Fjölskyldan

Haukar verja Íslandsmeistaratitilinn

Haukar urðu Íslandsmeistarar annað árið í röð í dag í körfuknattleik, minni bolta 11 ára. Sigursteinn Snær er í liðinu og við Ráðska fylgdumst með sigrinum í KR-húsinu.
Read more »

Huliðsheimar

Við vörðum einum degi með Steindóri, Rósu og krökkunum þeirra í Huliðsheimum (sp. Terra Mítica) á Benidorm. Ég tók þessa mynd af hópnum við innganginn í þennan fræga skemmtigarð.

Talið frá vinstri: Haraldur (tengdasonurinn), Eva Laufey, Steini bróðir, Rósa, Allan, Ráðska, Sigursteinn og Alexander.

Hvað sem um þennan garð má segja, þá er hann einhver stærsti þemagarður Evrópu, alls 105 hektarar að stærð. Í honum eru um það bil 80 veitingastaðir af ýmsu tagi. Elsti rússíbaninn í garðinum, Magnus Colossus, var lengi vel stærsti viðarrússíbani í Evrópu. Nýtt leiktæki hefur verið sett upp í garðinum annað hvert ár síðastliðinn áratug eða svo, en það veldur því að flestir gestir koma oftar en einu sinni. Um það bil hálfur dagur fer í biðraðir við leiktækin, hinn helmingurinn fer í sjálf leiktækin. Sá sem vill prófa öll leiktækin verður að verja að minnsta kosti tveimur dögum í garðinum.

Heiðurshjónin Rósa og Steindór

Ráðhildur Jónsdóttir

Í gær var útför Ráðhildar Jónsdóttur gerð frá Fossvogskirkju. Hún var amma og nafna Ráðsku, sem lesendur ættu að vera farnir að þekkja af færslum mínum hér á vefnum.

Ráðhildur lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík 16. maí síðastliðinn á nítugasta og fyrsta aldursári. Hún var fædd í Vestmannaeyjum 18. október 1916. Foreldrar hennar voru Jón Guðmundsson sjómaður, fæddur á Hóli í Skagafirði 4. september 1891, dáinn 3. september 1916, og Elenóra [svo!] Ingvarsdóttir, fædd að Kalmannstjörn í Höfnum 31. desember 1890, dáin 25. apríl 1977.

Systkini Ráðhildar eru Guðbjörg Áslaug, fædd 15. nóvember 1910, dáin 9. júní 1912, og Alda Sigurrós, fædd 26. ágúst 1928.

Ráðhildur giftist Sigurði Gunnlaugssyni frá Hofsárkoti í Svarfaðardal, en hann var fæddur 8. maí 1912, dáinn 6. júní 1988. Börn Ráðhildar og Sigurðar eru Guðrún Valgerður, fædd 17. mars 1939, og Kristinn, fæddur 9. apríl 1944.

Myndin hér að neðan er af mæðgunum Ráðhildi Jónsdóttur og Guðrúnu Valgerði Sigurðardóttur, en lengst til hægri er Ásta Jónsdóttir, móðir mín. Myndin er tekin á sextugsafmæli Guðrúnar Valgerðar, tengdamóður minnar, árið 1999, aðeins um ári eftir að við Ráðska byrjuðum að rugla saman reytum.

Ráðhildur, Guðrún, Ásta

Úrvalsnafnið Ráðhildur er ævafornt í íslensku, það elsta líklega frá miðri 16. öld — ef ekki eldra. Einungis átta konur bera þetta eiginnafn þegar þetta er skrifað samkvæmt þjóðskrá.

Við Ráðska heimsóttum Ráðhildi gömlu á Hrafnistu nokkrum sinnum áður en hún lést. Ráðhildur hafði mjúkt tungutak og fima fingur þó að hún væri komin á tíræðisaldur. Prjónalesið hennar frá því í haust er laust við lykkjuföll. Þá var hún svo frásögufær á endasprettinum að minni og tungutak héldust í hendur. Undir hið síðasta tók ég með mér blað og skriffæri þegar ég heimsótti hana og páraði eitt og annað eftir henni. Mér fannst Ráðhildur reka lestina þeirra kvenna sem eru af ættkvísl völvanna. Hún var kvöldvökukona á forna vísu.

Ég heyrði hana rifja upp þetta orðtak sem amma hennar ku hafa notað um endurtekin vandræði:

Hvur silkiskotthúfan upp af annarri.

Orðið „silkihúfa“ er þekktara en „silkiskotthúfa“ í þessu orðtaki en merkingin virðist vera sú sama. Orðtakið merkir í raun „hver auminginn eða kjáninn á fætur öðrum“ eða „hver vitleysan á fætur annarri“. Þess vegna kom mér nokkuð á óvart að sjá þetta orðtak notað í fyrirsögn í Fréttablaðinu á dögunum þar sem blaðamaður var að lýsa kvikmyndastjörnum á rauða dreglinum í Cannes í Frakklandi.

Ráðhildur rifjaði einnig upp, að þegar afi hennar drukknaði, gekk amma hennar fjörur lengi á eftir og vildi ekki gefa upp vonina. Ekki vonina um að finna manninn sinn á lífi, heldur vonina um að geta signt hann. Daginn sem líkið rak á fjöruna ávarpaði amma Ráðhildar vinnukonuna á Kalmannstjörn með þessum orðum:

Brotin væri ég, væri ég gler,
bráðin væri ég, væri ég smjer,
farðu inn, Sigríður, og settu upp ketilinn.

Ráðska skrifaði litla minningargrein um ömmu sína í Morgunblaðið í gær og þar segir m.a.: „Hennar verður helst minnst fyrir höfðingsskap, gjafmildi, hlýju og það hvað hún stóð alltaf ákveðið með þeim sem minna mega sín.“ Þetta eru orð að sönnu. Ég stælaði stundum við Ráðhildi gömlu um kristilegan kærleik. Ævinlega þegar ég stóð á öndverðum meið við gamla tímann fór hún að fikta við heyrnartækin sín og lét eins og hún heyrði ekki það sem ég sagði. Ráðhildur stóð fast á sínu. Hún vildi öllum vel og lét eitt yfir alla ganga.

Blessuð sé minning hennar.

Í flugferð með Alexander

Í blíðskaparveðrinu í gær fórum við Ráðska í flugferð með Alexander Mána, syni okkar, í fyrsta sinn. Alexander er aðeins 16 ára og lýkur væntanlega einkaflugmannsprófi í haust, eins og ég gat um hér. Ég tók nokkrar myndir.

Alexander við stjórnvölinn

Alexander við stjórnvölinn

Við flugum yfir höfuðborgarsvæðið, yfir Akranes, meðfram Hafnarfjalli, yfir Borgarnes og inn Borgarfjörð, yfir Skorradalsvatn og þaðan yfir Botnsheiði og út Hvalfjörð áður en við snerum aftur til Reykjavíkur. Ferðin tók um klukkustund.

Flogið meðfram Hafnarfjalli

Flogið meðfram Hafnarfjalli

Alexander var við stjórnvölinn allan tímann en flugkennarinn hans, Sigurjón Atli Benediktsson, sat við hlið hans og leiðbeindi honum. Alexander sækist námið vel og hefur þegar tekið um helming af flugtímunum sem krafist er til einkaflugmannsprófs.

Fleiri gluggamyndir má nálgast hér.

Flugpróf á undan bílprófi?

Alexander Máni, fóstursonur minn, ákvað að verða flugmaður þegar í barnæsku. Hann keypti sér flugleik í tölvuna sína löngu fyrir fermingu og hefur flogið öllum heimsins farþegaþotum stórslysalaust heimsálfa á milli.

Nú er drengurinn orðinn 16 ára og situr enn við sinn keip. Hann fór í sinn fyrsta flugtíma hjá Flugskóla Íslands í síðustu viku og annan í gær. Ég tók þessa símamynd af piltinum áður en hann steig um borð í vélina sem stendur fyrir aftan hann og flaug henni yfir höfuðborgarsvæðið jafnauðveldlega og að drekka vatn.

Alexander hyggst sækja um inngöngu í Fjöltækniskóla Íslands á hausti komanda en þar ku vera hægt að taka einkaflugmannspróf samhliða stúdentsprófi.

Drengurinn hefur hins vegar ekki snefil af áhuga á að hefja æfingaakstur til þess að koma sér í skólann og er ég satt að segja farinn að óttast að hann taki flugmannsprófið á undan bílprófinu. Hann hefur boðist til að ferja eldri bræður sína á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á næsta ári — flugleiðis. Pilturinn á vafalaust eftir að fljúga farþegaþotu áður en hann eignast sinn fyrsta bíl.

Haukar Íslandsmeistarar 2007

Við fórum til Grindavíkur í gær, sunnudag, og horfðum á Sigurstein Snæ leika körfubolta með Haukum. Skemmst er frá því að segja að strákarnir urðu Íslandsmeistarar í sínum flokki, minni bolta (10 ára). Ég tók þessa hreyfimynd með nýja símanum mínum þegar sigurinn var í höfn og strákarnir fengu sigurbikarinn í hendur.

Úrslitaleikurinn var sannast sagna æsispennandi og fóru foreldrar á límingunum í íþróttahúsinu. Í fyrstu leit út fyrir að heimaliðið, Grindavík, hefði betur, en Haukar sóttu í sig veðrið undir hrópum og köllum foreldra sinna og fyrir hvatningu og uppörvun Villa þjálfara, og sigruðu með sex stiga mun, 36-30.

Hérna er símamynd af Sigursteini með sigurbikarinn.

Sigursteinn Snær með sigurbikarinn

Mynd og frásögn má nálgast á heimasíðu Hauka með því að smella hér.

Á tímamótum

Ég er oftast önnum kafinn og starfsglaður. Stundum set ég met í glaðværð og fjöri. Þrátt fyrir alla starfsönn og áhyggjur sækja þó að mér leiðindaköst annað veifið. Og þrátt fyrir allan sjálfsaga sækja að mér efi og kvíði við og við. Þetta veldur mér hins vegar engum geðbrigðum því að ég er orðinn manninum kunnugur og þekki þær tilfinningar sem honum stjórna.

Ég er með öðrum orðum nokkuð heilbrigður maður og lánast oftast hið vandasama verk að höndla hamingjuna.

Í fyrramálið held ég til Lundúna með stóru ástinni í lífi mínu. Við ætlum ekki að reyna að bjarga heiminum. Öðru nær, við ætlum að fóðra dúfurnar á Trafalgartorgi og hlusta á kurrið í bland við bílaniðinn, sigla á ánni Thames og hlusta á stóru klukkuna glymja Westminster, leiðast um götur Notting Hill og kaupa ferðahandbók um Spán, æfa RP-framburðinn á Oxfordstræti, drekka viskí á Guinea, panta ölkollu á Salisbury, spýta h-unum á Covent Garden, dansa við homma og lesbíur á Stringfellows, boða endalokin á horni Hyde Park, reykja vindla á nafnlausum næturklúbbi í torfundnu öngstræti, fara í bíó, sækja leikhús, skoða kirkju, kaupa skó og láta berast fyrir straumi matargerðarlistarinnar í Mayfair og Soho.

  Getur skeð að gleymméreiin
  gleymist inní himinblámann?
  Hamingjan er hversdags-kvöldið.
  Hvort mun lífið tapa á því?
  Ef við söknum einhvers dauðir,
  aðeins þessa verður saknað.
  Já, ég veit að það er þetta;
  — þó er ég ei dauður enn.
  (Gunnar Reiss-Andersen)

Körfuboltamót

Sigursteinn æfir körfubolta með Haukum í Hafnarfirði og í morgun var komið að því að keppa „minni bolta“ við önnur lið í sama flokki. Mótið fór fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans, en þar kepptu Haukar, Valur og Hamar. Keflvíkingar skrópuðu enda örugglega skíthræddir við Hauka. Skemmst er frá því að segja að Haukar gjörsigruðu bæði Val og Hamar. Þetta var niðurstaðan: 88/38 og 70/18.

Ég tók nokkrar myndir.

Fleiri myndir hérna.

Hvítasunnuhelgin

Það má vera til marks um hversu hratt við Ráðska eldumst að einungis einn af fjórum sonum okkar vildi koma með okkur í ferðalag um hvítasunnuhelgina. Við buðum gull og græna skóga, siglingar og útreiðar, fugla- og hvalaskoðun, en allt kom fyrir ekki. Sigursteinn lét einn tilleiðast af tómum kærleik eða meðaumkun við gamla slektið.

Í þessu felast bæði fyrirheit og vonbrigði, tilhlökkun og eftirsjá, eftir því hvernig á það er litið, — eftir því hvort þið spyrjið mig eða Ráðsku.

Við hættum við að gista í Stykkishólmi af þessum ástæðum og fórum dagsferð um Reykjanes í staðinn. Byrjuðum á því að skoða Fræðasetrið í Sandgerði á laugardaginn. Sigursteinn hafði verið þar skömmu áður með bekkjarsystkinum sínum og var ennþá svo snortinn af grænlenska rostungnum sem stendur uppstoppaður í innganginum að hann vildi ólmur sýna okkur herlegheitin. Ég varð hugfanginn af fuglasafninu. Sá tímaritið Blika í fyrsta sinn. — Svona fylgist maður illa með.

Því næst ókum við Garðskagaveg til suðurs og skoðuðum Hvalsneskirkju þar sem Hallgrímur Pétursson þjónaði 1644–1651. Ekki grunaði sálmaskáldið að við ættum eftir að aka þarna á vélknúnu faratæki árið 2006 og flytja nokkra Passíusálma utanbókar! Við lögðum farartækinu við Stafnesvita og fórum á tveimur jafnfljótum inn í Básenda skammt sunnan við Stafnes. Þetta er létt ganga og tekur ekki nema um eina klukkustund. Á Básendum var einn stærsti verslunarstaður einokunarverslunarinnar fyrr á öldum, en þar mun flóðbylgja hafa gengið á land 9. janúar 1799 ekki ósvipað og í Asíu fyrir tveimur árum. Skemmst er frá því að segja að staðinn tók af með öllu, sjávarflóðið braut öll hús og mannvirki og sögur herma að fólk hafi átt fótum sínum fjör að launa.

Úr Stafnesi ókum við til Grindavíkur til þess að fara í sund en bæjarbúar hljóta að hafa frétt af ferðum okkar því þeir lokuðu lauginni skyndilega og sneru í okkur baki. Sundlaugarvörðurinn þóttist vera að lesa blöðin. Við lékum körfubolta á skólalóðinni í staðinn og héldum svo áleiðis eftir Suðurstrandarvegi og enduðum við Kleifarvatn þar sem Sigursteinn fékk að vaða.

Ég tók nokkrar myndir úr ferðinni. Ég er ósáttur að vanda.

Á hvítasunnudag blésum við til sameiginlegrar matarveislu með Gústa og Siggu og buðum börnum okkar beggja og tilvonandi tengdabörnum. Þetta eru samtals 15 manns með gamla slektinu. Við gerðum þetta með skömmum fyrirvara og það mæltist vel fyrir.

Es: Gamla slektið er að sjálfsögðu ég og Gústi og viðhengi okkar.

Kristín Lív 11 ára

Í gær fórum við í afmælisveislu til Nonna og Marínu en Kristín Lív, dóttir þeirra, er nýorðin ellefu ára. Ég myndaði afmælisbarnið.