Tag: Samkynhneigð

Saga um Afríkutré verðlaunuð

Úr heimsálfu sem ennþá verður að teljast nokkuð myrk — ekki síst vegna þess að samkynhneigð er þar ennþá fordæmd sem samfélagsmein, jafnvel bönnuð með lögum — kemur eftirminnileg hinsegin saga eftir úgandiskan femínista, Móníku Arac de Nyeko. Sagan hlýtur í ár Caine-verðlaunin sem kennd eru við breskan athafnamann og lávarð, Michael Caine. Mikjáll þessi hefur aldrei leikið í kvikmyndum svo vitað sé.

The Jambula Tree

Sagan sem um ræðir heitir The Jambula Tree — hvað annað, í Afríku hverfist allt um tré. Hún fjallar um tvær æskuvinkonur sem elska hvor aðra. Þegar vináttan umbreytist í ást — já, eða við skulum segja þegar ástin kemur undan hvolfþaki trjánna og verður sýnileg í sólinni — leggur samfélagið fæð á stúlkurnar. Fjölskyldur þeirra bregðast að vonum hart við og senda aðra þeirra í útlegð til Englands. En þessar hugrökku stúlkur skammast sín aldrei fyrir ást sína hvor á annarri, jafnvel ekki þegar þeim er stíað sundur.

Þessa sögu mættu allir lesa sem hafa ennþá smekk fyrir hinu fagra og saklausa — og eru orðnir þreyttir á íslenskum fýlubombum. Söguna má lesa í smásagnasafninu African Love Stories sem kom út í fyrra í ritstjórn Ama Ata Aidoo. Ég bendi á þessa umfjöllun um nýja útgáfu bókarinnar.

Ég pantaði þessa bók á útmánuðum — þegar síðvetrarmæðan reyndi að hengja mig í ljósakrónunni — og gat ekki annað en glaðst þegar ég sá sögunnar getið í Morgunblaðinu í morgun. Þegar Afríkumenn, karlar eða konur, fá verðlaun á Vesturlöndum eru þeir nafngreindir í fjölmiðlum. Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.

Á heimleið 1991 hafði ég viðdvöl í Kampala. Í aðfluginu kvaddi ég vini og ættmenni í þögulli bæn því að ég hélt að flugvélin væri að hrapa. Kannski meira um það síðar.

Samkynhneigðir settir út af sakramentinu?

Hvaða sakramenti?!

Í katólskum sið eru sakramentin talin sjö. Hefst nú lesturinn: skírn, skriftir, altarisganga, ferming, hjónavígsla, prestvígsla og síðasta smurning.

Í lúterskum sið eru þau einungis tvö: skírn og altarisganga. Það er vel sloppið. Já, við erum stálheppnir, Íslendingar (allir nema Hafnfirðingar)!

Munkurinn gat gengið að eiga nunnuna með góðri samvisku og síðan hefur einn dagur leyst annan af hólmi og ein nótt ýtt annarri út í ginnungagapið þar sem óskapnaðurinn ríkir og engin stundaklukka skiptir tímanum í eyktir — frá katólsku sjónarmiði. Lúterskir niðjar hjónaleysanna frá miðöldum skilja hiklaust við maka sinn án þess að stikna í helvíti.

Hommar og lesbíur vilja ganga í heilagt hjónaband af því að þau hafa siðferðiskennd og þroskaþörf eins og aðrir heilbrigðir menn af sömu tegund og lifnaðarhættir þeirra samrýmast hefðbundnu gildismati fjölskyldufólks. En þau fá ekki að gera þetta frammi fyrir augliti Guðs.

Íslenska þjóðkirkjan er hins vegar orðin svo áræðin á seinni árum að hún samþykkir það á Húsavík sem aldrei verður samþykkt í Róm: Að klappa samkynhneigðum á kollinn. Guði sé lof og dýrð fyrir þennan sinn dásamlega velgerning!

Blessun dugir, segja prestarnir við vonsvikna homma og lesbíur. Hvers vegna? spyrja hommarnir og lesbíurnar. Jú, sjáiði til, vegna þess að hjónavígsla er ekki sakramenti.

Fermingarbarnið á leið út úr kirkjunni: „En, mamma, hvers vegna megið þið Sigga ekki ganga í hjónaband ef að hjónavígsla er ekki sakramenti?“

„Við skulum ræða þetta seinna, Lóa mín. Ertu nokkuð kvíðin veislunni?“

Ég hallast helst að því að náðarmeðal sé norskir brjóstdropar og það er alveg ófáanlegt orðið.

Af hommum og lesbíum

Gay Pride er eina Jesú-gangan sem ég get hugsað mér að taka þátt í. Þessi hneykslunarhella „sannkristinna“ afhjúpar á vissan hátt best varðveitta leyndarmál kristindómsins, Jesú sjálfan. Ekki svo að skilja að Jesús hafi verið samkynhneigður, um það höfum við enga vissu. En hann var hinsegin að því leyti að hann tók hispurslausa syndara fram yfir réttláta hræsnara. Þetta er mikilvægt atriði í fari trúarhöfundar og mætti rifja oftar upp í kristinni kirkju. Skrautbúningar samkynhneigðra á Gay Pride götuhátíðinni eru eins og purpurakápur gagnvart prestshempum og jakkafötum hinna „kynvísu“. Salvör hefur sett upp fínar myndir sem tala sínu máli.

Mér þykir Gay Pride hátíðin sýna vel hvað farísear eru lífseigir í kristninni. Farísear nútímans eru án efa þeir sem berja sér á brjóst og þakka Guði fyrir að vera ekki hinsegin. Snorri í Betel fylltist til dæmis vandlætingu yfir Hinsegin dögum og greip til örþrifaráða í orðalagi þegar hann líkti hommum og lesbíum við bankaræningja sem eru samfélaginu hættulegir. Annar hvítasunnumaður vildi rekja sjóslys og náttúruhamfarir til þess að lög um staðfesta sambúð samkynhneigðra voru samþykkt á Alþingi. Mér rennur svo í skap við að heyra og sjá þessi ósköp, að við liggur að ég leggi til að Snorri og hans nótar ættu að saga rekavið í svo sem 10 ár, en segja ekki né skrifa nokkurn skapaðan hlut.

Bókstafstrúarmenn hafa að vísu ekki hafnað samkynhneigðum í einu og öllu, til þess eru þeir of vandir að virðingu sinni. Elskan til náungans er nú einu sinni annar höfuðþátturinn í kenningu Krists. Og kristnir trúarleiðtogar mega umfram allt ekki láta standa sig að ósamkvæmni. Þeir hafa því slegið þennan varnagla: Við elskum samkynhneigða, en hötum samkynhneigð. Við elskum syndarann, en hötum syndina. Þetta viðhorf kemur til dæmis ágætlega fram í hræmulegum pistli Friðriks Schrams á heimasíðu Íslensku Kristskirkjunnar.

Það er einhver holur hljómur í þessu fagnaðarerindi. Eitthvað yfirmáta lágkúrulegt. Óafvitað hafa þessir sjálfskipuðu siðapostular samið ný sæluboð: „Sæll er sá hommi og sú lesbía sem ekki særir sómatilfinningu mína.“ Eða: „Sæll er sá sem viðurkennir samkynhneigð sína en gerir ekki dodo.“ Illur eða góður ásetningur þessara trúarleiðtoga er vafinn inn í sjöfalt silki sjálfsblekkingar og hræsni. Þeir þykjast með þessu hafa fallist á samkynhneigða í kærleika, en þeir hafa í raun hafnað þeim staðfastlega með samblandi af meðaumkvun og lítilsvirðingu.

Andstaða bókstafshyggjumanna gegn samkynhneigðum á rætur að rekja til þess, að í Biblíunni er víða kveðið skýrt á um að hommar og lesbíur séu syndarar í augum Guðs. Um það er enginn ágreiningur. Þetta stendur skýrum stöfum í Biblíunni. Nægir að benda á Pál postula og áhyggjur hans af söfnuði Grikkja og Rómverja. Í Korintu var kynferðislegt taumleysi á fyrstu öldinni sérstakt áhyggjuefni farandprédikarans og gyðinglegar hugmyndir um hreinleika voru eina raunsanna andsvarið sem honum hugkvæmdist í viðleitni sinni til að koma viti fyrir söfnuðinn. En sögusvið ritningarinnar skiptir bókstafstrúarmenn nútímans engu. Það er algert aukaatriði. Í huga þeirra er Biblían ein og óskipt og sagnfræðilegt gildi hennar yfir allan vafa hafið. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar haft er í huga, að hvernig við hugsum um uppruna sagnanna hefur áhrif á það hvernig við lesum textana og túlkum þá.

Andstöðuna gegn samkynhneigð er víðar að finna en í bréfum Páls postula. Það væri raunar hægt að æra óstöðugan með því að leita uppi alla ritningarstaði þar sem samkynhneigð er beinlínis eða óbeinlínis fordæmd. En það skiptir ekki öllu að átta sig á því hvað stendur í Biblíunni. Hitt er ekki síður mikilvægt að gera upp við sig hvernig á að lesa Biblíuna. Er hún lögbók eða sáttaboð, er hún Grágás eða hómilía, er hún áfellisdómur eða sýknudómur? Hvert er kennivald Biblíunnar í heimi nútímans?

Segja má að tvær villukenningar vaði uppi um þetta atriði í hinum kristna heimi. Önnur er það sem kalla mætti „barnalega biblíutrú“, en hún byggist á því að skipa daglega lífinu samkvæmt lögum í Biblíunni. Hin er vitaskuld „blind trúarhyggja“, sem endar í tómri einstaklingshyggju, eins og dæmin sanna. Samspil milli trúar og skynsemi er líklega eina andsvarið við þessum villukenningum nútímans. Samkvæmt þessum skilningi færi mörgum fleygum orðum Biblíunnar best að halda gæsalöppunum. Þau eru barn síns tíma.

Hommum og lesbíum hefur verið ómaklega borin sagan hingað til. Þau eru kunn af ýmiss konar hviksögum og hugarburði. Það mætti segja mér að sumt af því væri komið úr Biblíunni. Það er eins og sumum sé fyrirmunað að skilja, að líf samkynhneigðra snúist um annað og meira en að fullnægja holdsins fýsnum. Hommar hafa árum saman verið álitnir úrkynjaðir eins og hlöðukettir. Um þá hefur gjarnan verið rætt, eins og þeir hafi ekki siðferðiskennd og þroskaþörf eins og aðrir heilbrigðir menn og að lifnaðarhættir þeirra samrýmist ekki hefðbundnu gildismati fjölskyldufólks. Ekkert er þó fjær sanni.

Það er eitthvað dásamlega heilbrigt við að vera hinsegin. Þetta þykist ég hafa lært af löngum kynnum við homma og lesbíur. Þau hafa auðgað mitt hefðgróna líf. Ég er sannfærður um að sumir eru hommar eða lesbíur af Guðs náð. En hefði ég ekki kynnst þessum guðsbörnum persónulega væri ég vafalaust annarrar skoðunar. Persónulegur kunnugleiki er mikilvægt vopn gegn fordómum.

Þá á ég því að þakka að hafa starfað lengi með áfengis- og vímuefnasjúklingum, að ég hef loksins látið mér skiljast, að samkynhneigð á ekkert skylt við óreglu. Þegar ég lít til baka, er ekki laust við að ég minnkist mín fyrir að hafa ekki áttað mig hjálparlaust á þessum augljósu staðreyndum. Að hommar og lesbíur skuli eiga við vímuefnavanda að stríða eins og aðrir menn hefur ekkert með kynhneigð þeirra að gera. Samkynhneigðum vímuefnaneytanda reynist hins vegar erfiðara að fóta sig vímulaus í gagnkynhneigðum heimi. Slíkir eru fordómarnir. Það á líklega enginn jafn bágt í íslensku samfélagi og „frelsaður“ hommi í vímuefnavanda.

Enska nafnorðið pride getur þýtt „föngulegur hópur“ og er örugglega átt við það með nafngiftinni á baráttuhátíð homma og lesbía. Þetta er nákvæmasta þýðingin á Gay Pride, eftir því sem ég kemst næst. Þetta er líka réttnefni. Hommar og lesbíur eru álitlegur hópur og þau ættu að fá að prédika í kirkjunni og hjálpa okkur að skilja að við erum að krossfesta Krist og hugsjónir hans með því að loka þau úti á götu.