Tag: Spánn

El último ritual

„Þriðja táknið“ eftir Yrsu Sigurðardóttur er á tilboði hér í Carrefour í Torrevieja. Hún heitir á spænsku „El último ritual“ og er boðin í pakka með „Minningum Geishu“.

Spænsk útgáfa Þriðja táknsins eftir Yrsu Sigurðardóttur

Kápan er eins og sú íslenska, eins og sjá má, en hönnuðurinn er í einhverjum vandræðum með þornið í nafni Þóru á bakinu. Þornið er ekki af sömu leturgerð og annar texti þar; þetta er líklega innsett tákn. En svei mér þá ef það veitir ekki titlinum aukinn slagkraft.

Spænsk útgáfa Þriðja táknsins eftir Yrsu Sigurðardóttur

Þýddir titlar

Fyrst þegar ég kom til Spánar fyrir áratug eða svo gramdist mér hversu vankunnátta í ensku var útbreidd í landinu. Það var ekki tekið út með sældinni að gera sig skiljanlegan á veitingastöðum og í verslunum og samskiptin fólust oftast í vandræðalegu handapati. Stundum þrammaði ég út af veitingastað af því að ég hafði verið misskilinn. Mér fannst þetta beinlínis dónalegt í landi sem tekur á móti milljónum ferðamanna á ári og ég er ekki frá því að ég hafi tengt þetta við heimsku. Að kunna ekki ensku jafngilti þekkingarleysi í huga mér.

Nú hef ég hins vegar séð ljósið og mér líkar það fjarskalega vel hversu lítil enskuárátta er hér á Spáni. Ég kann auk þess orðið að gera mig nokkuð skiljanlegan á spænsku. Batnandi mönnum er best að lifa.

Ég skýri þetta á þennan hátt: Spánverjar láta ekki Kanann og Tjallann taka sig í þurrt rassgatið (orðalag sem ég hef lært af samkynhneigðum ungmennum) eins og Íslendingar. Þeir þurfa ekki að túlka heiminn á ensku til þess að skilja hann. Þeir talsetja allt sjónvarpsefni sitt og þýða alla titla á móðurmál sitt. Hér segir Simpson ekki „d’oh“ þegar hann er svekktur, heldur „¡arre!“, en vinsældir hans eru síst minni.

Hér eru allir enskir kvikmyndatitlar þýddir á spænsku fortakslaust. Ég nefni nokkra af handahófi sem ég hef séð á kápum DVD-mynddiska á bensínstöðum hér í nágrenninu:

  • El Diablo viste de Prada
  • Un buen año
  • Infiltrados
  • Diamante de Sangre
  • La joya de la familia
  • El perfume
  • El exorcismo de Emily Rose

Ég efast um að nokkur Spánverji þekki þessar kvikmyndir undir enskum heitum þeirra.

Svona nokkuð myndu Íslendingar aldrei sætta sig við. Reykvískir unglingar fengju flog ef þeir sæju þessa titla íslenskaða. Á Íslandi er íslenska hallærisleg. Hún er bara fyrir okkur „heima“, svona til að ræða við pabba og mömmu og félagana. Hún er varla til neinna raunverulegra nota nema í einkalífinu.

Ég felst ekki á þau rök að markaðurinn á Íslandi sé of lítill fyrir titlaþýðingar af þessu tagi. Lýsingar á kvikmyndum eru ennþá oftast á íslensku á kápum DVD-mynddiska, svo og annar fylgitexti. Það ætti því að vera hægðarleikur einn að birta titla á íslensku. Á þessu er hins vegar enginn áhugi. Þetta er talinn algjör óþarfi. Íslendingar eru svo yfirmáta góðir í ensku að þeir þurfa ekki á þessu að halda. Enskukunnátta þeirra er svo góð, að þeir eru byrjaðir að fyrirverða sig fyrir íslensku. Íslendingar trúa því að minnsta kosti sjálfir að þeir séu voða góðir í ensku. Þeir eru miklu ánægðari með það en góða móðurmálskunnáttu.

Að vissu leyti er þetta þó á misskilningi byggt og þykist ég geta skýrt það með eftirfarandi dæmi: Ekki alls fyrir löngu gerðust þau tíðindi á Íslandi að bandarísk kvikmynd var gefin út á mynddiski undir íslenskum titli. Þessi mynd sker sig ennþá úr í hillunum á myndbandaleigunum. Hún heitir á ensku „Thank you for smoking“. Af einhverjum undarlegum ástæðum, mér ókunnum, er titill hennar íslenskaður á kápunni: „Takk fyrir að reykja“. Ég veitti þessu sérstaka athygli vegna þess að sá hópur ungmenna sem ég umgengst notaði íslenska titilinn í samræðum sín á milli, en ekki þann enska. Ungmennin tóku varla eftir þessu sjálf. Engum fannst asnalegt að segja „Takk fyrir að reykja“. Öðru nær, þetta varð raunverulegt heiti myndarinnar, nafnmerki hennar, lógó, á Íslandi sem allir þekktu á meðan hún var í umferð.

Auðvitað myndum við Íslendingar læra að meta þetta með tímanum ef þetta yrði gert í auknum mæli. En ég er ekki viss um að þetta verði nokkurn tíma gert. Við erum ennþá svo upptekin af því að verða heimsborgarar að við kærum okkur ekki um þetta. Við erum ennþá svo upptekin af alþjóðahyggju eftir gegndarlaust tómlæti öldum saman, að við erum að glutra niður íslenskukunnáttunni án þess að taka eftir því. Að lokum verðum við útlendingar í okkar eigin landi, alsælir með Pampers, því að enginn er eyland og enginn grætur Íslending einan sér og dáinn, og allt það.

Hraðbraut

Þó að hámarkshraðinn sé 120 kílómetrar á klukkustund á hraðbrautunum Autopista og Autovía hér á Spáni, aka flestir talsvert hraðar. Á dögunum tók lögreglubifreið fram úr mér þó að ég væri á 130 kílómetra hraða.

Tæp 1700 manns hafa farist á hraðbrautinni frá því í janúar. Á nokkrum stöðum eru flettiskilti við vegkantinn sem birta nýjustu dánartölur. Tölurnar breytast daglega, eins og ljóst má vera af einföldum dæmareikningi. Tölurnar minna á fjárhæðir í spilakössum, þær hækka hratt, en potturinn fellur á áramótum og þá er núllstillt.

Þessi skilti eiga að draga úr hraðakstri. Lögreglan gerir það ekki. Skiltin eru hins vegar eins og hver önnur auglýsing, ein af mörgum dauðagildrum á götunni.

Sá sem fellur í hendur hraðaræningjum á þessari leið án þess að týna lífi horfir á heiminn keyra framhjá drykklanga stund, særður við vegkantinn, áður en hjálpin berst. Til allrar hamingju eru nú allir vegfarendur með gemsa og þurfa því ekki að nema staðar, en þeir geta friðað samviskuna með því að hringja beint í Samverjann. Samverji nútímans kemst hins vegar ekki leiðar sinnar nema með sírenuvæli.

Það er óneitanlega freistandi að taka áhættuna og aka eins og bavíani hér um slóðir, til dæmis milli Torrevieja og Benidorm. Hugsið ykkur að geta skroppið frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal á innan við klukkustund.

Á Íslandi gengur umferðin ákaflega hægt og þar verður mönnum tíðrætt um hraðakstur. Þar er hverjum ökumanni einnig nauðugur aðeins einn kostur. Hér á Spáni geta menn valið á milli þjóðvegar og hraðbrautar. Flestir velja hraðbrautina.

Huliðsheimar

Við vörðum einum degi með Steindóri, Rósu og krökkunum þeirra í Huliðsheimum (sp. Terra Mítica) á Benidorm. Ég tók þessa mynd af hópnum við innganginn í þennan fræga skemmtigarð.

Talið frá vinstri: Haraldur (tengdasonurinn), Eva Laufey, Steini bróðir, Rósa, Allan, Ráðska, Sigursteinn og Alexander.

Hvað sem um þennan garð má segja, þá er hann einhver stærsti þemagarður Evrópu, alls 105 hektarar að stærð. Í honum eru um það bil 80 veitingastaðir af ýmsu tagi. Elsti rússíbaninn í garðinum, Magnus Colossus, var lengi vel stærsti viðarrússíbani í Evrópu. Nýtt leiktæki hefur verið sett upp í garðinum annað hvert ár síðastliðinn áratug eða svo, en það veldur því að flestir gestir koma oftar en einu sinni. Um það bil hálfur dagur fer í biðraðir við leiktækin, hinn helmingurinn fer í sjálf leiktækin. Sá sem vill prófa öll leiktækin verður að verja að minnsta kosti tveimur dögum í garðinum.

Heiðurshjónin Rósa og Steindór

Á slóðum strandarfara — og ekki

Í dag fórum við fjórðu ferðina okkar til Benidorm héðan af Torrevieja-svæðinu. Af því má draga þá ályktun, að við séum ekki ýkja hrifin af Torrevieja-láglendinu og skal ég ekki dyljast þess. Við leitum nánast ósjálfrátt til Alicante og þangað norðureftir, upp til fjalla, en þar þekkjum við orðið býsna vel til. Ég er ekki viss um að við eigum eftir að koma hingað aftur.

Hér í Torrevieja eru fjölmargir Íslendingar og mér sýnist að velflestir þeirra séu tilbúnir að verja dögum ef ekki vikum saman í örlitlum sundlaugargarði til þess eins að verða sólbrúnir áður en þeir snúa heim. Það þykir mér næsta auvirðileg iðja. Ég sver það við alla dýrlinga — já, þeir eru hugleiknir mér þessa dagana — að meðan öndin skröltir í skrokknum á mér skal mér standa á sama um litinn á hörundinu. Mér er hins vegar illa við að vera of þungur, en það er önnur saga.

Við sólsetur í Altea. Benidorm í fjarska

Við höfum farið til Altea og Polop, en það eru engar fréttir þegar við Ráðska erum annars vegar. Við förum þangað mörgum sinnum þegar við komum hingað á hvítu ströndina og þræðum þröngar götur og litla veitingastaði. Við þykjumst hafa komið auga á húsið okkar í Altea-hæðum sem við ætlum að eiga í ellinni. Þá höfum við farið nokkrar ferðir upp í fjalllendin, en það er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri þegar ég er á Spáni. Ég er með eindæmum kirkjurækinn þegar ég kem hingað og þramma inn í hverja þá dómkirkju sem státar af spíru og bendir til himins í brattri fjallshlíð. Þar má stundum finna syrgjandi Spánverja tendra kertaljós.

Göngugata í Altea

Um daginn létum við loksins verða að því að skoða Canelobre-perluhellinn rétt hjá Busot, ofan við El Campello, en það var sannarlega áhrifarík ferð. Kannski meira um hana síðar. (Hérna sýnist mér að séu einhverjar myndir.)

Í dag fórum við hins vegar „eingöngu“ á ferðamannaslóðir, nánar tiltekið í skemmtigarðinn Terra Natura á Benidorm. Það vorum við að gera í annað sinn frá 2004. Þetta er garður sem er vel þess virði að sjá einu sinni, en eftir það verður hann leiðigjarn, eins og einlægt allir ferðamannaskemmtigarðar í heiminum. Mig langaði hins vegar að sjá fuglana í ameríku-hlutanum aftur, en þeir eru ósviknir. Ógrynni af sjaldgæfum fuglategundum hefst við í garðinum og þar má dunda sér við að taka nærmyndir ef maður á góða linsu.

Á tröppum sóknarkirkjunnar í Altea

Í kvöld fórum við svo á „Laugaveginn“ svonefnda og borðuðum á ítalska pítsustaðnum Topo Gigio. Við höfum staldrað þar við áður eins og líklega velflestir Íslendingar sem hingað koma. Þarna má fá matseðilinn á íslensku. Þegar við komum sátu Bjössi Thor, kona hans og dóttir að snæðingi en þau eru hér í fríi í fyrsta sinn. Bjössi var að borða þarna í fjórða sinn eftir að hann kom út en hann hafði ófagrar sögur að segja af veitingahúsarápi á Benidorm. Ég spurði hvort hann hefði ekki hlegið að tónlistarfólkinu sem treður hér upp á hverju götuhorni ár eftir ár án þess að hafa snefil af hæfileikum. Ég sá að hann gat ekki leynt vonbrigðum sínum með það heldur. Hér hefði verið við hæfi að gefa „dononum“ eftirminnilega ráðningu með því að afhenda Bjössa gítar. Ætli boltabullurnar frá Bretlandi, sem sækja hingað í heiðríkjuna og blíðviðrið í stórum stíl, kynnu að meta það? Ég efast stórlega um það. Þær lifa fyrir Abba- og Queen-sýningar sem eru svo hallærislegar að minna helst á furðusýningu í nítjándualdar sirkusi.

Sóknarkirkjan í Altea

Ég benti Birni á nokkra góða veitingastaði. Það tekur tíma að læra að þekkja hauk frá hegra í veitingahúsaflórunni á ströndum Spánar. Þegar maður hefur lært þetta, lætur maður draslið eiga sig og borgar fáeinum evrum meira fyrir góða matargerð, einkum ítalska og indverska. Myndin hér að neðan er tekin af Alexander og Sigursteini á L’Obrador, fínum, ítölskum veitingastað í gamla bænum í Altea sem óhætt er að mæla með. Þar stjana þjónarnir við mann og ég fullyrði að jafnvel Jónas gæti skrifað jákvæða bloggfærslu um veru sína þar.

Á L

Gíraffi kysstur

Þessi mynd náðist af konunni minni í sleik við gíraffa í dýragarðinum Ríó Safarí skammt frá Elche hér á Spáni. Sjáið hversu afslöppuð hún er, með augun aftur.

Ráðska kyssir gíraffa

Er furða þó að ég hafi orðið afbrýðissamur? Sést sorgin í augunum?

Mannapi

Að týna heilögum Kristófer

Á leiðinni heim frá Benidorm í síðustu viku hlustuðum við Ráðska á Tom Waits í bílnum. Það var komin nótt og strákarnir sváfu í aftursætinu. Bandaríski Megasinn söng m.a. „I’ve lost my Saint Christopher“ í laginu Waltzing Mathilda. Þetta hafði þær afleiðingar að ég gleymdi að beygja við afrein 724 á hraðbrautinni í átt að Torrevieja og Cartagena og uppgötvaði það ekki fyrr en ég var kominn til Murcia!

Svona er Tom Waits góður.

Ferðadýrlingurinn var þó ekki týndur lengi. Þegar við skoðuðum katólsku dómkirkjuna hér í Torrevieja daginn eftir skrapp ég inn í lyfjaverslun til þess að kaupa sólarvörn. Hver haldið þið að standi þá við hlið mér? Jú, enginn nema biskupinn yfir Íslandi. Mér fannst ég ekki lengur áttavilltur.

Ég þorði hins vegar ekki að heilsa karli. Biskupar þurfa að fá að vera í fríi óáreittir. Mér heyrðist hann mæla á spænska tungu við afgreiðslustúlkurnar. Það fannst mér flott. Góðir biskupar eru skírðir heilögum anda og tala tungum. Biskupstungum.

Svo fékk ég nettenginguna í dag og þarf því ekki lengur að liggja í sólinni, klóra mér í hausnum, bora í nefið og horfa í gaupnir mér eins og mannapi. Ég get bloggað í staðinn og sett inn nokkrar myndir á meðan Ráðska flatmagar í garðinum og strákarnir busla í sundlauginni. Hitinn í dag er 38 stig eins og flesta aðra daga. Hér eru veðurfréttir engar fréttir.

Sprengt á Spáni

Eiga aðskilnaðarsamtök Baska á Spáni, ETA, einhverja virðingu skilda fyrir að vara við árásunum sínum áður en sprengjurnar springa?

Hvað sem um það má segja, teljum við okkur lánsöm að hafa verið víðsfjarri Santiago de Compostela í dag.

Sunnudagur í sól

Þegar sól var í hádegisstað í gær, sunnudag, fórum við í Huliðsheima (sp. Terra Mítica), sem er ekki nema í hálftíma akstursfjarlægð frá borginni. Hitastigið þar náði 35 stigum þegar verst lét. Við vörðum öllum deginum í þessum fallega skemmtigarði og vorum ekki komin heim á hótel fyrr en undir miðnætti.

Tveimur stórum tækjum hefur verið bætt við í skemmtigarðinum síðan við vorum þar síðast (2001), annars vegar gríðarstórum sveifluhringi, sem kallaður er Synkope á spænsku, hins vegar rússíbana sem keyrir farþega margar kollsteypur á hvolfi á ofsahraða í svo sem eins og eina mínútu. Þarna minna öskrin á stórslys og sumir koma með tárin í augunum út úr þessu. Við Gísli treystum okkur ekki í nýju tækin en Ráðska, Aron, Alexander og Sigursteinn fóru margar ferðir með bros á vör og tyggigúmmí í munninum. Við feðgarnir skiptumst þess í stað á að taka myndir á nýju vélina. Ég náði nokkrum munngeyplum af djarfari meðlimum fjölskyldunnar á meðan þeir sveifluðust í heiðbláu loftinu.

Við tókum strætisvagninn heim undir miðnættið. Ég greiddi með 20 evra-seðli. Ferðin niður að strönd, þar sem hótelið okkar er, kostar rétt tæpar evru á manninn, en ég fékk ekki nema fjórar evrur til baka, rétt eins og ég hefði greitt með 10 evra-seðli. Ég uppgötvaði þetta ekki fyrr en vagninn var lagður á stað og fór og leiðrétti ungan vagnstjórann við næstu biðstöð. Þá áttaði ég mig á því að hann var að reyna að svindla á mér, því hann var með sitt eigið seðlaveski í höndunum að setja 20 evra-seðilinn minn í hann. Ég sýndi honum afganginn sem hann lét mig fá og þá bað hann mig afsökunar og rétti mér eina evru. Ég fór við svo búið og fattaði ekki fyrr en við vorum komin niður að strönd að hann hafði gabbað mig tvisvar. Þá varð ég hins vegar svo reiður að ég gekk að honum og hellti úr skálum reiði minnar á ensku svo farþegum brá í brún. Í fyrstu beitti vagnstjórinn því bragði að þykjast ekki skilja stakt orð í ensku, en síðan fór hann að fara undan í flæmingi þegar ég reyndi spænskukunnáttu mína í þaula. Eftir nokkur hróp og köll og bílflaut fyrir utan var honum nauðugur sá einn kostur að afhenda mér 10 evrur, sem ég átti með réttu.

Hér þarf að hafa talsvert fyrir því að glata ekki smáaurum.

Við ætlum að fara aðra ferð í Terra Mítica áður en langt um líður, en við náðum ekki að fara yfir allan garðinn á einum degi. Þá tökum við hins vegar ekki strætisvagninn, heldur ökum í „okkar eigin bíl“.

Við sóttum einmitt sjö manna Peugeot á Hertz bílaleiguna í dag, en við ætlum að hafa hann í viku fyrst í stað. Við verðum því talsvert á ferðinni næstu daga. Byrjuðum á því að fara í verslunarmiðstöðina La Marína í Finestrat nú síðdegis, svo og Carrefour, sem er rétt við hliðina. Keyptum matvörur fyrir 100 evrur, en það samsvarar stórinnkaupum í ódýrustu og leiðinlegustu verslun Íslands, Bónusi. Þessar verslunarmiðstöðvar eru þó ekkert í líkingu við Bónus, svo glæsilegar sem þær eru og þjónustan öll til fyrirmyndar.

Það er feikna munur að vera akandi á Benidorm og geta lagt bílnum í kjallaranum á hótelinu eins og ekkert sé. Það er nánast ógjörningur að fá stæði í nágrenninu (og þótt víðar væri leitað).

Á morgun er ferðinni heitið til Altea-þorpsins í næsta nágrenni við Benidorm. Síðan hyggjumst við aka lengra og skoða spænsku þorpin og Calpe þar sem veitingar eru víst talsvert ódýrari en í ferðamannaborginni og umhverfið gjörólíkt.

Meira um það síðar.

Á Benidorm

Ég segi og skrifa á Benidorm vegna þess að þar eru tvær strendur sem menn geta valið úr; annars vegar Poniente-ströndin og hins vegar Levante-ströndin. Við erum á þeirri síðarnefndu, eins og velflestir Íslendingar sem hingað ferðast. Allt svæðið kallast síðan Costa Blanca.

Ljóst er að spænskir kaupmenn hafa grætt á myntbreytingunni 2002, eins og vera ber, en við finnum glöggt fyrir muninum. Hér er þó flest meira en helmingi ódýrara en á Íslandi ennþá, Guði sé lof.

Allt hefur gengið vel. Við erum ennþá að reyna að laga okkur að 36 stiga hita. Það tekur alllangan tíma. Við höfum flest gengið af okkur fæturna og fengið sár í nárann, en það stendur allt til bóta.

Á Benidorm er fullt af ódýrum veitingastöðum, algjöru drasli ef út í það er farið, en inni á milli eru þó góðir staðir sem bjóða dýrindis mat fyrir slikk. Í gær fórum við á Tony Roma’s, sem er víst frægur um allan heim fyrir rifjasteikurnar sínar. Þar fengum við virkilega góðar steikur fyrir lítinn pening. Þetta er dýr staður á spænskan mælikvarða en máltíðin kostaði þó ekki nema rétt rúmar 100 evrur fyrir okkur sex. Þó fengum við okkur öll forrétti.

Fórum í míní-golf eftir matinn í gærkvöld á „Laugavegi“, skammt frá hótelinu okkar. Það var gaman.

Fórum svo í dýragarðinn Mundómar í dag og skoðuðum margar yndislegar dýrategundir öðru sinni. Við sáum þennan garð árið 2001 og urðum ekki vör við neinar breytingar nú. Ég tók hins vegar jóla-fjölskyldumyndina frá 2001 aftur á sama stað til þess að sýna breytinguna á strákunum frá því fyrir fjórum árum. Það var gaman, ekki síst á nýju vélina, Canon EOS 20D, sem er algjör draumur.

Ég sækist svolítið eftir breskum félagsskap ef ég kem því við. Hér eru margir breskir veitingastaðir. Við fengum okkur kvöldverð nú áðan á stað sem heitir „Best British Food“, en hann er rétt hjá „Laugavegi“. Við Ráðska fengum okkur nautasteik og þótti báðum gott. Þarna hefðu bæði Berlusconi og Chirac steinhaldið kjafti fyrir minna en 25 evrur!

Á morgun er ferðinni heitið í Terra Mítica, þann fræga skemmtigarð sem allir Íslendingar þekkja sem hafa komið til Benidorm. Þar eru að minnsta kosti tveir nýir rússíbanar frá því við vorum þar síðast.

Síðan fáum við bílinn á morgun og verðum með hann í heila viku. Þá verður ekið um Spán og skoðaðir nokkrir dýragarðar. Hér er vitaskuld nóg að gera.