunnar að neðanmáli. 🙂

 5. Ágúst Ó skrifar:

  Hef setið áhugasamur og varið tíma í skoðun. Hrifningin nær smátt og smátt tökum. Lýsir sér gamalkunnugri óværð í fingrum. Til hamingju með uppfærsluna. Ennfremur velkominn á ný.

 6. Jóhanna skrifar:

  Höfuðdagurinn greinilega liðinn, til hamingju með nýja og flotta síðu.

 7. Til lukku með vefinn og kærar þakkir fyrir innblástur og þýðingu! Ég gat ekki verið minni maðkur og uppfærði dagbækur á mínum vegum í kvöld.

 8. Þetta átti að sjálfsögðu að vera „maður“ en ekki „maðkur“. Ég biðst innilegrar afsökunar á innsláttarvillunni.

 9. Binni skrifar:

  Maðkur á betur við en þú heldur, eins og segir í þriðju ræðu Bildads: „Jafnvel tunglið ber ekki birtu … hvað þá hinn dauðlegi, maðkurinn sá, mannssonurinn, ormurinn.“ 😉

 10. Ég hefði svo sem átt að vita að ef einhversstaðar leyndust maðkar, væru það félagar Jobs. 🙂

 11. Carlos Ferrer skrifar:

  Eins og svo margir stóð ég og gapti. Ein spurning þó, hvað kom fyrir appelsínugula ívafið, sem ég hélt að væri ómissandi?

 12. Binni skrifar:

  Fyndinn ertu, Carlos. Ég nota appelsínugulann því meira í prentgripina mína. 😉

Submit a Comment