Tag: Afmæli

Á tímamótum

Ég er oftast önnum kafinn og starfsglaður. Stundum set ég met í glaðværð og fjöri. Þrátt fyrir alla starfsönn og áhyggjur sækja þó að mér leiðindaköst annað veifið. Og þrátt fyrir allan sjálfsaga sækja að mér efi og kvíði við og við. Þetta veldur mér hins vegar engum geðbrigðum því að ég er orðinn manninum kunnugur og þekki þær tilfinningar sem honum stjórna.

Ég er með öðrum orðum nokkuð heilbrigður maður og lánast oftast hið vandasama verk að höndla hamingjuna.

Í fyrramálið held ég til Lundúna með stóru ástinni í lífi mínu. Við ætlum ekki að reyna að bjarga heiminum. Öðru nær, við ætlum að fóðra dúfurnar á Trafalgartorgi og hlusta á kurrið í bland við bílaniðinn, sigla á ánni Thames og hlusta á stóru klukkuna glymja Westminster, leiðast um götur Notting Hill og kaupa ferðahandbók um Spán, æfa RP-framburðinn á Oxfordstræti, drekka viskí á Guinea, panta ölkollu á Salisbury, spýta h-unum á Covent Garden, dansa við homma og lesbíur á Stringfellows, boða endalokin á horni Hyde Park, reykja vindla á nafnlausum næturklúbbi í torfundnu öngstræti, fara í bíó, sækja leikhús, skoða kirkju, kaupa skó og láta berast fyrir straumi matargerðarlistarinnar í Mayfair og Soho.

  Getur skeð að gleymméreiin
  gleymist inní himinblámann?
  Hamingjan er hversdags-kvöldið.
  Hvort mun lífið tapa á því?
  Ef við söknum einhvers dauðir,
  aðeins þessa verður saknað.
  Já, ég veit að það er þetta;
  — þó er ég ei dauður enn.
  (Gunnar Reiss-Andersen)