Tag: Kanaríeyjar

Krókódílar, Las Palmas og dómkirkja heilagrar Önnu

Í gær fórum við að skoða krókódílagarðinn upp við Los Corralillos áður en við héldum í verslunarleiðangur til Las Palmas. Þetta var þriðji dagurinn sem við höfðum bílinn á leigu og við höfum ekki enn þurft að taka eldsneyti.

Krókódílagarðurinn er eign Balser-García fjölskyldunnar sem er vel kunnug á Kanaríeyjum. Tveir ættliðir sjá um rekstur fyrirtækisins. Fjölskyldan starfar í náinni samvinnu við spænsku dýra- og náttúruverndarsamtökin SEPRONA og tekur við dýrum sem hlotið hafa slæma meðferð. Garðurinn hefur vaxið hratt á síðustu árum og þar er nú að finna margar dýrategundir, til dæmis eðlur af ýmsum stærðum, Bengal-tígra, sebrahesta, mannapa, rófulanga skógarapa, gasellur og fjölda fuglategunda. Langmest er þó af krókódílum og eru þeir af öllum stærðum og gerðum. Við horfðum á sýningu þar sem starfsmaður garðsins lék listir sínar með Nílar-krókódíl. Þá sáum við einnig páfagaukasýningu sem minnti talsvert á sýninguna í Palmitos-garðinum vikunni á undan.

Þegar við höfðum séð allar dýrategundirnar í krókódílagarðinum enduðum við daginn á því að skjótast í innkaupaferð til höfuðborgarinnar Las Palmas. Við ókum rakleitt í verslunarmiðstöðina Las Arenas sem minnir svolítið á Kringluna. Þar er meðal annars að finna stórmarkaðinn Carrefour, eða Hagkaup Suður-Evrópubúa, og Disney-búð svo eitthvað sé nefnt.

Við notuðum líka tækifærið og fórum í gamla hverfið Vegueta til þess að skoða Santa Ana dómkirkjuna og Hús Kólumbusar. Í Vegueta-hverfinu eru margar þröngar einstefnugötur og þar er nánast ógjörningur að fá bílastæði. Við vorum búin að aka marga hringi um hverfið áður en stæði losnaði skammt frá dómkirkjunni. Kirkjan er kennd við heilaga Önnu og ákvörðun um að byggja hana var tekin strax eftir hertökuna 1478. Framkvæmdir hófust á aldamótunum 1500 en þeim lauk þó ekki að fullu fyrr en fjórum öldum síðar. Útsýni er mjög gott frá turnunum og greiddum við um 3 evrur til að komast þangað upp í lyftu. Inni í kirkjunni eru falleg bogagöng og verðmætar höggmyndir eftir kirkjulistamanninn José Luján Pérez. Í skrúðhúsinu eru helgigripir frá 16. öld og altarið er frá barokk-tímanum.

Framan við dómkirkjuna er torg hinnar heilögu Önnu, eða Plaza de Santa Ana. Þar fara fram allar helstu trúarhátíðir katólsku kirkjunnar á Kanaríeyjum. En þar fóru einnig fram aftökur spænska rannsóknarréttarins fyrr á öldum. Helgi staðarins er því tvíeggjuð, eins og á Þingvöllum. Fremst á torginu framan við innganginn í helgidóminn standa sex grimmir rakkar og standa vörð um dómkirkjuna í bókstaflegri merkingu. Þessar tilkomumiklu höggmyndir þykja renna stoðum undir þá tilgátu að Kanaríeyjar dragi heiti sitt af hundum fremur en fuglum, en latneska orðið canis þýðir hundur. Íbúar hundaeyja eru hins vegar ekki alls kostar sáttir við þessa niðurstöðu enda hefur hundur verið notað sem smánarorð öldum saman.

Af hundaslóðum við dómkirkjuna er ekki nema snertispölur yfir í kapellu heilags Antons ábóta frá 15. öld þar sem Kristófer Kólumbus er sagður hafa beðist fyrir áður en hann hélt yfir Atlantshafið. Þangað héldum við í eftirvæntingu eftir að við höfðum fest hundana á filmu. Kapella heilags Antons var endurnýjuð á 18. öld svo við drógum ekki skó af fótum okkar þótt stæðið sé merkt þar sem Kólumbus á að hafa beygt kné sín.

Við enduðum borgarferðina á að skoða Kastala ljóssins, Castillo de la Luz, sem stendur í hafnarhverfinu. Við höfðum mikið fyrir því að komast þangað en það var varla ómaksins vert. Kastalinn er ekkert sérlega tilkomumikill, en hann er merkilegur fyrir þær sakir að hann er upprunalegur. Honum hefur ekkert verið breytt frá því hann gegndi hlutverki varnarvirkis í höfninni til þess að bægja sjóræningjum frá borginni. Nú er kastalinn lokaður vegna byggingarframkvæmda og má búast við ýmsum róttækum breytingum. Við fengum ekki að skoða hann að innanverðu en hittum arkitektinn óvænt að máli með teikningarnar úti á bílastæði. Hann naut þess að tala ensku og hefði sjálfsagt ekki virt okkur viðlits nema af því að við vorum útlendingar.

Ókum heim í myrkri eftir hraðbrautinni á 120 kílómetra hraða á klukkustund. Ferðin tók því ekki nema um það bil 40 mínútur.

Í kvöld fljúgum við heim eftir hálfsmánaðar veru hér.

Hringferðin um Gran Canaria

Í gær fórum við á fætur fyrir birtingu og héldum í hringferðina. Eyjan Gran Canaria er næstum hringlaga og hefur vegur verið lagður umhverfis hana með bundnu slitlagi. Sé þessi leið ekin viðstöðulaust er hún varla nema dagsferð.

Við vildum fara okkur hægt og ókum fyrst til hafnarbæjarins Puerto Rico sem dregur til sín aragrúa af ferðamönnum á hverju ári. Þetta er fallegur staður og kletturinn sem þarna gnæfir yfir höfninni hefur beinlínis verið skorinn út fyrir hótelbyggingar. Það er afar tilkomumikil sjón. Hótelgestir verða að fara á ströndina niður snarbratta stiga eða með lyftu sem hangir utan á byggingunum. Þá hefur verið „skorinn út“ göngustígur meðfram kletti sem skagar út í Atlantshafið frá Puerto Rico, en hann leiðir vegfarendur að tilbúinni strönd sem hönnuð hefur verið sérstaklega fyrir ríka ferðamenn. Við gengum fyrir klettinn eftir stígnum og skoðuðum plat-ströndina. Þar er skjólgott og háar hótelbyggingar enn í smíðum. Þetta er sannkölluð sólar-paradís. Þennan dag var heiðskírt, yfir 25 stiga hiti og blæjalogn. Við settumst inn á bar og fengum okkur svaladrykk í hitasvækjunni og horfðum á bera líkama og ég fór með þessa vísu fyrir Ráðsku:

Sólin lætur sólskinið
svíða mannagreyin,
bara til að venja þá við
velgjuna hinumegin.

Sólin var í hádegisstað þegar við héldum til næsta hafnarbæjar, en hann er ekki síður áhugaverður. Hann heitir Puerto de Mogán en hefur fengið viðurnefnið „Litlu Feneyjar“. Þessi litli hafnarbær er einhver fegursti viðkomustaður á Kanaríeyjum. Hann nýtur þess fremur en geldur að vera úr alfaraleið, að minnsta kosti fram til ársins 1970. Þá var hann lítt þekktur fyrir annað en fiskveiðar. En á áttunda áratugnum var hann „uppgötvaður“ og er nú einn helsti ferðamannastaðurinn á Kanaríeyjum enda þótt hann sé ekki á þjóðvegi númer eitt. Lítil á rennur í gegnum bæinn og í höfninni liggja mörg hundruð skútur við landfestar. Það er hér sem skútueigendur allra landa sameinast og bera saman bækur sínar. Hér er einnig hægt að fara í kafbátasiglingu með Yellow Submarine og skoða skrautfiska í sjónum. Við gengum um bæinn og tókum nokkrar ljósmyndir.

Héðan ókum við upp í fjöllin á vesturströndinni með fyrstu viðkomu í Mogán þar sem við skoðuðum krossinn sem kenndur er við bæinn. Fórum svo alla leið til Aldea de San Nicolás og sem leið liggur upp að útsýnisstaðnum Mirador de Balcón. Þar standa menn á öndinni ef þeir horfa niður harmavegginn og yfir alla norð-vesturströndina að láglendinu við Agaete. Landslagið er í einu orði sagt hrikalegt. Sé horft út á Atlantshaf má sjá tindinn Teide á eyjunni Tenerife fljóta í lausu lofti. Það sjónarspil minnti mig á Kilimanjaró þegar ég ók í gegnum Arusha í Tansaníu um árið.

Teide er eldfjall eins og Kilimanjaro. Í leiðarbókum Kólumbusar segir 9. ágúst 1492: „Þeir sáu elda mikla stíga frá hábungu Tenerifeeyjar, sem er afar há.“ Kólumbus kom aldrei sjálfur til Tenerife-eyjar, en svo virðist sem hann hafi séð eldfjallið Teide á bakaleiðinni frá Gómera áður en hann hélt í leiðangurinn yfir Atlantshafið. Aðrar heimildir um eldgosið 1492 hafa þó ekki fundist.

Vegurinn eftir harmaveggnum hjá Mirador de Balcón niður til bæjarins Job er sannast sagna hrapallegur. Stundum urðum við svo lofthrædd í bílnum að við misstum jafnvægi og ég er ekki frá því að mér hefði verið um megn að hemla ef til þess hefði komið. Vegir Vestfjarða eru léttvægir í samanburði við þessa klettaslóð. Við vörpuðum öndinni í Agaete og fengum okkur síðan að borða í litla strandbænum Puerto de las Nieves. Hann er ígildi Sandgerðis. Eftir matinn skoðuðum við kirkjuna á staðnum og klettinn Dedo de Dios, eða Fingur Guðs, sem rís upp úr höfninni og gefur heiminum fokk-merki.

Frá Agaete ókum við rakleitt upp til Gáldar þar sem við hlustuðum á klukkur dómkirkjunnar slá sex, héldum svo áfram eftir hraðbrautinni til Guía. Enn var ekki tekið að rökkva og aðeins stutt til höfuðborgarinnar Las Palmas og því ákváðum við að fara út af þjóðveginum, upp til Arucas, til þess að sjá hina frægu gotnesku kirkju sem þar gnæfir yfir bænum. Enginn áhugamaður um kirkjubyggingar ætti að láta þetta guðshús framhjá sér fara. Margir halda að þessi tignarlega bygging sé gömul dómkirkja en hún er í raun aðeins sóknarkirkja í Arucas og var byggð á 20. öld. Hún er kennd við San Juan Bautista og er stolt katólsku kirkjunnar á Kanaríeyjum. Þegar við höfðum myndað þessa fallegu kirkju frá öllum hliðum héldum við aftur út á hraðbrautina sem leið liggur í gegnum Las Palmas og áleiðis eftir austurströndinni suður til Telde-borgar þar sem við snæddum hamborgara á McDonalds. Hringferðinni lauk á Ensku ströndinni á miðnætti.

Inn í hjarta Gran Canaria

Fyrir aldurssakir vildum við Ráðska ekki fara í rútuferðirnar sem ferðaskrifstofan bauð Íslendingunum. Við vorum langyngst í hópnum. Við kusum heldur að leigja okkur bíl í þrjá daga og fórum í fystu ferðina í gærmorgun inn í hjarta Gran Canaria eyjunnar.

Við ókum sem leið liggur af Ensku ströndinni beint upp á Lomo de los Pajaritos fjallið. Við höfðum ekki ekið nema í um það bil 30 mínútur þegar við komum að Mundo Aborigen safninu þar sem lifnaðarhættir frumbyggjanna, sem kallast guanch á frummálinu, eru sviðsettir undir berum himni á afar tilkomumikinn hátt. Þar hefur verið reist hringlaga byggð með hellum og húsum úr steinum sem eiga að endurspegla búskaparhætti eyjarskeggja áður en Spánverjar hertóku eyjuna í lok 15. aldar. Dúkkur í fullri líkamsstærð standa á víð og dreif um svæðið klæddar mittisskýlum. Úr fjarska líta þær út eins og lifandi fólk að störfum, en þegar nær dregur fer ekki milli mála að þetta eru líkön af mannslíkömum frumbyggjanna. Þeir voru hávaxnir og hvítir á hörund. Á meðan gestir safnsins virða hikandi fyrir sér þessa daufdumbu jafnoka sína hljómar ljúfsár tónlist sem ljær þessu tilbúna umhverfi töfrandi blæ. Tónlistin er að sínu leyti rödd frumbyggjanna, en þeir týndu tölunni þegar Spánverjar tóku af þeim landið. Nú finnst heimamönnum þeir vera upprunalegastir og sýna þessu safni lítinn áhuga. Umhverfi safnsins er ægifagurt og gnæfir hátt uppi yfir ströndunum þar sem nútímamaðurinn liggur áhyggjulaus í sólbaði í fjarska.

Héðan var ferðinni heitið niður í „dal hinna þúsund pálma“, eða Fataga-dalinn, sem leið liggur að litla þorpinu Arteara. Þar slógumst við í för með norskum ferðalöngum og fórum á bak kameldýrum á Manolo-búgarðinum. Kameldýrin voru klyfjuð tveimur stólum á hvorri hlið sem við sátum í og það var ekki laust við að við vorkenndum þeim að þurfa að bera alla þessa byrði. En þau fóru létt með það. Við höfðum lengi átt orðaskipti við fararstjóra hópsins á ensku þegar hann spurði okkur hvaðan við værum. Við héldum að þessi unga stúlka væri norsk. Þegar við sögðum „Iceland“ horfði hún undrandi á okkur drykklanga stund eins og við hefðum leyst gátu og kallaði: „Ég líka!“ Á þessu augnabliki var mikið hlegið á meðan kameldýrin gögruðust þarna inni á milli þéttra fjallanna. Þetta var semsé hún Kristín sem hefur búið á Kanaríeyjum í hartnær 8 ár og talar að minnsta kosti 12 tungumál reiprennandi. Hún býður viðmælendum sínum að velja sér tungumál. Um langt árabil hefur hún sinnt fararstjórn fyrir norska ferðamenn, sænska, danska, hollenska og þýska en Íslendingar fara allir á mis við hana.

Eftir viðkynnin við Kristínu fórum við til bæjarins Fataga og borðuðum heimalagaða kjúklingasúpu á litlum veitingastað sem rekinn er af fjölskyldu á staðnum. Dætur eigandans og brytans þjóna rösklega til borðs. Þessi staður er úr alfaraleið ferðaþjónustunnar — rétt eins og súpan. Súpan var full af baunum sem Ráðska gat ekki hugsað sér að leggja sér til munns. Raunar kúgaðist hún þegar hún smakkaði súpuna og var veik lengi á eftir. Þetta borðaði ég með góðri list. Að því búnu ókum við áfram sem leið liggur að San Bartolomé, fyrir Pargana-fjallgarðinn og Roque Nublo, uns við komum að hinum snotra bæ Tejeda. Þar var eins og ég fyndi frið og mig langaði til að halda kyrru fyrir. Því næst héldum við að hæsta tindi Gran Canaria, Pozo de las Nieves, en hann er 1949 metrar á hæð. Sagan segir að prestur nokkur hafi safnað saman snjónum sem féll á klettinn að vetrarlagi og flutt hann til Las Palmas þar sem hann var notaður í vatnsþurrð á San Martín sjúkrahúsinu. Þegar sólar nýtur til fulls má sjá nágrannaeyjurnar Lanzarote, Tenerife, La Gomera og La Palma af tindinum. Við vorum ekki svo lánsöm.

Þegar skyggja tók lagðist þykk þoka yfir fjallgarðana og byrgði okkur sýn. Þótt vegirnir í snarbröttum hlíðunum séu lagðir bundnu slitlagi geta þeir varla kallast annað en þröngir stígar. Þegar þoka umlykur þá geta þeir verið lífshættulegir. Þarna gengur sauðfénaður laus, en ef maður er heppinn koma langir flutningabílar úr gagnstæðri átt. Heppnin felst í því að bílstjórarnir tvínóna ekkert við að þeyta þokulúðrana. Ég veit þó varla hvort er óvænna við þessar aðstæður, sauðkind eða flutningabíll! Inni á milli fjallgarðanna eru gróðursælir dalir og mörg falleg bæjarstæði sem fanga augað og því er vissara að fara áfram með gát undir stýri þegar komið er undan þokunni. Þokan tafði för okkar út á austurströndina þar sem við ætluðum heim eftir hraðbrautinni. Við vorum ekki komin heim fyrr en undir miðnætti. Það var eins og hjarta eyjunnar vildi ekki hleypa okkur út, inn á umferðaræðina autopista, sem dælir ferðamönnum suður á bóginn, út á sólarstrendurnar. Flestir baðstrandargestir fara á mis við þessa hátign eyjunnar.

Spænsk nýlenda eða þýsk?

Kiddi bróðir hringdi í gær frá Þýskalandi um það leyti sem sól var að setjast yfir sandhólana á Maspalomas. Þá sátum við Ráðska á notalegum veitingastað við ströndina og horfðum á síðustu baðstrandargestina skola af sér grómið. Við vorum rétt að ljúka við að borða sinn helminginn hvort af heilum, grilluðum kjúklingi sem borinn var fram með fagurlega skreyttu grænmeti og bökuðum kartöflum. Máltíðin kostaði aðeins þrjár evrur og sextíu sent fyrir hvort okkar. Það er ástæða fyrir Íslendinga að nefna þetta. Við höfum reiknað út að hér á Kanaríeyjum geta þrír hæglega farið út að borða kjúkling á góðum veitingastað fyrir sama verð og einn skammt af skyndibita í lúgusjoppu heima á Íslandi.

Ég sagði Kidda að ég væri ekki viss hvort Kanaríeyjar væru spænsk nýlenda eða þýsk. Þýskir ferðamenn eru svo útbreiddir hérna að eyjarskeggjar eru farnir að tala ágæta þýsku og miða þjónustu sína nær eingöngu við þarfir Þjóðverja. Meira en helmingur allra hótelgesta hér eru Þjóðverjar. Ókunni Englendingurinn sem Playa del Inglés dregur nafn sitt af yrði vafalaust hissa að sjá hvernig Þjóðverjar hafa beinlínis lagt undir sig strendur Kanaríeyja. Gulu póstkassarnir sem standa við verslunarmiðstöðvarnar á Ensku ströndinni hafa tvær rifur. Önnur er merkt Þýskalandi, hin er fyrir öll önnur lönd heimsins.

Ég hef engan veitingastað fundið enn sem hefur ekki þýskan matseðil. Reyndar eru nokkrir með matseðil á íslensku og hefur það komið okkur Ráðsku þægilega á óvart hverju sinni. Okkur gæti meira að segja hafa yfirsést þetta sums staðar. En veitingastaðir sem reknir eru af Þjóðverjum skipta hundruðum ef ekki þúsundum á Ensku ströndinni. Íslendingar eru stoltir af þessum eina íslenska jafnvel þótt hann beri ekki einu sinni íslenskt nafn. Hann heitir Cosmos og er í Júmbó-verslunarmiðstöðinni. Við Ráðska höfum tvívegis hitt Íslendinginn Klöru sem rekur þennan stað með spænskum eiginmanni sínum en við eigum einmitt stefnumót við nokkra Íslendinga hjá þeim hjónum í kvöld. Klara býður upp á fjórrétta alíslenska máltíð með hamborgarhrygg í aðalrétt.

Sendi Ted, Christine, Allyson, Helen og Ken póstkort í dag og sagði þeim að ég hefði fundið garð Vesturdísanna sem gættu gulleplanna fyrir Seif og Heru. Einnig að ég hefði fundið kapelluna þar sem Kólumbus baðst fyrir áður en hann hélt í leiðangurinn yfir Atlantshaf. Lauk síðan við að lesa leiðarbækurnar úr fyrstu siglingunni til Indíalanda.

Tölvur og páfagaukar

Hótelið okkar stendur við Avenida de Tirajana sem er ein aðalumferðaræðin á Ensku ströndinni. Við hótelið er torg sem heitir Agaete og þar er nethúsið CMP (Computer Meeting Point) þar sem ég sit og hripa þessar línur. Þetta nethús er rekið af Þjóðverjum og vafstur í eina klukkustund kostar fimm evrur og fjörutíu sent. Það er tiltölulega dýrt miðað við mörg netkaffihús í borginni en á móti kemur að aðbúnaðurinn er allur til fyrirmyndar. Hér er meira að segja hægt að skanna inn myndir og vinna á PhotoShop. Sumir ferðamenn setja myndirnar sýnar á Netið áður en þeir fara heim. Sem betur fer minnir Ráðska mig sífellt á að við erum á sólarströnd í fríi.

Á þriðjudaginn fórum við í fugladýragarðinn Palmitos í Maspalomas. Tókum strætisvagn númer 45 á götuhorninu við hótelið okkar og greiddum tvær evrur og níutíu og fimm sent fyrir ferðina. Ferðin tekur um það bil 30 mínútur. Fuglagarðurinn er tvímælalaust fallegasti dýragarðurinn á Kanaríeyjum. Þar má finna óteljandi fuglategundir, fiðrildahús, fiskasafn, aldingarð og sérstakan kaktusgarð. Það er ógleymanleg reynsla að ganga um þennan garð og sjá allar þessar fuglategundir berum augum.Garðurinn liggur í þröngu gili, inni á milli þéttra, skógivaxinna hlíða og er hannaður utan um náttúrulegt umhverfi dýranna. Þess vegna ganga margar fuglategundir lausar í garðinum; þeim er eiginlegt að lifa í þessu umhverfi og ekkert fararsnið á þeim. Þarna heyrast mörg undarleg hljóð. Fyrir utan fjölskrúðuga páfagauka er þarna að finna flamingó-fugla, pelíkana, páfugla, svarta svani, óteljandi andategundir, finkur, uglur, erni, fálka og aðrar ránfuglategundir. Þar að auki eru að minnsta kosti tvær sjaldgæfar apategundir. Við horfðum á páfagaukasýningu en okkur til sárrar gremju féll ránfuglasýningin niður vegna veðurs. Það var of hvasst og regnskúrir helltust yfir garðinn að minnsta kosti tvisvar á meðan við vorum þar. Við urðum holdvot á augabragði og urðum að leita skjóls í veitingahúsunum vegna kulda. Við vorum klædd eins og baðstrandargestir — hvað annað.Við höfum frestað hringferðinni þangað til í næstu viku. Kusum að fara á ströndina í gær. Hún er víðáttumikil, allt að 2.700 metrar að lengd, og nóg pláss handa öllum. Sáum hina frægu sandhóla — Dunas de Maspalomas — sem tala sínu máli um útbreiðslu Sahara. Sandhólarnir eru eins og smækkuð mynd af eyðimörkinni. Í þessu landslagi liggjum við Ráðska fáklædd undir sólhlíf og lesum sína bókina hvort — ég um eyðimörk veruleikans og Baudrillard, hún um eyðimerkurblómið Waris Dirie.

Komin til Kanarí

Flugið hingað út á laugardagskvöldinu var hreinasti draumur. Það var varla að við fyndum fyrir því að við værum að fljúga. Þessar Boeing 757 þotur eru greinilega bestu græjur og veðrið var hagstætt á leiðinni. Vorum rétt tæpa fimm tíma í loftinu. Margt kunnugra manna um borð, þar á meðal Hrafn Gunnlaugsson og Páll Sigurjónsson svo einhverjir séu nefndir. Greinilega fleiri á leið í frí en við tvö. Allir í góðu skapi og engu líkara en við værum öll ein fjölskylda. Þetta er blekking sem verður til þegar Íslendingar hittast í háloftunum. Þótt þeir sitji þétt saman verður ekki annað sagt en að þeir séu úr tengslum hver við annan. Á milli þeirra er algert sambandsleysi — órafirð.

Enginn hefur lýst þessari ferðatálsýn betur en enski stílsnillingurinn Somerset Maugham í smásögunni Regninu:

Between the Macphails and the Davidsons, who were missionaries, there had arisen the intimacy of shipboard, which is due to propinquity rather than to any community of taste.

Við Ráðska sátum hjá gömlu flugfreyjunni og sjónvarpsþulunni Guðrúnu Ólafsdóttur sem kynnti barnatímann fyrir minni kynslóð í gamla daga. Ég reyndi að fá hana til að flytja gamlar dagskrárkynningar á leiðinni án árangurs.

Við vorum komin á hótelið okkar um hálf eitt að staðartíma. Erum hæstánægð með staðsetninguna, en hótelið er í hjarta borgarinnar við Ensku ströndina, miðsvæðis við Tirajana-götu sem Íslendingar kalla Laugaveginn. Héðan er stutt í allar áttir. Fann netstofu á götuhorninu við hótelið nóttina sem við komum og sofnaði áhyggjulaus! Í gær, sunnudag, fórum við í langa gönguferð um borgina og skoðuðum meðal annars verslunarklasann Júmbó sem er ígildi Kringlunnar. Verðlagið kemur að sjálfsögðu mest á óvart hérna, ekki síst matarverðið sem er um það bil helmingur af því sem þekkist á Íslandi. Við höfum verið að æfa okkur í að hugsa í evrum en eftir myntbreytinguna á áramótum talar enginn Spánverji lengur um peseta. Fyrst um sinn þurftum við að spyrja hvað hlutirnir kostuðu marga peseta áður en við gátum umreiknað verðið í íslenskar krónur. Fyrir þá sem hafa ekki enn áttað sig er ágætt að líta svo á að ein evra sé 100 krónur en draga síðan 10 krónur af (þ.e. 1 evra = 90 krónur). Eftir að hafa borið þetta þannig saman er ég ekki frá því að verðlag á Spáni hafi hækkað svolítið við myntbreytinguna. Spænskir kaupmenn virðast hafa lært íslensku aðferðina og notað tækifærið og hækkað vöruverð í tilefni myntbreytingarinnar — og líklega til þess að fagna aldamótum.

Verðið hér er þó ennþá mjög hagstætt á íslenskan mælikvarða — rétt eins og veðrið. Veðrið er sannast sagna afbragðsgott eins og vænta mátti. Kanaríeyjar eru aðeins um 100 kílómetra undan vesturströnd Afríku og því sumarblíða allt árið um kring. Hér verður hins vegar sjaldan of heitt, eins og til dæmis á Spáni. En jafnvel þótt heitt sé í veðri er alltaf gola af hafi sem gerir þetta allt bærilegt. Það var miklu heitara á Spáni síðastliðið sumar. Við höfum í hyggju að leigja bíl um helgina og aka hringveginn á eyjunni Gran Canaria. Það er varla meira en dagsferð.