Ferðalög

El último ritual

„Þriðja táknið“ eftir Yrsu Sigurðardóttur er á tilboði hér í Carrefour í Torrevieja. Hún heitir á spænsku „El último ritual“ og er boðin í pakka með „Minningum Geishu“.

Spænsk útgáfa Þriðja táknsins eftir Yrsu Sigurðardóttur

Kápan er eins og sú íslenska, eins og sjá má, en hönnuðurinn er í einhverjum vandræðum með þornið í nafni Þóru á bakinu. Þornið er ekki af sömu leturgerð og annar texti þar; þetta er líklega innsett tákn. En svei mér þá ef það veitir ekki titlinum aukinn slagkraft.

Spænsk útgáfa Þriðja táknsins eftir Yrsu Sigurðardóttur

Þýddir titlar

Fyrst þegar ég kom til Spánar fyrir áratug eða svo gramdist mér hversu vankunnátta í ensku var útbreidd í landinu. Það var ekki tekið út með sældinni að gera sig skiljanlegan á veitingastöðum og í verslunum og samskiptin fólust oftast í vandræðalegu handapati. Stundum þrammaði ég út af veitingastað af því að ég hafði verið misskilinn. Mér fannst þetta beinlínis dónalegt í landi sem tekur á móti milljónum ferðamanna á ári og ég er ekki frá því að ég hafi tengt þetta við heimsku. Að kunna ekki ensku jafngilti þekkingarleysi í huga mér.

Nú hef ég hins vegar séð ljósið og mér líkar það fjarskalega vel hversu lítil enskuárátta er hér á Spáni. Ég kann auk þess orðið að gera mig nokkuð skiljanlegan á spænsku. Batnandi mönnum er best að lifa.

Ég skýri þetta á þennan hátt: Spánverjar láta ekki Kanann og Tjallann taka sig í þurrt rassgatið (orðalag sem ég hef lært af samkynhneigðum ungmennum) eins og Íslendingar. Þeir þurfa ekki að túlka heiminn á ensku til þess að skilja hann. Þeir talsetja allt sjónvarpsefni sitt og þýða alla titla á móðurmál sitt. Hér segir Simpson ekki „d’oh“ þegar hann er svekktur, heldur „¡arre!“, en vinsældir hans eru síst minni.

Hér eru allir enskir kvikmyndatitlar þýddir á spænsku fortakslaust. Ég nefni nokkra af handahófi sem ég hef séð á kápum DVD-mynddiska á bensínstöðum hér í nágrenninu:

  • El Diablo viste de Prada
  • Un buen año
  • Infiltrados
  • Diamante de Sangre
  • La joya de la familia
  • El perfume
  • El exorcismo de Emily Rose

Ég efast um að nokkur Spánverji þekki þessar kvikmyndir undir enskum heitum þeirra.

Svona nokkuð myndu Íslendingar aldrei sætta sig við. Reykvískir unglingar fengju flog ef þeir sæju þessa titla íslenskaða. Á Íslandi er íslenska hallærisleg. Hún er bara fyrir okkur „heima“, svona til að ræða við pabba og mömmu og félagana. Hún er varla til neinna raunverulegra nota nema í einkalífinu.

Ég felst ekki á þau rök að markaðurinn á Íslandi sé of lítill fyrir titlaþýðingar af þessu tagi. Lýsingar á kvikmyndum eru ennþá oftast á íslensku á kápum DVD-mynddiska, svo og annar fylgitexti. Það ætti því að vera hægðarleikur einn að birta titla á íslensku. Á þessu er hins vegar enginn áhugi. Þetta er talinn algjör óþarfi. Íslendingar eru svo yfirmáta góðir í ensku að þeir þurfa ekki á þessu að halda. Enskukunnátta þeirra er svo góð, að þeir eru byrjaðir að fyrirverða sig fyrir íslensku. Íslendingar trúa því að minnsta kosti sjálfir að þeir séu voða góðir í ensku. Þeir eru miklu ánægðari með það en góða móðurmálskunnáttu.

Að vissu leyti er þetta þó á misskilningi byggt og þykist ég geta skýrt það með eftirfarandi dæmi: Ekki alls fyrir löngu gerðust þau tíðindi á Íslandi að bandarísk kvikmynd var gefin út á mynddiski undir íslenskum titli. Þessi mynd sker sig ennþá úr í hillunum á myndbandaleigunum. Hún heitir á ensku „Thank you for smoking“. Af einhverjum undarlegum ástæðum, mér ókunnum, er titill hennar íslenskaður á kápunni: „Takk fyrir að reykja“. Ég veitti þessu sérstaka athygli vegna þess að sá hópur ungmenna sem ég umgengst notaði íslenska titilinn í samræðum sín á milli, en ekki þann enska. Ungmennin tóku varla eftir þessu sjálf. Engum fannst asnalegt að segja „Takk fyrir að reykja“. Öðru nær, þetta varð raunverulegt heiti myndarinnar, nafnmerki hennar, lógó, á Íslandi sem allir þekktu á meðan hún var í umferð.

Auðvitað myndum við Íslendingar læra að meta þetta með tímanum ef þetta yrði gert í auknum mæli. En ég er ekki viss um að þetta verði nokkurn tíma gert. Við erum ennþá svo upptekin af því að verða heimsborgarar að við kærum okkur ekki um þetta. Við erum ennþá svo upptekin af alþjóðahyggju eftir gegndarlaust tómlæti öldum saman, að við erum að glutra niður íslenskukunnáttunni án þess að taka eftir því. Að lokum verðum við útlendingar í okkar eigin landi, alsælir með Pampers, því að enginn er eyland og enginn grætur Íslending einan sér og dáinn, og allt það.

Hraðbraut

Þó að hámarkshraðinn sé 120 kílómetrar á klukkustund á hraðbrautunum Autopista og Autovía hér á Spáni, aka flestir talsvert hraðar. Á dögunum tók lögreglubifreið fram úr mér þó að ég væri á 130 kílómetra hraða.

Tæp 1700 manns hafa farist á hraðbrautinni frá því í janúar. Á nokkrum stöðum eru flettiskilti við vegkantinn sem birta nýjustu dánartölur. Tölurnar breytast daglega, eins og ljóst má vera af einföldum dæmareikningi. Tölurnar minna á fjárhæðir í spilakössum, þær hækka hratt, en potturinn fellur á áramótum og þá er núllstillt.

Þessi skilti eiga að draga úr hraðakstri. Lögreglan gerir það ekki. Skiltin eru hins vegar eins og hver önnur auglýsing, ein af mörgum dauðagildrum á götunni.

Sá sem fellur í hendur hraðaræningjum á þessari leið án þess að týna lífi horfir á heiminn keyra framhjá drykklanga stund, særður við vegkantinn, áður en hjálpin berst. Til allrar hamingju eru nú allir vegfarendur með gemsa og þurfa því ekki að nema staðar, en þeir geta friðað samviskuna með því að hringja beint í Samverjann. Samverji nútímans kemst hins vegar ekki leiðar sinnar nema með sírenuvæli.

Það er óneitanlega freistandi að taka áhættuna og aka eins og bavíani hér um slóðir, til dæmis milli Torrevieja og Benidorm. Hugsið ykkur að geta skroppið frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal á innan við klukkustund.

Á Íslandi gengur umferðin ákaflega hægt og þar verður mönnum tíðrætt um hraðakstur. Þar er hverjum ökumanni einnig nauðugur aðeins einn kostur. Hér á Spáni geta menn valið á milli þjóðvegar og hraðbrautar. Flestir velja hraðbrautina.

Huliðsheimar

Við vörðum einum degi með Steindóri, Rósu og krökkunum þeirra í Huliðsheimum (sp. Terra Mítica) á Benidorm. Ég tók þessa mynd af hópnum við innganginn í þennan fræga skemmtigarð.

Talið frá vinstri: Haraldur (tengdasonurinn), Eva Laufey, Steini bróðir, Rósa, Allan, Ráðska, Sigursteinn og Alexander.

Hvað sem um þennan garð má segja, þá er hann einhver stærsti þemagarður Evrópu, alls 105 hektarar að stærð. Í honum eru um það bil 80 veitingastaðir af ýmsu tagi. Elsti rússíbaninn í garðinum, Magnus Colossus, var lengi vel stærsti viðarrússíbani í Evrópu. Nýtt leiktæki hefur verið sett upp í garðinum annað hvert ár síðastliðinn áratug eða svo, en það veldur því að flestir gestir koma oftar en einu sinni. Um það bil hálfur dagur fer í biðraðir við leiktækin, hinn helmingurinn fer í sjálf leiktækin. Sá sem vill prófa öll leiktækin verður að verja að minnsta kosti tveimur dögum í garðinum.

Heiðurshjónin Rósa og Steindór

Á slóðum strandarfara — og ekki

Í dag fórum við fjórðu ferðina okkar til Benidorm héðan af Torrevieja-svæðinu. Af því má draga þá ályktun, að við séum ekki ýkja hrifin af Torrevieja-láglendinu og skal ég ekki dyljast þess. Við leitum nánast ósjálfrátt til Alicante og þangað norðureftir, upp til fjalla, en þar þekkjum við orðið býsna vel til. Ég er ekki viss um að við eigum eftir að koma hingað aftur.

Hér í Torrevieja eru fjölmargir Íslendingar og mér sýnist að velflestir þeirra séu tilbúnir að verja dögum ef ekki vikum saman í örlitlum sundlaugargarði til þess eins að verða sólbrúnir áður en þeir snúa heim. Það þykir mér næsta auvirðileg iðja. Ég sver það við alla dýrlinga — já, þeir eru hugleiknir mér þessa dagana — að meðan öndin skröltir í skrokknum á mér skal mér standa á sama um litinn á hörundinu. Mér er hins vegar illa við að vera of þungur, en það er önnur saga.

Við sólsetur í Altea. Benidorm í fjarska

Við höfum farið til Altea og Polop, en það eru engar fréttir þegar við Ráðska erum annars vegar. Við förum þangað mörgum sinnum þegar við komum hingað á hvítu ströndina og þræðum þröngar götur og litla veitingastaði. Við þykjumst hafa komið auga á húsið okkar í Altea-hæðum sem við ætlum að eiga í ellinni. Þá höfum við farið nokkrar ferðir upp í fjalllendin, en það er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri þegar ég er á Spáni. Ég er með eindæmum kirkjurækinn þegar ég kem hingað og þramma inn í hverja þá dómkirkju sem státar af spíru og bendir til himins í brattri fjallshlíð. Þar má stundum finna syrgjandi Spánverja tendra kertaljós.

Göngugata í Altea

Um daginn létum við loksins verða að því að skoða Canelobre-perluhellinn rétt hjá Busot, ofan við El Campello, en það var sannarlega áhrifarík ferð. Kannski meira um hana síðar. (Hérna sýnist mér að séu einhverjar myndir.)

Í dag fórum við hins vegar „eingöngu“ á ferðamannaslóðir, nánar tiltekið í skemmtigarðinn Terra Natura á Benidorm. Það vorum við að gera í annað sinn frá 2004. Þetta er garður sem er vel þess virði að sjá einu sinni, en eftir það verður hann leiðigjarn, eins og einlægt allir ferðamannaskemmtigarðar í heiminum. Mig langaði hins vegar að sjá fuglana í ameríku-hlutanum aftur, en þeir eru ósviknir. Ógrynni af sjaldgæfum fuglategundum hefst við í garðinum og þar má dunda sér við að taka nærmyndir ef maður á góða linsu.

Á tröppum sóknarkirkjunnar í Altea

Í kvöld fórum við svo á „Laugaveginn“ svonefnda og borðuðum á ítalska pítsustaðnum Topo Gigio. Við höfum staldrað þar við áður eins og líklega velflestir Íslendingar sem hingað koma. Þarna má fá matseðilinn á íslensku. Þegar við komum sátu Bjössi Thor, kona hans og dóttir að snæðingi en þau eru hér í fríi í fyrsta sinn. Bjössi var að borða þarna í fjórða sinn eftir að hann kom út en hann hafði ófagrar sögur að segja af veitingahúsarápi á Benidorm. Ég spurði hvort hann hefði ekki hlegið að tónlistarfólkinu sem treður hér upp á hverju götuhorni ár eftir ár án þess að hafa snefil af hæfileikum. Ég sá að hann gat ekki leynt vonbrigðum sínum með það heldur. Hér hefði verið við hæfi að gefa „dononum“ eftirminnilega ráðningu með því að afhenda Bjössa gítar. Ætli boltabullurnar frá Bretlandi, sem sækja hingað í heiðríkjuna og blíðviðrið í stórum stíl, kynnu að meta það? Ég efast stórlega um það. Þær lifa fyrir Abba- og Queen-sýningar sem eru svo hallærislegar að minna helst á furðusýningu í nítjándualdar sirkusi.

Sóknarkirkjan í Altea

Ég benti Birni á nokkra góða veitingastaði. Það tekur tíma að læra að þekkja hauk frá hegra í veitingahúsaflórunni á ströndum Spánar. Þegar maður hefur lært þetta, lætur maður draslið eiga sig og borgar fáeinum evrum meira fyrir góða matargerð, einkum ítalska og indverska. Myndin hér að neðan er tekin af Alexander og Sigursteini á L’Obrador, fínum, ítölskum veitingastað í gamla bænum í Altea sem óhætt er að mæla með. Þar stjana þjónarnir við mann og ég fullyrði að jafnvel Jónas gæti skrifað jákvæða bloggfærslu um veru sína þar.

Á L

Gíraffi kysstur

Þessi mynd náðist af konunni minni í sleik við gíraffa í dýragarðinum Ríó Safarí skammt frá Elche hér á Spáni. Sjáið hversu afslöppuð hún er, með augun aftur.

Ráðska kyssir gíraffa

Er furða þó að ég hafi orðið afbrýðissamur? Sést sorgin í augunum?

Mannapi

Að týna heilögum Kristófer

Á leiðinni heim frá Benidorm í síðustu viku hlustuðum við Ráðska á Tom Waits í bílnum. Það var komin nótt og strákarnir sváfu í aftursætinu. Bandaríski Megasinn söng m.a. „I’ve lost my Saint Christopher“ í laginu Waltzing Mathilda. Þetta hafði þær afleiðingar að ég gleymdi að beygja við afrein 724 á hraðbrautinni í átt að Torrevieja og Cartagena og uppgötvaði það ekki fyrr en ég var kominn til Murcia!

Svona er Tom Waits góður.

Ferðadýrlingurinn var þó ekki týndur lengi. Þegar við skoðuðum katólsku dómkirkjuna hér í Torrevieja daginn eftir skrapp ég inn í lyfjaverslun til þess að kaupa sólarvörn. Hver haldið þið að standi þá við hlið mér? Jú, enginn nema biskupinn yfir Íslandi. Mér fannst ég ekki lengur áttavilltur.

Ég þorði hins vegar ekki að heilsa karli. Biskupar þurfa að fá að vera í fríi óáreittir. Mér heyrðist hann mæla á spænska tungu við afgreiðslustúlkurnar. Það fannst mér flott. Góðir biskupar eru skírðir heilögum anda og tala tungum. Biskupstungum.

Svo fékk ég nettenginguna í dag og þarf því ekki lengur að liggja í sólinni, klóra mér í hausnum, bora í nefið og horfa í gaupnir mér eins og mannapi. Ég get bloggað í staðinn og sett inn nokkrar myndir á meðan Ráðska flatmagar í garðinum og strákarnir busla í sundlauginni. Hitinn í dag er 38 stig eins og flesta aðra daga. Hér eru veðurfréttir engar fréttir.

Enginn öngull, engin beita

Í breska siglingaklúbbnum í Tanga var gamalt píanó sem Jón Gils bað mig að spila á. Píanóið stóð undir berum himni, upp við barinn, og var svolítið falskt. Ég lék á svörtu nóturnar, í es-dúr, og þá voru fölsku tónarnir ekki eins áberandi. Ég hafði ekki spilað lengi þegar fólk tók að drífa að úr ýmsum áttum, ekki aðeins ríka skútueigendur, heldur einnig fiskimenn, leiðsögumenn, veiðimenn, flökkumenn og drykkjumenn, sem flestir voru málkunnugir Jóni. Þetta voru eins og uppvakningar úr nokkrum helstu ævintýrum heimsbókmenntanna. Úr þessu varð gleðskapur sem stóð lengi nætur.

Þegar ég hafði spilað allt sem ég kunni nokkrum sinnum kom lúinn öldungur til mín og þakkaði mér fyrir hljómana. Hann var skininn og skorpinn og með kunnuglegar skellur á báðum kinnunum. Hann sagði mér að hann hefði einu sinni veitt við Barbados. Hann sagði eyjarskeggja þar veiða flugfiska um nætur án þess að kosta neinu til. Hver bátur hefði með sér logandi ljósker sem komið væri fyrir utan á bátshliðinni meðan verið væri á veiðunum. Þegar myrkt væri orðið, gengi flugfiskurinn á ljósin, stykki upp úr sjónum og lenti þá meira eða minna af vöðunni á botni báta fiskimannanna. „Þetta kallar maður ódýra útgerð,“ sagði gamli maðurinn. „Enginn öngull, engin beita.“

Við svo búið hvarf hann inn í myrkrið í flæðarmálinu.

Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna hann sagði mér þessa sögu af þessu tilefni. Eða hvort ég hitti hann í raun og veru.

Afríkublús

Í Tansaníu voru trén alltaf eins og hvíslandi verur umhverfis okkur, sérstaklega á kvöldin þegar við sátum í skjólhúsunum og spjölluðum saman. Ég vandist þessu aldrei, þetta var alltaf yfirnáttúrulegt.

Stundum dreyptum við á víni og ég drakk það í von um að það slævði skilningarvitin og þá hætti ég að mæna inn á milli trjánna.

Þegar leðurblökurnar komu og flögruðu í kringum ljósið á gafli veitingahússins blikkaði ljósið ótt og títt eins og peran væri að springa. Leðurblökurnar voru hljóðlausar, og við sáum aðeins skuggann af þeim. Sumir létu blekkjast og héldu að þetta væru næturfiðrildi.

Nonni vissi betur. Á meðan við þögðum heyrðist murrið í mölinni í flæðarmálinu og einhvers staðar lengra að utan gargið í máf sem vaggaði á sléttum sjávarfletinum.

Þarna var lífið ekki krafið svara við of mörgum spurningum.

Lundúnablogg

Það mátti heita að suðræn veðrátta legði blessun sína yfir land hinna hvítu stranda þegar við vorum í Lundúnum. Himinninn var heiður og blár og veðurblíðan einstæð í heimsborginni. Við veitingastaði og krár stóðu borð úti á stétt og yfirleitt var setið við þau öll. Vorið góða grænt og hlýtt kemur fyrr hjá Englendingum en Íslendingum.

Að þessu sinni flugum við með Iceland Express á Stansted í fyrsta skipti. Flugið var gott og ég saknaði ekki „fangafæðisins“ hjá Derinu. Mér kom nokkuð á óvart, að hvergi þrengdi að mér í vélinni. Ráðska þurfti að minna mig á að ég hefði lést nokkuð síðan síðast.

Við tókum hraðlestina frá Stansted beint inn í lestarstöðina við Liverpool Street. Þaðan tókum við svo miðlínuna neðanjarðar, Central Line. Þegar ég kom upp úr neðanjarðarstöðinni við Bond Street og fór að litast um, fannst mér ég kannast við línur húsa og gatna eins og drætti í gömlu, velþekktu andliti. Ég fór rakleitt í Selfridges og keypti mér Montecristo hjá J.J. Fox í tilefni dagsins. Það hef ég gert nokkrum sinnum áður. Vindlaherbergið er heill heimur út af fyrir sig.

Hótelið sem við vorum á er við Grosvenor-torg, rétt hjá bandaríska sendiráðinu. Þarna er meiri öryggisgæsla en annars staðar í borginni af kunnum ástæðum, en við völdum ekki hótelið þess vegna. Hótelið þykir nokkuð fínt og er auk þess annálað fyrir lipra þjónustu. Einu dyrnar sem gestir þurfa raunverulega að opna sjálfir eru herbergisdyrnar. Við Ráðska opnuðum óvart nokkrar dyr fyrir þjónana af því að þeir voru svo fínir.

Þá eldar þarna frægur matreiðslumeistari, Brian Turner, en hann er svo vinsæll að fjölmargt fólk er á hótelinu til að borða en ekki gista. Ég held að ég geti fullyrt, að þó að hótelið sé í byggingarstíl Georgstímans er maturinn sem þar er borinn fram ekki byggður á skúlptúr. Hann er framleiddur fyrir bragðið en ekki útlitið og í matreiðslunni er borin virðing fyrir eðlisbragði hráefna. Þennan frasa hef ég étið upp eftir Jónasi.

Fyrir utan góðan mat er einungis snerpuspölur á Oxford-stræti frá hótelinu og það er meginástæðan fyrir því að við völdum það. Frægðarfólk heldur blaðamannafundi í hliðarsölum hótelsins og það kitlar hégómagirnd margra. En hún kæra mín kærði sig kollótta um þetta eftir að hún sá verslanirnar á Oxford-stræti.

Síðast þegar ég var í Lundúnum var parísarhjólið á bökkum Thamesár ekki tilbúið. Lundúnaaugað er gott nafn á þennan jötunn, svo mikla útsýn gefur þar á tvær hendur. Þegar kláfinn er hæst á lofti er eins og numið sé staðar á þverhníptri fjallsegg. Lofthrædda sundlar af að horfa niður og þeir verða fjöðrum fegnir þegar þeir taka að síga að nýju.

LundúnaaugaðÉg sá eftir því að hafa ekki boðið Ráðsku kampavínstúrinn. Á meðan við stóðum í biðröðinni sáum við kærustupar fara inn í eina loftferjuna ásamt leiðsögumanni og hann skenkti þeim kampavín með bros á vör í hálfa klukkustund á meðan hjólið snerist. Ég gat ekki betur séð en að leiðsögumaðurinn héldi tölu um öll helstu kennileitin sem þarna blasa við augum. Ferð í Lundúnaauganu getur verið býsna tilkomumikil þegar rökkrið færist yfir og daufum purpuraroða kvöldsins bregður á nokkrar sögufrægustu hallir heims. Ég sá Buckingham-höll sólfáða í garði heilags Jakobs og konan sem hélt í hönd mér var drottningarjafni.

Þeir sem eru enn á þrítugsaldrinum í Lundúnum og vilja dansa við nútímalega smástelputónlist eiga að fara á Strawberry Moons á Heddon-stræti. Ungur dyravörður á hótelinu okkar sagðist „djamma“ þar reglulega. Þessi næturklúbbur minnir um margt á íslensk diskótek, einhver andlausustu mannamót veraldar. Kvöldið sem við vorum þarna þeytti ungur maður skífur, en hann var slíkur glópur, að hann lækkaði sýknt og heilagt í lögunum til þess að skjóta inn eigin vísdómsorðum. Það var nánast ógjörningur að dansa við tónlistina af þessum sökum. Breska plötusnúða vantar hvorki vitsmuni né talanda.

Gamlar fertugar sálir láta þetta yfir sig ganga ef maki þeirra er ennþá ungur og sprækur. Mér tókst ekki að draga dansdrottninguna út úr þessum kvalastað fyrr en eftir miðnætti. Mín kjörna leið var Regent-stræti, sem er í göngufæri við næturklúbbinn, á mörkum Soho og Westminster. Ofarlega í því stræti er hliðargata sem heitir því hæverska nafni Kingly. Þar, herrar mínir og frúr, standa alvöru breskar krár á hverju horni og sumar þeirra bjóða lifandi tónlist öll kvöld vikunnar, allt árið um kring. Við fórum inn á heimsfrægan blúsbar sem heitir Ain’t Nothin’ But, beint á bakvið Hamleys, en þar hlýddum við á blökkumanninn Jerimiah Marques flytja frumsamin lög með The Blue Aces. Jerimiah situr og leikur á kóngatrommu um leið og hann syngur. Þetta — ásamt tári af Laphroaig — bjargaði næturlífinu í heimsborginni fyrir mitt leyti.

Jerimiah MarquesMér skilst að í sumar sé von á sjálfum Vasti Jackson frá New Orleans á þessari krá. Það kemur svo sem ekki á óvart því að kráin minnir talsvert á Bourbon Street. Blús-áhugamenn sem hyggja á ferð til Lundúna í sumar ættu að fylgjast vel með þessu.

Við fórum tvisvar sinnum í Notting Hill og leiddumst með kurt og pí eftir Portobello Road. Íslendingar virðast hafa tekið upp þennan sið eftir að samnefnd kvikmynd með Hugh Grant og Julia Roberts kom út 1999. Stemmningin sem að hluta endurspeglast í kvikmyndinni (en aðeins að hluta) hefur hins vegar svifið þarna yfir vötnum í meira en hundrað ár.

Gatan dregur nafn sitt af sveitabæ frá 18. öld sem var nefndur eftir sjóorrustunni við Puerto Bello í Mexíkóflóa 1739 þegar Bretar báru sigurorð af Spánverjum. Götumarkaðurinn hófst upp úr 1860 og nær hámarki ár hvert með kjötkveðjuhátíð í ágústmánuði.

Við byrjuðum á því að skoða Jóhannesar- og Jakobskirkjur á hæðunum ofan við Portobello áður en við gengum sjálfa Portobello-götu frá suðri. Þetta var á laugardagsmorgni þegar götumarkaðurinn var enn að búa sig fyrir múginn og margmennið eftir hádegið. Þeir sem eru veikir fyrir gömlum munum eru leiddir í freistni við hvert fótmál á þessu dásamlega markaðstorgi.

Portobello Road

Síðdegis hvíldum við lúin bein á Portobello Grove, pöntuðum freyðandi öl í kollu og störðum á fólk af öllu þjóðerni eins og í leiðslu. Enduðum síðla kvölds við brúna þar sem Westway-hraðbrautin gengur yfir Portobello Road. Þar settumst við inn á Babes ‘n’ Burgers og borðuðum ódýrt. Ég fékk mér baunasúpu fyrir þrjú og hálft pund. Súpan var blá á litinn og leit út eins og gubb, en hún var góð á bragðið. Fróðir menn segja að þetta sé súpa Bridget Jones.

Óhætt er að fullyrða að Babes ‘n’ Burgers marki endalok götumarkaðarins á Portobello enda þótt hann nái nokkuð norðar. Allt sem selt er handan við brúna er drasl.

Um fleira kæri ég mig ekki um að skrifa í bili, en við fórum að sjálfsögðu í vaxamyndasafnið Madame Tussauds, sóttum aftansöng í Sankti Pálskirkju, sigldum undir brýrnar á ánni Thames, skoðuðum Tower of London, gengum Westminster-hringinn og þar fram eftir götum. Ráðska var að sjá þetta allt í fyrsta skipti. Þá sáum við kvikmyndina Notes on a Scandal (Hugleiðingar um hneykslismál?) í Curzon Mayfair, en myndin er tekin í Lundúnum.

Við misstum af Turner en hyggjumst bæta úr því síðar. Lundúnum er aldrei lokið.