Bækur

50 bestu bókakápurnar 2008

AIGA valdi 50 bestu bókakápurnar úr 900 bókum. Sheer joy!

Bestu lógóin 2008

Wolda hefur tilnefnt vinningshafa í alþjóðlegri samkeppni um bestu lógóin 2008. Missið ekki af þessu.

El último ritual

„Þriðja táknið“ eftir Yrsu Sigurðardóttur er á tilboði hér í Carrefour í Torrevieja. Hún heitir á spænsku „El último ritual“ og er boðin í pakka með „Minningum Geishu“.

Spænsk útgáfa Þriðja táknsins eftir Yrsu Sigurðardóttur

Kápan er eins og sú íslenska, eins og sjá má, en hönnuðurinn er í einhverjum vandræðum með þornið í nafni Þóru á bakinu. Þornið er ekki af sömu leturgerð og annar texti þar; þetta er líklega innsett tákn. En svei mér þá ef það veitir ekki titlinum aukinn slagkraft.

Spænsk útgáfa Þriðja táknsins eftir Yrsu Sigurðardóttur

Arial

Drósin í heimi leturfræðinnar, eða public type, eins og Craig Mod kallar hana: Arial. Er hægt að lýsa þessu betur en Craig gerir þarna?

Saga um Afríkutré verðlaunuð

Úr heimsálfu sem ennþá verður að teljast nokkuð myrk — ekki síst vegna þess að samkynhneigð er þar ennþá fordæmd sem samfélagsmein, jafnvel bönnuð með lögum — kemur eftirminnileg hinsegin saga eftir úgandiskan femínista, Móníku Arac de Nyeko. Sagan hlýtur í ár Caine-verðlaunin sem kennd eru við breskan athafnamann og lávarð, Michael Caine. Mikjáll þessi hefur aldrei leikið í kvikmyndum svo vitað sé.

The Jambula Tree

Sagan sem um ræðir heitir The Jambula Tree — hvað annað, í Afríku hverfist allt um tré. Hún fjallar um tvær æskuvinkonur sem elska hvor aðra. Þegar vináttan umbreytist í ást — já, eða við skulum segja þegar ástin kemur undan hvolfþaki trjánna og verður sýnileg í sólinni — leggur samfélagið fæð á stúlkurnar. Fjölskyldur þeirra bregðast að vonum hart við og senda aðra þeirra í útlegð til Englands. En þessar hugrökku stúlkur skammast sín aldrei fyrir ást sína hvor á annarri, jafnvel ekki þegar þeim er stíað sundur.

Þessa sögu mættu allir lesa sem hafa ennþá smekk fyrir hinu fagra og saklausa — og eru orðnir þreyttir á íslenskum fýlubombum. Söguna má lesa í smásagnasafninu African Love Stories sem kom út í fyrra í ritstjórn Ama Ata Aidoo. Ég bendi á þessa umfjöllun um nýja útgáfu bókarinnar.

Ég pantaði þessa bók á útmánuðum — þegar síðvetrarmæðan reyndi að hengja mig í ljósakrónunni — og gat ekki annað en glaðst þegar ég sá sögunnar getið í Morgunblaðinu í morgun. Þegar Afríkumenn, karlar eða konur, fá verðlaun á Vesturlöndum eru þeir nafngreindir í fjölmiðlum. Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.

Á heimleið 1991 hafði ég viðdvöl í Kampala. Í aðfluginu kvaddi ég vini og ættmenni í þögulli bæn því að ég hélt að flugvélin væri að hrapa. Kannski meira um það síðar.

Helvetica

Helvetica minnir á blótsyrðið helvíti og það á vel við.

Ég þoli ekki Helvetica, ekki frekar en Arial, en nú er hins vegar komin út kvikmynd um leturgerðina og hún vinnur til verðlauna. Þetta verður fróðlegt að sjá.

Nýhil

Ég er Hermannsmaður ef marka má Lesbók helgarinnar. Nýhilsmenn eru ofmetnir sjálfsforleggjarar. Ég hafði talsverðar væntingar á síðasta ári, en ég leyni því ekki að mér fannst ég grípa í tómt. Þarna er að minnsta kosti ekki sú bylting sem þeir trúa sjálfir að verk þeirra séu, ekki sú endurnýjun sem ætla mætti.

Annars leiðast mér menn sem halda að þeir séu byltingarseggir í máli og stíl. Það er oftast ofmat. Byltingartilraunir geta verið jafnleiðinlegar og himneskar ljóðrænur.

Ætli þetta heiti líka að hafa ekki húmor fyrir sjálfum sér?

Nýhilsbækurnar eru á hinn bóginn afar vel hannaðar. Það vantar ekki.

Fjósakonan

Þegar ég hugsa um þessa útrás hins nýja íslenzka auðvalds sem alltaf er verið að tönnlast á og byggist á matar-og bensínpeningum alþýðunnar, hvarflar hugurinn að gömlum bókartitli sem frægur varð á sínum tíma, Fjósakona fer út í heim!

Matthías.

Kirkjubekkir

Ég leggst snöggvast á glugga kirkjunnar. Finn lyktina af tjörubornum veggjunum sem dropar hnappast á. Bekkirnir eru fáir, harðir trébekkir af þeirri gerð sem Amnesty International ætti að láta til sín taka. Enn er alþýða manna víða um heim kvalin á svona bekkjum í löngum messum.

— Gyrðir Elíasson, Hótelsumar, bls. 88.

Dottið í það í Perlunni

Ekki í veitingahúsinu, heldur á jarðhæðinni, þar sem bókamarkaðurinn er. Ég fór eina ferð í gær og aðra í dag og keypti samtals 40 bækur. Ég fæ ekki útivistarleyfi fyrr en í næstu viku.

Ein af þessum 40 er sú dásamlega bók, Bók spurninganna, eftir Pablo Neruda. Ég hefði keypt hana þó að ég hefði sleppt öllum hinum. Neruda spyr 316 „hvar-er-sólin-um-nætur“ spurninga og sendir mann upp í lyftunni með brjóstið fullt af gleði.

Hérna eru nokkrar:

Af hverju læra þyrlur ekki
að vinna hunang úr sólinni?

Hvaðan fær franska vorið
öll þessi lauf?

Hvað ertu með undir kryppunni?
spurði úlfaldinn skjaldbökuna.

Reynið ekki að svara þessu, farið bara og kaupið þessa bók, hún kostar varla meira en bjórglas á veitingahúsinu:

Hvernig mælir maður froðuna
sem flæðir út fyrir bjórglasið?

Ég lofa engum timburmönnum.