Fjölskyldan

Lilja meðal þyrna

„Eins og lilja meðal þyrna, svo er móðir mín meðal meyjanna.“

Þannig hljóðaði hið heilaga orð á ungdómsárum mínum þegar móðir mín huggaði mig í ástarsorg.

Þessi merka kona á afmæli í dag. Til hamingju, Ísland!

Söngvakeppni Iðnskólans í Hafnarfirði

Gísli Hjálmar hafnaði í öðru sæti í söngvakeppni Iðnskólans í Hafnarfirði í gærkvöld. Keppnin var háð til þess að velja fulltrúa skólans í söngvakeppni framhaldsskólanna sem fram fer innan skamms.

Söngvakeppnin fór fram í kaffi- og menningahúsinu Gamla bókasafninu í Mjósundi í Hafnarfirði. Ég tók þessar myndir.

Okkur Ráðsku þótti Gísli að sjálfsögðu langflottastur. Hann var sá eini sem söng frumsamið lag og frumsaminn texta og það meira að segja á móðurmálinu!

Hérna er hægt að sjá fleiri myndir.

Fyrsta símamyndin

Þetta er fyrsta myndin sem ég tek á gemsann minn.

Myndin er tekin á Hróa Hetti í Hafnarfirði 31. janúar en þá fórum við Ráðska út að borða með strákunum okkar. Myndina má stækka með því að smella á hana. Símann fékk ég í jólagjöf og heitir Sony Ericsson K750i. Hann er með tveggja megapixla myndflögu og skerpan er sjálfvirk.

Gjafir

Þessar gjafir komu í gær:

Mig hefur lengi langað í kristals-karöflu eins og þá sem hér sést á myndinni. Hún kom loksins í hús í gær ásamt sex forláta kristalsglösum. Um Glenfiddich er óþarft að fjölyrða, en það er besta Bretaveig í heimi (í hófi að sjálfsögðu).

Annars er karafla tökuorð úr dönsku, karaffel, sem er síðan tökuorð úr frönsku, carafe, en það er síðan ættað úr arabísku. Á íslensku heitir þetta borðflaska; borðglerald á háfrónsku.

Að lifa kátur líst mér máti bestur

Í dag er 31. janúar. Þá hvarflar mér í hug þessi skjátexti:

Að lifa kátur líst mér máti bestur,
þó að bjáti eitthvað á,
að því hlátur gera má.

Ef einhver vill giska á höfundinn er það guðvelkomið.

Ráðska laumaðist í bakaríið um miðjan morgun og kom heim með volgar ostabollur. Strákarnir voru klæddir og komnir á ról þegar hún sneri aftur. Þetta fór allt fram í skjóli skammdegismyrkurs. Ég var síðan vakinn með pompi og prakt og leystur út úr svefnherberginu með veglegri bókagjöf: Íslensk tunga I–III.

Á meðan kaffivélin svolgraði vatnið í sig í eldhúsinu las ég formálana í bindunum þremur frammi í stofu. Ég er þegar byrjaður að leiðrétta stílinn. Ég óttast að Guðrún hafi gleymt að láta Heimi lesa formálsorðin. 😉

Við snæddum saman morgunskattinn, allt hertogadæmið, fyrir klukkan sjö. Ég þurfti að minna alla viðstadda á, að ég er ennþá hérna megin við strikið, sólarmegin í lífinu, fyrir sunnan Fríkirkjuna. Ég sendi systkinum mínum öllum á fimmtugsaldrinum hlýjar kveðjur héðan úr ljósheimum.

Afmæliskveðja

Gunnbjörg systir mín á afmæli í dag. Til hamingju!

Andlát

Í gærmorgun lést móðurbróðir minn, séra Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavík og prófdómari og stundakennari við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hann fékk skyndilegt hjartaáfall og lífgunartilraunir báru ekki árangur.

Eins og að líkum lætur er Óli frændi fjölskyldu minni harmdauði. Hann var fæddur 1943 og því einungis 62 ára.

Óli gegndi starfi sóknarprests í Keflavíkurkirkju frá árinu 1975, samfleytt í 30 ár. Hann lauk meistaraprófi í guðfræðilegri siðfræði frá Union Theological Seminary við Columbia-háskóla í New York árið 1991. Hér á landi var hann ef til vill kunnastur fyrir framgöngu sína í réttindabaráttu samkynhneigðra innan vébanda kirkjunnar, en hann lét sig mannréttindi minnihlutahópa miklu skipta. Þá lét hann sig varða líknarmeðferð, sorg og sálræn eftirköst áfalla.

Andlát Óla varpar skugga á jólaundirbúninginn. Edda Björk, fyrrverandi eiginkona hans, og synir þeirra þrír eiga um sárt að binda, svo og fjölskyldur þeirra. Hugur minn er hjá þeim þessa daga. Þá á móðir mín og systur hennar tvær einnig um sárt að binda og sendi ég þeim mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Vígvöllur heima í stofu

Í gærmorgun kom Hnoðri með skógarþröst í skoltinum inn í stofu til okkar. Við vorum að setja upp aðventuljósið. Fuglinn var ennþá lifandi í kjaftinum á kisu og tísti ótt og títt. En það stóð ekki lengi. Hnoðri drap hann undir borðstofuborðinu eins og ekkert væri. Við urðum að ryksoga og skúra vígvöllinn á eftir.

Ég kann betur við þresti á trjágreinum. Og kettir eru bestir uppstoppaðir.

Sunnudagur í sól

Þegar sól var í hádegisstað í gær, sunnudag, fórum við í Huliðsheima (sp. Terra Mítica), sem er ekki nema í hálftíma akstursfjarlægð frá borginni. Hitastigið þar náði 35 stigum þegar verst lét. Við vörðum öllum deginum í þessum fallega skemmtigarði og vorum ekki komin heim á hótel fyrr en undir miðnætti.

Tveimur stórum tækjum hefur verið bætt við í skemmtigarðinum síðan við vorum þar síðast (2001), annars vegar gríðarstórum sveifluhringi, sem kallaður er Synkope á spænsku, hins vegar rússíbana sem keyrir farþega margar kollsteypur á hvolfi á ofsahraða í svo sem eins og eina mínútu. Þarna minna öskrin á stórslys og sumir koma með tárin í augunum út úr þessu. Við Gísli treystum okkur ekki í nýju tækin en Ráðska, Aron, Alexander og Sigursteinn fóru margar ferðir með bros á vör og tyggigúmmí í munninum. Við feðgarnir skiptumst þess í stað á að taka myndir á nýju vélina. Ég náði nokkrum munngeyplum af djarfari meðlimum fjölskyldunnar á meðan þeir sveifluðust í heiðbláu loftinu.

Við tókum strætisvagninn heim undir miðnættið. Ég greiddi með 20 evra-seðli. Ferðin niður að strönd, þar sem hótelið okkar er, kostar rétt tæpar evru á manninn, en ég fékk ekki nema fjórar evrur til baka, rétt eins og ég hefði greitt með 10 evra-seðli. Ég uppgötvaði þetta ekki fyrr en vagninn var lagður á stað og fór og leiðrétti ungan vagnstjórann við næstu biðstöð. Þá áttaði ég mig á því að hann var að reyna að svindla á mér, því hann var með sitt eigið seðlaveski í höndunum að setja 20 evra-seðilinn minn í hann. Ég sýndi honum afganginn sem hann lét mig fá og þá bað hann mig afsökunar og rétti mér eina evru. Ég fór við svo búið og fattaði ekki fyrr en við vorum komin niður að strönd að hann hafði gabbað mig tvisvar. Þá varð ég hins vegar svo reiður að ég gekk að honum og hellti úr skálum reiði minnar á ensku svo farþegum brá í brún. Í fyrstu beitti vagnstjórinn því bragði að þykjast ekki skilja stakt orð í ensku, en síðan fór hann að fara undan í flæmingi þegar ég reyndi spænskukunnáttu mína í þaula. Eftir nokkur hróp og köll og bílflaut fyrir utan var honum nauðugur sá einn kostur að afhenda mér 10 evrur, sem ég átti með réttu.

Hér þarf að hafa talsvert fyrir því að glata ekki smáaurum.

Við ætlum að fara aðra ferð í Terra Mítica áður en langt um líður, en við náðum ekki að fara yfir allan garðinn á einum degi. Þá tökum við hins vegar ekki strætisvagninn, heldur ökum í „okkar eigin bíl“.

Við sóttum einmitt sjö manna Peugeot á Hertz bílaleiguna í dag, en við ætlum að hafa hann í viku fyrst í stað. Við verðum því talsvert á ferðinni næstu daga. Byrjuðum á því að fara í verslunarmiðstöðina La Marína í Finestrat nú síðdegis, svo og Carrefour, sem er rétt við hliðina. Keyptum matvörur fyrir 100 evrur, en það samsvarar stórinnkaupum í ódýrustu og leiðinlegustu verslun Íslands, Bónusi. Þessar verslunarmiðstöðvar eru þó ekkert í líkingu við Bónus, svo glæsilegar sem þær eru og þjónustan öll til fyrirmyndar.

Það er feikna munur að vera akandi á Benidorm og geta lagt bílnum í kjallaranum á hótelinu eins og ekkert sé. Það er nánast ógjörningur að fá stæði í nágrenninu (og þótt víðar væri leitað).

Á morgun er ferðinni heitið til Altea-þorpsins í næsta nágrenni við Benidorm. Síðan hyggjumst við aka lengra og skoða spænsku þorpin og Calpe þar sem veitingar eru víst talsvert ódýrari en í ferðamannaborginni og umhverfið gjörólíkt.

Meira um það síðar.

Á Benidorm

Ég segi og skrifa á Benidorm vegna þess að þar eru tvær strendur sem menn geta valið úr; annars vegar Poniente-ströndin og hins vegar Levante-ströndin. Við erum á þeirri síðarnefndu, eins og velflestir Íslendingar sem hingað ferðast. Allt svæðið kallast síðan Costa Blanca.

Ljóst er að spænskir kaupmenn hafa grætt á myntbreytingunni 2002, eins og vera ber, en við finnum glöggt fyrir muninum. Hér er þó flest meira en helmingi ódýrara en á Íslandi ennþá, Guði sé lof.

Allt hefur gengið vel. Við erum ennþá að reyna að laga okkur að 36 stiga hita. Það tekur alllangan tíma. Við höfum flest gengið af okkur fæturna og fengið sár í nárann, en það stendur allt til bóta.

Á Benidorm er fullt af ódýrum veitingastöðum, algjöru drasli ef út í það er farið, en inni á milli eru þó góðir staðir sem bjóða dýrindis mat fyrir slikk. Í gær fórum við á Tony Roma’s, sem er víst frægur um allan heim fyrir rifjasteikurnar sínar. Þar fengum við virkilega góðar steikur fyrir lítinn pening. Þetta er dýr staður á spænskan mælikvarða en máltíðin kostaði þó ekki nema rétt rúmar 100 evrur fyrir okkur sex. Þó fengum við okkur öll forrétti.

Fórum í míní-golf eftir matinn í gærkvöld á „Laugavegi“, skammt frá hótelinu okkar. Það var gaman.

Fórum svo í dýragarðinn Mundómar í dag og skoðuðum margar yndislegar dýrategundir öðru sinni. Við sáum þennan garð árið 2001 og urðum ekki vör við neinar breytingar nú. Ég tók hins vegar jóla-fjölskyldumyndina frá 2001 aftur á sama stað til þess að sýna breytinguna á strákunum frá því fyrir fjórum árum. Það var gaman, ekki síst á nýju vélina, Canon EOS 20D, sem er algjör draumur.

Ég sækist svolítið eftir breskum félagsskap ef ég kem því við. Hér eru margir breskir veitingastaðir. Við fengum okkur kvöldverð nú áðan á stað sem heitir „Best British Food“, en hann er rétt hjá „Laugavegi“. Við Ráðska fengum okkur nautasteik og þótti báðum gott. Þarna hefðu bæði Berlusconi og Chirac steinhaldið kjafti fyrir minna en 25 evrur!

Á morgun er ferðinni heitið í Terra Mítica, þann fræga skemmtigarð sem allir Íslendingar þekkja sem hafa komið til Benidorm. Þar eru að minnsta kosti tveir nýir rússíbanar frá því við vorum þar síðast.

Síðan fáum við bílinn á morgun og verðum með hann í heila viku. Þá verður ekið um Spán og skoðaðir nokkrir dýragarðar. Hér er vitaskuld nóg að gera.