Íslenska

WordPress 2.8 á íslensku

Ég hef lokið við að þýða stigbót 2.8 af WordPress. Þeir sem vilja nota þýðinguna geta sótt sér þýðingarskrána hér.

Málið okkar í boði Marðar

Bendi á þessa góðu lesningu á Eyjunni eftir einn besta prófarkalesara landsins, Mörð Árnason: Málið okkar.

Mörður fékk ekki verðugan stuðning í prófkjöri Samfylkingarinnar um helgina. Er það með miklum ólíkindum. Sá sem fylgir úr hlaði þingsályktunartillögu um íslenska málstefnu — og fær löggfjafarþingið til að samþykkja formlega í fyrsta sinn að Íslendingar tali íslensku á Íslandi — mætti gjarnan eiga sæti á þingi.

Arður tungunnar verður ekki metinn til peninga. Það er kannski þess vegna sem þetta framtak fær enga umfjöllun um það leyti sem þjóðin verður gjaldþrota.

Þögnin rofin?

Já, kannski er við hæfi að rjúfa bloggþögnina nú þegar ljóst er orðið að Clapton heldur tónleika hér á landi í sumar í stað þess að renna fyrir fisk. Á þessu er kannski enginn munur í sjálfu sér, að syngja eða renna fyrir fisk, en tónleikar í Egilshöll eru meiri fyrirhöfn en fluguveiðar í Aðaldal, svo mikið er víst. Clapton fiskar mig hvernig sem á það er litið. Allir góðir blúsarar eru mannaveiðarar.

Hérna er ofurlítill uppgjörsblús:

Mestu vonbrigði ársins 2007 voru viðbrögð Guðrúnar Kvaran við gagnrýni sem nýja biblíuþýðingin hefur sætt. Þau eru mér svo mikil vonbrigði, að ég er hættur að sjá til sólar. Jafngott, eins og sólin blindar skynsama menn.

Sjálfur hefði ég aldrei trúað því að ég ætti eftir að gera nokkuð annað við nýja biblíuþýðingu en strika undir í hrifningu þessa „fyrirmynd annarra texta að orðfæri“. Nú er einhver fegursta útgáfa þessarar bókar útkrotuð á spássíunum af því að málfar hennar er mér einfaldlega ekki samboðið. Er ég þá ekki af þeirri kynslóð sem „Biblía 21. aldar“ höfðar til?

Who am I? A fish-monger?

Þýddir titlar

Fyrst þegar ég kom til Spánar fyrir áratug eða svo gramdist mér hversu vankunnátta í ensku var útbreidd í landinu. Það var ekki tekið út með sældinni að gera sig skiljanlegan á veitingastöðum og í verslunum og samskiptin fólust oftast í vandræðalegu handapati. Stundum þrammaði ég út af veitingastað af því að ég hafði verið misskilinn. Mér fannst þetta beinlínis dónalegt í landi sem tekur á móti milljónum ferðamanna á ári og ég er ekki frá því að ég hafi tengt þetta við heimsku. Að kunna ekki ensku jafngilti þekkingarleysi í huga mér.

Nú hef ég hins vegar séð ljósið og mér líkar það fjarskalega vel hversu lítil enskuárátta er hér á Spáni. Ég kann auk þess orðið að gera mig nokkuð skiljanlegan á spænsku. Batnandi mönnum er best að lifa.

Ég skýri þetta á þennan hátt: Spánverjar láta ekki Kanann og Tjallann taka sig í þurrt rassgatið (orðalag sem ég hef lært af samkynhneigðum ungmennum) eins og Íslendingar. Þeir þurfa ekki að túlka heiminn á ensku til þess að skilja hann. Þeir talsetja allt sjónvarpsefni sitt og þýða alla titla á móðurmál sitt. Hér segir Simpson ekki „d’oh“ þegar hann er svekktur, heldur „¡arre!“, en vinsældir hans eru síst minni.

Hér eru allir enskir kvikmyndatitlar þýddir á spænsku fortakslaust. Ég nefni nokkra af handahófi sem ég hef séð á kápum DVD-mynddiska á bensínstöðum hér í nágrenninu:

  • El Diablo viste de Prada
  • Un buen año
  • Infiltrados
  • Diamante de Sangre
  • La joya de la familia
  • El perfume
  • El exorcismo de Emily Rose

Ég efast um að nokkur Spánverji þekki þessar kvikmyndir undir enskum heitum þeirra.

Svona nokkuð myndu Íslendingar aldrei sætta sig við. Reykvískir unglingar fengju flog ef þeir sæju þessa titla íslenskaða. Á Íslandi er íslenska hallærisleg. Hún er bara fyrir okkur „heima“, svona til að ræða við pabba og mömmu og félagana. Hún er varla til neinna raunverulegra nota nema í einkalífinu.

Ég felst ekki á þau rök að markaðurinn á Íslandi sé of lítill fyrir titlaþýðingar af þessu tagi. Lýsingar á kvikmyndum eru ennþá oftast á íslensku á kápum DVD-mynddiska, svo og annar fylgitexti. Það ætti því að vera hægðarleikur einn að birta titla á íslensku. Á þessu er hins vegar enginn áhugi. Þetta er talinn algjör óþarfi. Íslendingar eru svo yfirmáta góðir í ensku að þeir þurfa ekki á þessu að halda. Enskukunnátta þeirra er svo góð, að þeir eru byrjaðir að fyrirverða sig fyrir íslensku. Íslendingar trúa því að minnsta kosti sjálfir að þeir séu voða góðir í ensku. Þeir eru miklu ánægðari með það en góða móðurmálskunnáttu.

Að vissu leyti er þetta þó á misskilningi byggt og þykist ég geta skýrt það með eftirfarandi dæmi: Ekki alls fyrir löngu gerðust þau tíðindi á Íslandi að bandarísk kvikmynd var gefin út á mynddiski undir íslenskum titli. Þessi mynd sker sig ennþá úr í hillunum á myndbandaleigunum. Hún heitir á ensku „Thank you for smoking“. Af einhverjum undarlegum ástæðum, mér ókunnum, er titill hennar íslenskaður á kápunni: „Takk fyrir að reykja“. Ég veitti þessu sérstaka athygli vegna þess að sá hópur ungmenna sem ég umgengst notaði íslenska titilinn í samræðum sín á milli, en ekki þann enska. Ungmennin tóku varla eftir þessu sjálf. Engum fannst asnalegt að segja „Takk fyrir að reykja“. Öðru nær, þetta varð raunverulegt heiti myndarinnar, nafnmerki hennar, lógó, á Íslandi sem allir þekktu á meðan hún var í umferð.

Auðvitað myndum við Íslendingar læra að meta þetta með tímanum ef þetta yrði gert í auknum mæli. En ég er ekki viss um að þetta verði nokkurn tíma gert. Við erum ennþá svo upptekin af því að verða heimsborgarar að við kærum okkur ekki um þetta. Við erum ennþá svo upptekin af alþjóðahyggju eftir gegndarlaust tómlæti öldum saman, að við erum að glutra niður íslenskukunnáttunni án þess að taka eftir því. Að lokum verðum við útlendingar í okkar eigin landi, alsælir með Pampers, því að enginn er eyland og enginn grætur Íslending einan sér og dáinn, og allt það.

Kanóna

Hér er eins og orðið „canon“ komi fyrst fyrir í höfði Seifs. Er hann að uppgötva þetta hugtak fyrst núna?

Á íslensku hefur þetta verið kallað „kanóna“ og er kvenkynsorð. Bókmenntafræðingar nota þetta orð talsvert á sínu fræðasviði. Ég hef aldrei séð guðfræðinga nota kvenkynsmyndina um ritninguna, þ.e. regluritasafn Biblíunnar. Í guðfræði er þó mikið fjallað um „canon“. En í guðfræðiumræðu á Íslandi er þetta hugtak nær einhaft í karlkyni, „kanón“. Jafnvel kvenguðfræðingar skrifa þannig um regluritasafnið. Er það kannski til aðgreiningar frá almennari kanónu í bókmenntum og listum? Ég skal ekki segja.

Bendi á þetta.

Ég á Canon-myndavél. Framleiðendur hennar hafa myndað sagnorð úr þessu orði og nota í auglýsingar: „You can Canon“ eða „You canon“ (= „þú getur það með Canon“).

Ég get það ekki enn með Canon. Kannski ætti maður bara að fá sér Nikon.

Það verður sótt ykkur

Á biðstofu í morgun var ung stúlka upptekin af aukafrumlagi: „Það verður sótt ykkur í setustofuna.“

„Jei!“, sagði ég og klappaði fyrir henni.

Annars er ég ekki nærri eins hrokafullur í góða veðrinu.

Fornaldardýrkun hvað?

Til helvítis með þessa kúadellu. Hvað á að kalla svona lagað? Geðsjúka öfgastefnu?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherra

Ég gæti hugsað mér að sjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur verða forsætisráðherra aðeins af einni ástæðu: Til þess að sjá hvernig þetta orðalag venst: Hún forsætisráðherrann.

En ég veit að það tæki Íslendinga miklu skemmri tíma en fjögur ár að venjast þessu orðalagi, enda hafa aðrar konur verið ráðherrar um langt skeið. Þess vegna vil ég alls ekki að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði forsætisráðherra. Vinstri stjórnir hafa löngum verið dýru verði keyptar hér á ystu mörkum hins byggilega heims.

Vinstri mönnum verður tíðrætt um það þessa dagana að kjósendur hafi ekki nógu gott minni. Hallgrímur Helgason segir til dæmis í Fréttablaðinu í dag að minni kjósenda virðist ekki ná lengra aftur en til 16. júní 2006 þegar Geir Haarde gekk inn í stjórnarráðið. Ekkisens flón er þessi rithöfundur! Íslendingar eru svo stálminnugir að þeim dettur ekki í hug að kjósa yfir sig vinstri stjórn. Það kemur Íraksstríðinu ekkert við — þaðan af síður Baugi.

Hitt er svo annað, að til þess að koma í veg fyrir vinstri stjórn hér á landi eru ekki margir kostir fyrir kjósendur. Þannig liggur landið. Þetta vita meira að segja Baugsmenn.

Hún bóndinn

Kona getur verið bóndi að minni hyggju. Kona getur einnig verið góður vinur. Aldrei myndi ég biðjast afsökunar á svo sjálfsögðu orðalagi.

Afi og amma voru bæði bændur.

Bú getur verið landstólpi þó að það sé hvorugkyns.

Femínísk málstýring skilar okkur ekki jafnrétti eins og til er ætlast. Hún lætur nú undan síga í nágrannalöndum okkar af þeim ástæðum. Í Þýskalandi vilja konur ekki lengur hafa sérstaka kvenkyns starfstitla. Á Alþingi Íslendinga eru þingkonur í auknum mæli þingmenn. Enginn amast að minnsta kosti við því lengur.

Málfræðilegar formdeildir eins og kyn nafnorða skipa okkur ekki í fylkingar. Úr þessum mun er of mikið gert. Hver er munur á beygingu orðanna „móðir“ og „bróðir“? Hann er enginn. Samt er móðir kvenkynsorð og bróðir karlkynsorð. Kyn þessara orða sést ekki á orðunum sjálfum, heldur fornöfnunum og lýsingarorðunum sem fylgja þeim:

Móðirin er ung og falleg.
Bróðirinn er ungur og fallegur.

Tillaga: Breytum málfræðihugtökunum karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn í Ripp, Rapp og Rupp fram til 2050. Nafnorðið „maður“ er þá Ripp en á við um bæði líffræðikynin, karlkyn og kvenkyn. Orðið „stóll“ er þá einnig Ripp en vísar ekki til neins líffræðikyns (enda væri það fáránlegt). Orðið „bók“ er þá Rapp en vísar ekki til líffræðikyns. „Önd“ er Rapp sömuleiðis, en líffræðikynið er undirskilið. Rapp-orðið önd vísar til Andrésar andar ef öndin er karlkyns en Andrésínu ef öndin er kvenkyns.

Ef við breytum þessu svona ætti öllum að líða betur til sjávar og sveita því að málfræðilegar formdeildir skapa ekki jöfnuð í honum Andabæ.

Dapurleg tíðindi

Borgarstjóri brást við brunanum í miðborginni í dag með því að segja: „Þetta er mjög döpur stund“. Það þóttu mér dapurleg tíðindi.

Að minni hyggju getur stund ekki verið döpur. Hún getur hins vegar verið dapurleg ef því er að skipta.

Það á einmitt við um sjónvarpsfréttatímann, hann er oftast dapurlegur. En ekki vegna þess að hann boðar sífellt váleg tíðindi, heldur vegna þess að ambögurnar eru orðnar svo margar. Ég get ekki lengur talið þær á fingrum annarrar handar. Það eru váleg tíðindi að sínu leyti, en þau snerta okkur minna en brennd hús frá 19. öld.