Tag: Afríka

Saga um Afríkutré verðlaunuð

Úr heimsálfu sem ennþá verður að teljast nokkuð myrk — ekki síst vegna þess að samkynhneigð er þar ennþá fordæmd sem samfélagsmein, jafnvel bönnuð með lögum — kemur eftirminnileg hinsegin saga eftir úgandiskan femínista, Móníku Arac de Nyeko. Sagan hlýtur í ár Caine-verðlaunin sem kennd eru við breskan athafnamann og lávarð, Michael Caine. Mikjáll þessi hefur aldrei leikið í kvikmyndum svo vitað sé.

The Jambula Tree

Sagan sem um ræðir heitir The Jambula Tree — hvað annað, í Afríku hverfist allt um tré. Hún fjallar um tvær æskuvinkonur sem elska hvor aðra. Þegar vináttan umbreytist í ást — já, eða við skulum segja þegar ástin kemur undan hvolfþaki trjánna og verður sýnileg í sólinni — leggur samfélagið fæð á stúlkurnar. Fjölskyldur þeirra bregðast að vonum hart við og senda aðra þeirra í útlegð til Englands. En þessar hugrökku stúlkur skammast sín aldrei fyrir ást sína hvor á annarri, jafnvel ekki þegar þeim er stíað sundur.

Þessa sögu mættu allir lesa sem hafa ennþá smekk fyrir hinu fagra og saklausa — og eru orðnir þreyttir á íslenskum fýlubombum. Söguna má lesa í smásagnasafninu African Love Stories sem kom út í fyrra í ritstjórn Ama Ata Aidoo. Ég bendi á þessa umfjöllun um nýja útgáfu bókarinnar.

Ég pantaði þessa bók á útmánuðum — þegar síðvetrarmæðan reyndi að hengja mig í ljósakrónunni — og gat ekki annað en glaðst þegar ég sá sögunnar getið í Morgunblaðinu í morgun. Þegar Afríkumenn, karlar eða konur, fá verðlaun á Vesturlöndum eru þeir nafngreindir í fjölmiðlum. Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.

Á heimleið 1991 hafði ég viðdvöl í Kampala. Í aðfluginu kvaddi ég vini og ættmenni í þögulli bæn því að ég hélt að flugvélin væri að hrapa. Kannski meira um það síðar.

Enginn öngull, engin beita

Í breska siglingaklúbbnum í Tanga var gamalt píanó sem Jón Gils bað mig að spila á. Píanóið stóð undir berum himni, upp við barinn, og var svolítið falskt. Ég lék á svörtu nóturnar, í es-dúr, og þá voru fölsku tónarnir ekki eins áberandi. Ég hafði ekki spilað lengi þegar fólk tók að drífa að úr ýmsum áttum, ekki aðeins ríka skútueigendur, heldur einnig fiskimenn, leiðsögumenn, veiðimenn, flökkumenn og drykkjumenn, sem flestir voru málkunnugir Jóni. Þetta voru eins og uppvakningar úr nokkrum helstu ævintýrum heimsbókmenntanna. Úr þessu varð gleðskapur sem stóð lengi nætur.

Þegar ég hafði spilað allt sem ég kunni nokkrum sinnum kom lúinn öldungur til mín og þakkaði mér fyrir hljómana. Hann var skininn og skorpinn og með kunnuglegar skellur á báðum kinnunum. Hann sagði mér að hann hefði einu sinni veitt við Barbados. Hann sagði eyjarskeggja þar veiða flugfiska um nætur án þess að kosta neinu til. Hver bátur hefði með sér logandi ljósker sem komið væri fyrir utan á bátshliðinni meðan verið væri á veiðunum. Þegar myrkt væri orðið, gengi flugfiskurinn á ljósin, stykki upp úr sjónum og lenti þá meira eða minna af vöðunni á botni báta fiskimannanna. „Þetta kallar maður ódýra útgerð,“ sagði gamli maðurinn. „Enginn öngull, engin beita.“

Við svo búið hvarf hann inn í myrkrið í flæðarmálinu.

Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna hann sagði mér þessa sögu af þessu tilefni. Eða hvort ég hitti hann í raun og veru.

Afríkublús

Fyrstu árin eftir að ég kom heim fann ég til saknaðar á köldum vetrarkvöldum. Nú eru það glaðbjartir sólskinsdagar sem vekja trega.

Afríkublús

Í Tansaníu voru trén alltaf eins og hvíslandi verur umhverfis okkur, sérstaklega á kvöldin þegar við sátum í skjólhúsunum og spjölluðum saman. Ég vandist þessu aldrei, þetta var alltaf yfirnáttúrulegt.

Stundum dreyptum við á víni og ég drakk það í von um að það slævði skilningarvitin og þá hætti ég að mæna inn á milli trjánna.

Þegar leðurblökurnar komu og flögruðu í kringum ljósið á gafli veitingahússins blikkaði ljósið ótt og títt eins og peran væri að springa. Leðurblökurnar voru hljóðlausar, og við sáum aðeins skuggann af þeim. Sumir létu blekkjast og héldu að þetta væru næturfiðrildi.

Nonni vissi betur. Á meðan við þögðum heyrðist murrið í mölinni í flæðarmálinu og einhvers staðar lengra að utan gargið í máf sem vaggaði á sléttum sjávarfletinum.

Þarna var lífið ekki krafið svara við of mörgum spurningum.

Gengið á Kilimanjaró

Nokkrir eldhressir starfsmenn Skýrr ætla að ganga á hæsta fjall Afríku, Kilimanjaró, í marsmánuði. Þeir hafa sett upp vefsíðu þar sem ferðatilhöguninni er lýst, auk þess sem þeir blogga um undirbúning ferðarinnar hérna. Ég komst á snoðir um þetta í nótt.

Að sjálfsögðu öfunda ég þessa drengi fram úr hófi. Þeir eru að fara á sömu slóðir og ég fór sjálfur 1991 og 1992. Ég var með kökk í hálsinum þegar ég hitaði bílinn minn í morgun.

Ég rifjaði upp á meðan ég drakk fyrsta kaffibollann að í seinni ferð minni flaug ég um Lundúnir til Nairobi með Flugfélagi Keníu, alveg eins og þessir drengir hyggjast gera. Frá Nairobi flaug ég hins vegar beint til Dar es Salaam, höfuðborgar Tansaníu, og ók þaðan upp að Kilimanjaró með viðkomu í nokkrum stærstu og fegurstu þjóðgörðum heims. Enginn er samur eftir að hafa litið þetta landsvæði berum augum.

Eins og sjá má á vefsíðu strákanna hafa þeir verið duglegir að æfa sig í vetur og búa sig undir fjallgönguna. Mér finnst þeir þó helst til uppteknir af líkamlegu atgervi. Ekki má gleyma að búa andann undir ferðalagið. Ég mæli til dæmis með smásögu Hemingways, Snjórinn á Kilimanjaró, en enginn sem gengur á fjallið ætti að láta hana framhjá sér fara. Sagan kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar A. Magnússonar fyrir jólin. Ég las hana á ensku í fyrri ferðinni minni. Ég var þá um borð í breiðþotu á leiðinni frá París til Dar es Salaam. Þetta var næturflug og ég gleymi aldrei þeirri stund þegar flugstjórinn tilkynnti hvellri röddu að Kilimanjaró væri á vinstri hönd. Þarna stóð þessi tignarlegi landvættur undir fótum mér og minntist við sólina sem var að rísa í austri. Ég fékk gæsahúð.

Árið 1926 fundu lúterskir trúboðar frosinn ná af hlébarða á innri gígbarmi fjallsins. Til er fræg ljósmynd af þessum fundi sem birtist í blöðum sama ár. Hemingway greip fréttina á lofti og gerði afdrif hlébarðans ódauðleg í smásögunni. Í grófum dráttum fjallar sagan um afreksmann sem fær kolbrand í veiðiferð við rætur Kilimanjaró. Hann endurskoðar ævi sína í skjóli fjallsins og áður en hann deyr birtist honum tröllaukinn hlébarði í draumi, helfrosinn á hátindi eldfjallsins. „Enginn hefir getað upplýst,“ skrifar Hemingway, „hvaða erindi hlébarðinn átti í svo mikilli hæð“.

Ég velti vöngum yfir því í morgun hvað ég myndi gera ef ég væri á leiðinni til Afríku aftur. Þá rifjaðist upp fyrir mér að mig langaði alltaf að heimsækja Mkomazi-friðlandið á Serengeti-svæðinu þar sem Tony Fitzjohn starfar við dýravernd. Fitzjohn er frægastur fyrir að vera aðstoðarmaður „ljónamannsins“ George Adamsons, en þeir störfuðu saman í Kóra-þjóðgarðinum í Keníu í 18 ár. Saman stofnuðu þeir styrktarsjóð til verndar dýralífi í Austur-Afríku, en sjóðurinn starfar allt til þessa dags og stendur straum af kostnaði við rekstur tveggja friðlanda.

George Adamson var frægastur fyrir að umgangast villt ljón án þess að hljóta af því skaða. Honum stóð meiri ógn af hómó sapíens, en sómalskir uppreisnarmenn myrtu hann árið 1989 þegar hann var 83 ára gamall. Myndin hér að neðan er ein af mörgum sem náðust af honum með ferfætlingunum sem hann kallaði „vini sína“.

George Adamson

Um síðustu ár Adamsons hefur nýlega verið gerð kvikmynd, Lifað með ljónum, með Richard Harris í aðalhlutverki. Myndin er sannkallað augnayndi, en að öðru leyti er hún ekki upp á marga fiska. — Nema fyrir þá sem smitast hafa af Afríku-bakteríunni.

Ferðasaga frá Afríku

Nú hef ég loksins bætt við tveimur þáttum úr ferðasögu minni frá Afríku sem ég skrifaði fyrir 10 árum. Ég hef ætlað að gera þetta fyrir löngu til þess að varðveita sögurnar og læt nú undan langvinnum þrýstingi úr ólíklegustu áttum. Áhugasamir geta smellt á tengingarnar hér að neðan. Aðrir láta þetta eiga sig.

Þessu er ekki að fullu lokið en eftirfarandi þættir eru komnir inn:

Ég er ekki búinn að skanna allar myndirnar ennþá en nokkrar eru komnar inn. Ég bæti við nýjum jafnóðum og ég skanna þær. Auk þess hef ég bætt við nokkrum tenglum enda þótt þeir hafi ekki verið til þegar ég skrifaði ferðasögurnar.