Dægurþras

Hvers vegna Akureyri er menningarbær

Ég komst að því um verslunarmannahelgina að Akureyri er nú sannkallaður menningarbær. Hvers vegna? Jú, vegna þess að við Hafnarstræti 100 er indverskur skyndibitastaður með alvöru indverskum kokkum og heitir Indian Curry Hut. Þetta hefði skáldinu á Sigurhæðum aldrei hvarflað í hug frostaveturinn mikla 1917.

Þetta kom sannarlega á óvart — og vóg mjög á móti öllu pítsu- og hamborgaradraslinu sem umlukti miðbæinn á útihátíð sem dregur nafn sitt af pylsu.

Á milli Reykjavíkur og Akureyrar er ekkert á boðstólum annað en bras í anda Staðarskála. En í þessum tveimur menningarbæjum má nú setjast niður og eta indverskt góðgæti.

Súkkulaðihátíð

Gleðilega súkkulaðihátíð, allir kristnir menn!

Algleymi vindla

Hver vildi ekki vera á Kúbu núna? Kastró hættur og algleymi vindla.

Vindlahátíð á Kúbu

Þögnin rofin?

Já, kannski er við hæfi að rjúfa bloggþögnina nú þegar ljóst er orðið að Clapton heldur tónleika hér á landi í sumar í stað þess að renna fyrir fisk. Á þessu er kannski enginn munur í sjálfu sér, að syngja eða renna fyrir fisk, en tónleikar í Egilshöll eru meiri fyrirhöfn en fluguveiðar í Aðaldal, svo mikið er víst. Clapton fiskar mig hvernig sem á það er litið. Allir góðir blúsarar eru mannaveiðarar.

Hérna er ofurlítill uppgjörsblús:

Mestu vonbrigði ársins 2007 voru viðbrögð Guðrúnar Kvaran við gagnrýni sem nýja biblíuþýðingin hefur sætt. Þau eru mér svo mikil vonbrigði, að ég er hættur að sjá til sólar. Jafngott, eins og sólin blindar skynsama menn.

Sjálfur hefði ég aldrei trúað því að ég ætti eftir að gera nokkuð annað við nýja biblíuþýðingu en strika undir í hrifningu þessa „fyrirmynd annarra texta að orðfæri“. Nú er einhver fegursta útgáfa þessarar bókar útkrotuð á spássíunum af því að málfar hennar er mér einfaldlega ekki samboðið. Er ég þá ekki af þeirri kynslóð sem „Biblía 21. aldar“ höfðar til?

Who am I? A fish-monger?

Höfuðdagurinn

Í dag er höfuðdagurinn og þá mega nokkur höfuð fjúka fyrir mér.

Fréttaljósmyndum lýst eftirá

Myndir fanga augnablikið, eins og sagt er, og þá er stundum heillandi að fá nánari lýsingu eftirá, ekki síst þegar mikið ber við.

Í fyrradag sprakk gufuleiðsla í New York svo að borgarbúar urðu skelfingu lostnir. Þessi baksviðslýsing í New York Times er vel skrifuð. Maðurinn lengst til vinstri á fréttamyndinni hér að neðan lýsir atburðinum — og ekki síður myndatökunni.

Gufuleiðsla sprakk í New York og olli slysum

Orðskrípi

Ég hef mikinn dyn á orðskrípum, íslenskum og erlendum, sem mynduð eru með klifun og hljóðskiptum. Þau væru skemmtilegt rannsóknarefni og full ástæða til að ljá þeim merkingu við ný skilyrði. Þessi eru í uppáhaldi: fimbulfambi, dinglumdangl, pírumpár, tiktak, hrikkahrakk.

Orðaskýringar hér:

  • Fimbulfambi = nafnlaus bloggari
  • Dinglumdangl = nafngreindur bloggari
  • Pírumpár = moggablogg
  • Tiktak = blogggáttir/fréttaveitur
  • Hrikkahrakk = netstífla

Þórdunurnar

Ég varð heyrnarvottur að þórdununum á Laugarvatni í gær — að vísu á hlaðinu í Skálholti. Von var á norrænu biskupunum síðar um kvöldið að snæða miðaldarkvöldverð með rektor Skálholtsskóla. Ég tengdi þetta saman.

Bókatíðindin á Esjunni

Ég geng aldrei Esjuna en hef ánægju af að lesa þetta í staðinn.

Afríkublús

Fyrstu árin eftir að ég kom heim fann ég til saknaðar á köldum vetrarkvöldum. Nú eru það glaðbjartir sólskinsdagar sem vekja trega.