Tag: Harry Potter

Galdradrengurinn

Við fórum að sjá Harry Potter, enda bæði há- og lágmenningarheimili. Ég tók með mér nesti, að sjálfsögðu, því að þetta er svo langt ferðalag. Næstum jafnlangt og flugferð yfir Atlantshaf.

Á stundum fannst mér ég vera að horfa á Hringadróttinssögu. Er ég svona kvikblindur? Þarna var að minnsta kosti eitt kvikendi sem minnti á kvikendi úr þeirri mynd. Munurinn á þessum ævintýramyndum er samt sá (hvað annað sem um það má segja), að „plottið“ er miklu skýrara í Hringadróttni. J.K. Rowling veit eiginlega aldrei hvert hún stefnir. Hún lætur nornaprikið ráða gandreiðinni milli breskra kaffihúsa þar sem hún situr og párar innblásturinn úr vínheimum á munnþurrkur.

Þetta er að minnsta kosti skelfilega hæggengt og dimmt, allt saman. Mér varð hugsað til platkóngsins í Hamlet sem stóð upp í miðri leiksýningu og heimtaði ljós. En ekki vegna þess að ég hefði uppgötvað einhverjar veilur í sjálfum mér.

Nú er þríeykið Potter—Ron—Hermione ekki lengur á ungbarnaskeiði. Kannski þess vegna sem mér fannst myndin eins og sýnishorn af æfingum þeirra. Þau verða vandræðalegri og vandræðalegri fyrir framan myndavélarnar. Eftir tvítugt ver Potter-leikarinn — æ, hvað heitir ‘ann aftur? — ævinni til að losa sig við Potter-stimpilinn. Sanniði til.

Annars verð ég neikvæðari og neikvæðari í bíó og finnst allar myndir renna út í sandinn — nema Babel, að sjálfsögðu. Það er mynd sem fangar athyglina eins og umferðarslys á fáförnum vegi. Maður á allt nestið eftir þegar sýningu lýkur. Leikstjóri hennar er einhvers konar galdradrengur.