Tag: Tom Waits

Að týna heilögum Kristófer

Á leiðinni heim frá Benidorm í síðustu viku hlustuðum við Ráðska á Tom Waits í bílnum. Það var komin nótt og strákarnir sváfu í aftursætinu. Bandaríski Megasinn söng m.a. „I’ve lost my Saint Christopher“ í laginu Waltzing Mathilda. Þetta hafði þær afleiðingar að ég gleymdi að beygja við afrein 724 á hraðbrautinni í átt að Torrevieja og Cartagena og uppgötvaði það ekki fyrr en ég var kominn til Murcia!

Svona er Tom Waits góður.

Ferðadýrlingurinn var þó ekki týndur lengi. Þegar við skoðuðum katólsku dómkirkjuna hér í Torrevieja daginn eftir skrapp ég inn í lyfjaverslun til þess að kaupa sólarvörn. Hver haldið þið að standi þá við hlið mér? Jú, enginn nema biskupinn yfir Íslandi. Mér fannst ég ekki lengur áttavilltur.

Ég þorði hins vegar ekki að heilsa karli. Biskupar þurfa að fá að vera í fríi óáreittir. Mér heyrðist hann mæla á spænska tungu við afgreiðslustúlkurnar. Það fannst mér flott. Góðir biskupar eru skírðir heilögum anda og tala tungum. Biskupstungum.

Svo fékk ég nettenginguna í dag og þarf því ekki lengur að liggja í sólinni, klóra mér í hausnum, bora í nefið og horfa í gaupnir mér eins og mannapi. Ég get bloggað í staðinn og sett inn nokkrar myndir á meðan Ráðska flatmagar í garðinum og strákarnir busla í sundlauginni. Hitinn í dag er 38 stig eins og flesta aðra daga. Hér eru veðurfréttir engar fréttir.