Tag: Blair

Myndin um Blair

Myndin um Blair heitir Drottningin. Ég sá hana í gær og fannst hún engin drottningarmynd. Helen Mirren er að vísu drottning breskra leikkvenna, en það er önnur saga.

DrottninginMyndin fjallar um það hvernig Tony Blair, nýkjörinn forsætisráðherra Bretlands, fær Englandsdrottningu til að skipta um skoðun um hvernig staðið skuli að útför „prinsessu alþýðunnar“, Díönu. Ungi stjórnmálamaðurinn metur það svo að almenningsálitið útheimti konunglega útför. Það álit byggist öðru fremur á uppsláttarfréttum fjölmiðla, skæðum ritstjórnargreinum og mann- og blómahafi fyrir utan Buckingham-höll.

En drottningin setur ekki jafnaðarmerki milli alþýðu manna og fjölmiðla. Í hennar augum eru fjölmiðlar lífshættulegir, ekki síst konungbornu fólki. Almenningsálitið endurspeglast ekki fortakslaust í fjölmiðlum því að fjölmiðlar eru „fjórða stjórnarvaldið“. Þrýstingur af þeirra hálfu hefur áhrif á almenningsálitið, ekki öfugt.

Ólíkt drottningunni er Tony Blair hins vegar algjörlega háður almenningsálitinu og hann er býsna upptekinn af fjölmiðlum. Kvikmyndin rís vitaskuld hæst á fyrsta fundi þeirra beggja eftir að útförin er um garð gengin. Þá gerist Blair svo kurteis að biðja drottninguna afsökunar á því að hafa ráðskast með hana vikuna frægu þegar prinsessan var borin til grafar og öll heimsbyggðin fylgdist með í beinni útsendingu. Þá upphefst þessi áhugaverða samræða í myndinni:

Drottningin: „Ég held að ég muni aldrei skilja hvað gerðist nú í sumar.“
Blair: „Kringumstæðurnar voru einstakar, yðar hátign. Og að lokum sýndir þú mikinn persónulegan styrk, hugrekki og auðmýkt.“
Drottningin: „Þú ruglar saman auðmýkt og auðmýkingu.“
Blair: „Það er ekki rétt.“
Drottningin: „Þú last ekki kortin á blómunum fyrir utan höllina þennan föstudag.“
Blair: „Ég held að sagan muni sýna að þetta hafi verið góð vika fyrir þig.“
Drottningin: „Og jafnvel enn betri fyrir þig, herra Blair.“
Blair: „Það eru 52 vikur í heilu ári, frú, og 2500 vikur eru liðnar frá því að þú varðst krýnd drottning. Þegar fólk metur arfleifð þína man það ekki eftir þessum örfáu dögum.“
Drottningin: „Jæja? Heldur þú ekki að minni virðing sé borin fyrir þessari stofnun en áður?“
Blair. „Nei, alls ekki. Þú nýtur meiri virðingar en nokkru sinni fyrr.“
Drottningin: „Sumir nánustu ráðgjafar þínir hafa ekki sýnt slíkan stuðning.“
Blair: „Einn eða tveir. En sem leiðtogi hefði ég aldrei tekið undir með þeim.“
Drottningin: „Af því að þú sást fyrirsagnirnar og hugsaðir: Þetta gæti hent mig. Og það mun gerast, herra Blair. Mjög skyndilega og fyrirvaralaust. [Drottning rís á fætur] Sjáðu! Ég ann þessum tíma dags. Eigum við að ganga meðan enn er bjart?“

Nú er ekki lengur bjart, að minnsta kosti ekki fyrir unga stjórnmálamanninn. Tíu árum eftir að þetta atvikaðist væri auðvelt að snúa samræðu þeirra í myndinni við, ekki síst í ljósi Íraksstríðsins. Blair gerði það í aðdraganda innrásarinnar sem drottningin er vön að gera af miklu minna tilefni: að láta ekki almenningsálitið ægja sér.

Næst væri gaman að fá kvikmynd um samskipti forsætisráðherra Bretlands og Englandsdrottningar í aðdraganda Íraksstríðsins. Ýmsar getgátur eru um að drottningin hafi ráðið forsætisráðherranum heilt, ekki síst í ljósi almenningsálitsins. En hann hafði þær ráðleggingar að engu.

Fyndnasta hlutverkið í myndinni er hlutverk James Cromwells. Hann leikur Filippus prins. Hann virðist hafa mestar áhyggjur af því að te drottningar kólni.

Þá er hlutverk Cherie Blair áhugavert, ekki síst andúð hennar í garð drottningar og konungdæmisins. Hver skyldi vera afstaða hennar til Íraksstríðsins?