Tag: Lundúnir

Lundúnablogg

Það mátti heita að suðræn veðrátta legði blessun sína yfir land hinna hvítu stranda þegar við vorum í Lundúnum. Himinninn var heiður og blár og veðurblíðan einstæð í heimsborginni. Við veitingastaði og krár stóðu borð úti á stétt og yfirleitt var setið við þau öll. Vorið góða grænt og hlýtt kemur fyrr hjá Englendingum en Íslendingum.

Að þessu sinni flugum við með Iceland Express á Stansted í fyrsta skipti. Flugið var gott og ég saknaði ekki „fangafæðisins“ hjá Derinu. Mér kom nokkuð á óvart, að hvergi þrengdi að mér í vélinni. Ráðska þurfti að minna mig á að ég hefði lést nokkuð síðan síðast.

Við tókum hraðlestina frá Stansted beint inn í lestarstöðina við Liverpool Street. Þaðan tókum við svo miðlínuna neðanjarðar, Central Line. Þegar ég kom upp úr neðanjarðarstöðinni við Bond Street og fór að litast um, fannst mér ég kannast við línur húsa og gatna eins og drætti í gömlu, velþekktu andliti. Ég fór rakleitt í Selfridges og keypti mér Montecristo hjá J.J. Fox í tilefni dagsins. Það hef ég gert nokkrum sinnum áður. Vindlaherbergið er heill heimur út af fyrir sig.

Hótelið sem við vorum á er við Grosvenor-torg, rétt hjá bandaríska sendiráðinu. Þarna er meiri öryggisgæsla en annars staðar í borginni af kunnum ástæðum, en við völdum ekki hótelið þess vegna. Hótelið þykir nokkuð fínt og er auk þess annálað fyrir lipra þjónustu. Einu dyrnar sem gestir þurfa raunverulega að opna sjálfir eru herbergisdyrnar. Við Ráðska opnuðum óvart nokkrar dyr fyrir þjónana af því að þeir voru svo fínir.

Þá eldar þarna frægur matreiðslumeistari, Brian Turner, en hann er svo vinsæll að fjölmargt fólk er á hótelinu til að borða en ekki gista. Ég held að ég geti fullyrt, að þó að hótelið sé í byggingarstíl Georgstímans er maturinn sem þar er borinn fram ekki byggður á skúlptúr. Hann er framleiddur fyrir bragðið en ekki útlitið og í matreiðslunni er borin virðing fyrir eðlisbragði hráefna. Þennan frasa hef ég étið upp eftir Jónasi.

Fyrir utan góðan mat er einungis snerpuspölur á Oxford-stræti frá hótelinu og það er meginástæðan fyrir því að við völdum það. Frægðarfólk heldur blaðamannafundi í hliðarsölum hótelsins og það kitlar hégómagirnd margra. En hún kæra mín kærði sig kollótta um þetta eftir að hún sá verslanirnar á Oxford-stræti.

Síðast þegar ég var í Lundúnum var parísarhjólið á bökkum Thamesár ekki tilbúið. Lundúnaaugað er gott nafn á þennan jötunn, svo mikla útsýn gefur þar á tvær hendur. Þegar kláfinn er hæst á lofti er eins og numið sé staðar á þverhníptri fjallsegg. Lofthrædda sundlar af að horfa niður og þeir verða fjöðrum fegnir þegar þeir taka að síga að nýju.

LundúnaaugaðÉg sá eftir því að hafa ekki boðið Ráðsku kampavínstúrinn. Á meðan við stóðum í biðröðinni sáum við kærustupar fara inn í eina loftferjuna ásamt leiðsögumanni og hann skenkti þeim kampavín með bros á vör í hálfa klukkustund á meðan hjólið snerist. Ég gat ekki betur séð en að leiðsögumaðurinn héldi tölu um öll helstu kennileitin sem þarna blasa við augum. Ferð í Lundúnaauganu getur verið býsna tilkomumikil þegar rökkrið færist yfir og daufum purpuraroða kvöldsins bregður á nokkrar sögufrægustu hallir heims. Ég sá Buckingham-höll sólfáða í garði heilags Jakobs og konan sem hélt í hönd mér var drottningarjafni.

Þeir sem eru enn á þrítugsaldrinum í Lundúnum og vilja dansa við nútímalega smástelputónlist eiga að fara á Strawberry Moons á Heddon-stræti. Ungur dyravörður á hótelinu okkar sagðist „djamma“ þar reglulega. Þessi næturklúbbur minnir um margt á íslensk diskótek, einhver andlausustu mannamót veraldar. Kvöldið sem við vorum þarna þeytti ungur maður skífur, en hann var slíkur glópur, að hann lækkaði sýknt og heilagt í lögunum til þess að skjóta inn eigin vísdómsorðum. Það var nánast ógjörningur að dansa við tónlistina af þessum sökum. Breska plötusnúða vantar hvorki vitsmuni né talanda.

Gamlar fertugar sálir láta þetta yfir sig ganga ef maki þeirra er ennþá ungur og sprækur. Mér tókst ekki að draga dansdrottninguna út úr þessum kvalastað fyrr en eftir miðnætti. Mín kjörna leið var Regent-stræti, sem er í göngufæri við næturklúbbinn, á mörkum Soho og Westminster. Ofarlega í því stræti er hliðargata sem heitir því hæverska nafni Kingly. Þar, herrar mínir og frúr, standa alvöru breskar krár á hverju horni og sumar þeirra bjóða lifandi tónlist öll kvöld vikunnar, allt árið um kring. Við fórum inn á heimsfrægan blúsbar sem heitir Ain’t Nothin’ But, beint á bakvið Hamleys, en þar hlýddum við á blökkumanninn Jerimiah Marques flytja frumsamin lög með The Blue Aces. Jerimiah situr og leikur á kóngatrommu um leið og hann syngur. Þetta — ásamt tári af Laphroaig — bjargaði næturlífinu í heimsborginni fyrir mitt leyti.

Jerimiah MarquesMér skilst að í sumar sé von á sjálfum Vasti Jackson frá New Orleans á þessari krá. Það kemur svo sem ekki á óvart því að kráin minnir talsvert á Bourbon Street. Blús-áhugamenn sem hyggja á ferð til Lundúna í sumar ættu að fylgjast vel með þessu.

Við fórum tvisvar sinnum í Notting Hill og leiddumst með kurt og pí eftir Portobello Road. Íslendingar virðast hafa tekið upp þennan sið eftir að samnefnd kvikmynd með Hugh Grant og Julia Roberts kom út 1999. Stemmningin sem að hluta endurspeglast í kvikmyndinni (en aðeins að hluta) hefur hins vegar svifið þarna yfir vötnum í meira en hundrað ár.

Gatan dregur nafn sitt af sveitabæ frá 18. öld sem var nefndur eftir sjóorrustunni við Puerto Bello í Mexíkóflóa 1739 þegar Bretar báru sigurorð af Spánverjum. Götumarkaðurinn hófst upp úr 1860 og nær hámarki ár hvert með kjötkveðjuhátíð í ágústmánuði.

Við byrjuðum á því að skoða Jóhannesar- og Jakobskirkjur á hæðunum ofan við Portobello áður en við gengum sjálfa Portobello-götu frá suðri. Þetta var á laugardagsmorgni þegar götumarkaðurinn var enn að búa sig fyrir múginn og margmennið eftir hádegið. Þeir sem eru veikir fyrir gömlum munum eru leiddir í freistni við hvert fótmál á þessu dásamlega markaðstorgi.

Portobello Road

Síðdegis hvíldum við lúin bein á Portobello Grove, pöntuðum freyðandi öl í kollu og störðum á fólk af öllu þjóðerni eins og í leiðslu. Enduðum síðla kvölds við brúna þar sem Westway-hraðbrautin gengur yfir Portobello Road. Þar settumst við inn á Babes ‘n’ Burgers og borðuðum ódýrt. Ég fékk mér baunasúpu fyrir þrjú og hálft pund. Súpan var blá á litinn og leit út eins og gubb, en hún var góð á bragðið. Fróðir menn segja að þetta sé súpa Bridget Jones.

Óhætt er að fullyrða að Babes ‘n’ Burgers marki endalok götumarkaðarins á Portobello enda þótt hann nái nokkuð norðar. Allt sem selt er handan við brúna er drasl.

Um fleira kæri ég mig ekki um að skrifa í bili, en við fórum að sjálfsögðu í vaxamyndasafnið Madame Tussauds, sóttum aftansöng í Sankti Pálskirkju, sigldum undir brýrnar á ánni Thames, skoðuðum Tower of London, gengum Westminster-hringinn og þar fram eftir götum. Ráðska var að sjá þetta allt í fyrsta skipti. Þá sáum við kvikmyndina Notes on a Scandal (Hugleiðingar um hneykslismál?) í Curzon Mayfair, en myndin er tekin í Lundúnum.

Við misstum af Turner en hyggjumst bæta úr því síðar. Lundúnum er aldrei lokið.