Tag: Útlit

Nýtt útlit

Eins og sjá má hef ég umturnað útliti heimasíðunnar eftir alllangt hlé. Ég hef að sjálfsögðu sótt mér WordPress-stigbótina, útgáfu 2.5, og nýti hér eiginleika hennar til fulls. Til þess hef ég notið góðs af atorkusemi Michaels Pollocks. Honum séu þakkir, lof og prís fyrir sniðið.

Eins og sjá má er mikilvægt að nota myndir með þessu sniði, helst í hverri færslu svo að vel fari. Nú verður að koma í ljós hvort mér vinnist tími til þess arna.

Mestu varðar að þörfin fyrir að skrifa skjátexta og birta hann er enn frumhvötin að baki þessari gandreið.

Þó að sniðið sé eftir nýríkan Bandaríkjamann, þá er það allt á íslensku. Fattiði? Ég get ekki hugsað mér að setja upp vefsíðu þar sem enskir strengir standa bísperrtir og ulla framan í lesendur. Hvílíkt metnaðarleysi!

Þetta kemur því ekkert við að innan skamms er okkur Íslendingum líklega nauðugur sá einn kostur að ganga í Evrópusambandið og taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil. Við getum lagt rækt við móðurmálið þó að það ólánist fyrir okkur að stjórna efnahagsmálum okkar.

Megi ríkisstjórnin týna lífi í Kastljósinu.