Málrækt

Málið okkar í boði Marðar

Bendi á þessa góðu lesningu á Eyjunni eftir einn besta prófarkalesara landsins, Mörð Árnason: Málið okkar.

Mörður fékk ekki verðugan stuðning í prófkjöri Samfylkingarinnar um helgina. Er það með miklum ólíkindum. Sá sem fylgir úr hlaði þingsályktunartillögu um íslenska málstefnu — og fær löggfjafarþingið til að samþykkja formlega í fyrsta sinn að Íslendingar tali íslensku á Íslandi — mætti gjarnan eiga sæti á þingi.

Arður tungunnar verður ekki metinn til peninga. Það er kannski þess vegna sem þetta framtak fær enga umfjöllun um það leyti sem þjóðin verður gjaldþrota.

Þögnin rofin?

Já, kannski er við hæfi að rjúfa bloggþögnina nú þegar ljóst er orðið að Clapton heldur tónleika hér á landi í sumar í stað þess að renna fyrir fisk. Á þessu er kannski enginn munur í sjálfu sér, að syngja eða renna fyrir fisk, en tónleikar í Egilshöll eru meiri fyrirhöfn en fluguveiðar í Aðaldal, svo mikið er víst. Clapton fiskar mig hvernig sem á það er litið. Allir góðir blúsarar eru mannaveiðarar.

Hérna er ofurlítill uppgjörsblús:

Mestu vonbrigði ársins 2007 voru viðbrögð Guðrúnar Kvaran við gagnrýni sem nýja biblíuþýðingin hefur sætt. Þau eru mér svo mikil vonbrigði, að ég er hættur að sjá til sólar. Jafngott, eins og sólin blindar skynsama menn.

Sjálfur hefði ég aldrei trúað því að ég ætti eftir að gera nokkuð annað við nýja biblíuþýðingu en strika undir í hrifningu þessa „fyrirmynd annarra texta að orðfæri“. Nú er einhver fegursta útgáfa þessarar bókar útkrotuð á spássíunum af því að málfar hennar er mér einfaldlega ekki samboðið. Er ég þá ekki af þeirri kynslóð sem „Biblía 21. aldar“ höfðar til?

Who am I? A fish-monger?

Þýddir titlar

Fyrst þegar ég kom til Spánar fyrir áratug eða svo gramdist mér hversu vankunnátta í ensku var útbreidd í landinu. Það var ekki tekið út með sældinni að gera sig skiljanlegan á veitingastöðum og í verslunum og samskiptin fólust oftast í vandræðalegu handapati. Stundum þrammaði ég út af veitingastað af því að ég hafði verið misskilinn. Mér fannst þetta beinlínis dónalegt í landi sem tekur á móti milljónum ferðamanna á ári og ég er ekki frá því að ég hafi tengt þetta við heimsku. Að kunna ekki ensku jafngilti þekkingarleysi í huga mér.

Nú hef ég hins vegar séð ljósið og mér líkar það fjarskalega vel hversu lítil enskuárátta er hér á Spáni. Ég kann auk þess orðið að gera mig nokkuð skiljanlegan á spænsku. Batnandi mönnum er best að lifa.

Ég skýri þetta á þennan hátt: Spánverjar láta ekki Kanann og Tjallann taka sig í þurrt rassgatið (orðalag sem ég hef lært af samkynhneigðum ungmennum) eins og Íslendingar. Þeir þurfa ekki að túlka heiminn á ensku til þess að skilja hann. Þeir talsetja allt sjónvarpsefni sitt og þýða alla titla á móðurmál sitt. Hér segir Simpson ekki „d’oh“ þegar hann er svekktur, heldur „¡arre!“, en vinsældir hans eru síst minni.

Hér eru allir enskir kvikmyndatitlar þýddir á spænsku fortakslaust. Ég nefni nokkra af handahófi sem ég hef séð á kápum DVD-mynddiska á bensínstöðum hér í nágrenninu:

  • El Diablo viste de Prada
  • Un buen año
  • Infiltrados
  • Diamante de Sangre
  • La joya de la familia
  • El perfume
  • El exorcismo de Emily Rose

Ég efast um að nokkur Spánverji þekki þessar kvikmyndir undir enskum heitum þeirra.

Svona nokkuð myndu Íslendingar aldrei sætta sig við. Reykvískir unglingar fengju flog ef þeir sæju þessa titla íslenskaða. Á Íslandi er íslenska hallærisleg. Hún er bara fyrir okkur „heima“, svona til að ræða við pabba og mömmu og félagana. Hún er varla til neinna raunverulegra nota nema í einkalífinu.

Ég felst ekki á þau rök að markaðurinn á Íslandi sé of lítill fyrir titlaþýðingar af þessu tagi. Lýsingar á kvikmyndum eru ennþá oftast á íslensku á kápum DVD-mynddiska, svo og annar fylgitexti. Það ætti því að vera hægðarleikur einn að birta titla á íslensku. Á þessu er hins vegar enginn áhugi. Þetta er talinn algjör óþarfi. Íslendingar eru svo yfirmáta góðir í ensku að þeir þurfa ekki á þessu að halda. Enskukunnátta þeirra er svo góð, að þeir eru byrjaðir að fyrirverða sig fyrir íslensku. Íslendingar trúa því að minnsta kosti sjálfir að þeir séu voða góðir í ensku. Þeir eru miklu ánægðari með það en góða móðurmálskunnáttu.

Að vissu leyti er þetta þó á misskilningi byggt og þykist ég geta skýrt það með eftirfarandi dæmi: Ekki alls fyrir löngu gerðust þau tíðindi á Íslandi að bandarísk kvikmynd var gefin út á mynddiski undir íslenskum titli. Þessi mynd sker sig ennþá úr í hillunum á myndbandaleigunum. Hún heitir á ensku „Thank you for smoking“. Af einhverjum undarlegum ástæðum, mér ókunnum, er titill hennar íslenskaður á kápunni: „Takk fyrir að reykja“. Ég veitti þessu sérstaka athygli vegna þess að sá hópur ungmenna sem ég umgengst notaði íslenska titilinn í samræðum sín á milli, en ekki þann enska. Ungmennin tóku varla eftir þessu sjálf. Engum fannst asnalegt að segja „Takk fyrir að reykja“. Öðru nær, þetta varð raunverulegt heiti myndarinnar, nafnmerki hennar, lógó, á Íslandi sem allir þekktu á meðan hún var í umferð.

Auðvitað myndum við Íslendingar læra að meta þetta með tímanum ef þetta yrði gert í auknum mæli. En ég er ekki viss um að þetta verði nokkurn tíma gert. Við erum ennþá svo upptekin af því að verða heimsborgarar að við kærum okkur ekki um þetta. Við erum ennþá svo upptekin af alþjóðahyggju eftir gegndarlaust tómlæti öldum saman, að við erum að glutra niður íslenskukunnáttunni án þess að taka eftir því. Að lokum verðum við útlendingar í okkar eigin landi, alsælir með Pampers, því að enginn er eyland og enginn grætur Íslending einan sér og dáinn, og allt það.

Í dag

Allir vita að flensa er bráðsmitandi. Ég trúi því að hugsanagangur sé það einnig.

Fyrr á árum sögðu flestir Íslendingar „í dag“ og áttu við líðandi dag, „í gær“ og áttu við liðinn dag (gærdaginn), „á morgun“ og áttu við ókominn dag (morgundaginn). Svo er Guði fyrir að þakka að svona tala flestir Íslendingar ennþá.

Aumingja Bakkabræðrum dettur hins vegar ekkert í hug þegar þeir eiga við óljósa tímaákvörðun eins og „um þessar mundir“, „nú um stundir“ eða „á okkar dögum“. Þá segja þeir bara „í dag“. Enginn má við margnum, segir máltækið.

Mig skortir illilega heilbrigða skynsemi til að skýra skjótan uppgang þessarar orðanotkunar. Þetta orðalag er nú nær einhaft sem myndræn tímaákvörðun í lærðum greinum og ólærðum. Og að sjálfsögðu veður þetta uppi í fjölmiðlunum, pestarbæli mállýtanna. Ég veit ekki hvort ég á að nefna bloggið, endaþarmsop talmálsins.

Þetta má að sjálfsögðu skýra með áhrifum frá öðrum tungumálum, einkum ensku. Þar segja menn „today“ með góðri samvisku (um) alla daga. Og hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það, kvað séra Hallgrímur.

Á baksíðu Morgunblaðsins í dag (ég á við tiltekinn dag, enda er Mogginn dagblað) koma þessi áhrif vel í ljós. Þar segir að saxófónleikarinn James Carter verði gestur á djasshátíð Austurlands í sumar. Þetta er að sjálfsögðu fagnaðarefni öllum djassáhugamönnum enda er Carter einn mesti saxófónsnillingur síðari ára/um þessar mundir/á okkar dögum. Nei, blaðamaðurinn orðar þetta ekki svona, heldur skrifar: „Einn mesti saxófónsnillingur dagsins í dag.“ Hvað annað?

Snilld varir oftast daginn á enda, stundum fleiri en einn dag. En varla miklu lengur. Málsnilldin endist hins vegar varla nema til hádegis.

Hugsið ykkur þvílík höfuðraun það væri, ef við notuðum myndrænu tímaákvörðunina „í gær“ á sama hátt: „Bush var einhver versti leiðtogi Bandaríkjamanna í gær.“ „Davíð Oddsson er seðlabankastjóri í dag en hann var forsætisráðherra í gær.“ „Bush og Davíð voru miklir mátar í gær en í dag talast þeir varla við.“

Ég hef ekki enn sagt að þetta sé vitlaust. Ef allir apa það eftir er það rétt. Og það er bannað að greina gott mál frá illu, því að þá verða kærleiksríkir mannfræðingar brjálaðir. En svo ég fari fínt í þetta, fíflin ykkar: Hafa menn alveg gleymt að gera sér dagamun á móðurmálinu, að breyta til og lyfta sér upp í orðavali svona til hátíðabrigða? Hafa bloggarar landsins tekið þá afdrifaríku tímaákvörðun að ryðja öllum blæbrigðum úr málinu svo til á einum degi? Ha?

„Er Jesú sem uppsprettan í þínu lífi?“

Þessa spurningu sá ég í auglýsingu frá fríkirkjunni Veginum í annars fallegum bæklingi KFUM og KFUK (bls. 23) sem fylgdi með Morgunblaðinu í dag.

Ekki get ég sagt að þetta hræri hjarta mitt og veki til hrifningar. Tvenns konar hrollur fór um mig þegar ég las þetta. Annars vegar fyrir hönd móðurmálsins, sem hér fær engin grið fremur en frelsarinn. Hins vegar vakti trúarfrasinn, sem endurspeglast í spurningunni, gamlan hroll hjá mér.

Jesús er þarna í ávarpsfalli. Ef hann er það ekki, er hann í aukafalli, og það á ekki heldur við. Og ekki skil ég hvaða hlutverki samtengingin „sem“ gegnir þarna. Á íslensku er „sem“ sömu merkingar og „eins og“ en ekki alltaf nothæf í hennar stað. Orðið er nú algengur hortittur, þýðing bókstafsþýðenda úr ensku „as“ og dönsku „som“, en þau samsvara alls ekki alltaf „sem“ og „eins og“ í íslensku. Þegar þau gera það ekki á að sleppa þeim í íslensku.

En svo veit ég ekki lengur hvað þessi hugsun merkir í raun: Er Jesús uppsprettan í lífi þínu? Í mínum huga er þetta væmin klisja sem hefur enga raunverulega merkingu. Hver er munurinn á fíl? Ef ég hefði búið til þessa auglýsingu hefði ég vafalaust lætt inn þessari spurningu í staðinn: Vituð ér enn eða hvat? — drúpt höfði og tekið afleiðingunum.

Stundum veldur kauðalegt orðalag því að hugsun missir algjörlega marks. Hún verður beinlínis fráhrindandi enda þótt hún skiljist að einhverju leyti. Ég fullyrði af fenginni reynslu að karísmatískar fríkirkjuhreyfingar á Íslandi lýsa sér í brákaðri íslensku. Þetta heyrist á kórasöng sem er síendurtekinn í eftirsókn eftir leiðsluáhrifum, en textarnir í þeim eru stundum svo mikið leirhnoð að það er ekki fyrir nokkurn mann, vantrúaðan eða efagjarnan, sterktrúaðan eða efasemdarlausan, að hafa þá eftir öðruvísi en að fyrirgera sálu sinni. Og síðan heyrist þetta á prédikunum og vitnisburðum, sem fylgja á eftir kórunum, en þá taka við fraskenndar ambögur undir erlendum máláhrifum sem múgurinn klappar upp í Jesú nafni.

Vitaskuld eru á þessu nokkrar lofsverðar undantekningar. En þær eru varla nema til að sanna hina mjög svo útbreiddu reglu. Svo rammt kveður raunar að þessu, að þetta er sumsstaðar svo sérstætt orðfæri að fáir Íslendingar skilja það. Við eigum Guði það að þakka að þeir eru flestir ennþá ófrelsaðir.

Vefmál og blaðamál

[S]att að segja verður óþægilega oft vart við málfarslegt fúsk á mbl.is og engu líkara en þar á bæ sé talið ástæðulaust að vanda vefmálið jafnmikið og blaðamálið. Það eru vond vísindi.

Mannamál, vefsetur Sverris Páls 22. maí síðastliðinn.

Málfar beggja kynja: Ný málhreinsun?

Í nýrri þýðingu Nýja testamentisins er urmull af svofelldum neðanmálsgreinum: Orðrétt: bræður. Þessar neðanmálsgreinar eru svo margar, að mér er skapi næst að halda því fram að „karllæg“ áhrif hafi aukist svo um munar í ritningunni síðan 1981!

Því nefni ég þetta hér að ég er um þessar mundir að búa nýju biblíuþýðinguna undir umbrot fyrir JPV-útgáfu og rak augun í þetta og gat ekki á mér setið að skrifa um það nokkur orð. Og verða nú málalengingar.

Þetta er ekki þýðingaratriði. Þetta er það sem ég leyfi mér að kalla (upp á ensku) copy og paste áhrif nútíðarmanna. Þarna hefur tiltekið orð einfaldlega verið numið brott úr biblíutextanum af því að það er tilteknum hópi manna, karla eða kvenna, ekki lengur skapfellt. Annað orð hefur verið sett inn í meginmálið í staðinn (oftast „systkin“ eða orðin „bræður og systur“). En vegna þess að frumtextinn er ekki þannig skrifaður standa neðanmálsgreinarnar bísperrtar á síðunum og bera íslenskum tíðaranda órækt vitni.

Öllum sem vita vilja er kunnugt um að þetta er til komið fyrir áhrif Kvennakirkjunnar, en hún hefur beitt sér gegn því sem hún kallar „kynjað tungutak“ mörg undanfarin ár og unnið þeirri stefnu fylgi innan þjóðkirkju og utan að ritningin skuli þýdd á „máli beggja kynja“. Þessi hugsjón hefur runnið saman við jafnréttisbaráttuna og karlar sem samþykkja ekki þessa málstefnu eiga á hættu að teljast kynrembur. Ég veit ekki hvað konur eru kallaðar sem fylgja ekki þessari málstefnu, en þær eru nokkrar til. Mig langar að víkja að þeim nokkrum orðum hér á eftir.

Í guðfræðinámi mínu hef ég tekið eins mörg námskeið í kvennaguðfræði og mér hefur verið unnt. Það hef ég gert vegna þess að ég er hugfanginn af guðfræðilegri kvennagagnrýni og brenn í skinninu að þekkja hugsun hinna kúguðu og forsmáðu í kristinni hefð. Þetta var mjög einlæg hrifning þegar ég hóf námið í guðfræðideildinni enda þótt lítið bæri á henni í kennslustundum (ég sat stundum einn með 15 konum!). Eitt gat ég þó aldrei fellt mig við sama hvað á reyndi: „málfar beggja kynja.“ Það er einhver feyrubragur á því, einhver tilgerð sem ég get ekki fallist á að þjóni hagsmunum kvenna.

Þótt ég hefði ekki lært íslenska málfræði að neinu marki þegar ég sat námskeiðin í kvennaguðfræðinni, stríddi þessi stefna gegn máltilfinningu minni. Mér fannst hún byggð á þeim herfilega misskilningi að málfræðireglur væru mannasetningar líkt og trúarlærdómur eða kirkjukenningar og að þeim væri unnt að breyta með átaki. Því miður er málið ekki svo einfalt. Ef það væri svo einfalt, væri enginn þágufallssjúkur á Íslandi.

Þegar ég færði mig yfir í íslenskudeildina til þess að þreyta 30 einingar í móðurmálinu — þótt ekki væri nema til að styrkja undirstöður guðfræðinnar — kom nokkuð á óvart að þeir sem slógu varnagla við „málfari beggja kynja“ þar á bæ voru einmitt nokkrar konur. Sumir kvenkennararnir vöruðu nemendur sína einlægt við því að jafna saman málfræðilegu og líffræðilegu kyni. Þetta líkaði mér fjarskalega vel. Ég hugsaði með mér að það væri guðsþakkarvert að þetta voru ekki karlar! Hefði nokkurt mark verið á þeim takandi ef þetta hefðu verið karlar?

Nei, til allrar hamingju eru nokkrir helstu andmælendur „málfars beggja kynja“ á Íslandi ekki karlar, heldur konur. Þetta eru kvenkyns málfræðingar sem búa yfir nógu mikilli sérfræðiþekkingu til þess að láta ekki málfræðilegt karlkyn ergja sig. Hvað á að segja um slíkar konur sem gjöra kynsystur sínar forviða í Kvennakirkjunni? Eru þær kynrembur eða karlrembusvín? Aðhyllast þær ekki femínisma? Eru þær kúgaðar og illa giftar? Eru þær blindar á kynjamisréttið í samfélaginu af því að þær eru svo miklir málfræðingar? Eru þær kannski trúlausar?

Nei, engar slíkar skýringar duga. Þessar konur eru engu síðri femínistar en aðrar frjálslyndar konur og frjálslyndir karlar í þessu landi. Þær hafa hins vegar ekki látið málfræðikyn rugla sig í ríminu. Þær vita að karlkyn hefur gegnt hlutleysishlutverki í íslensku öldum saman og að því verður ekki breytt með handafli á öndverðri 21. öld. Þágufallssýki og aðrar málveirur verða að sama skapi ekki læknaðar með lyfjagjöf.

Nú er engum blöðum um það að fletta, að karlkyn fleirtala hefur verið notuð um bæði kynin í íslenskum biblíuþýðingum öldum saman. Þetta er í samræmi við íslenska ritmálshefð. Nú bregður hins vegar svo við, að karlkyni fleirtölu er yfirleitt breytt í hvorugkyn fleirtölu í nýju þýðingunni. Þetta er gert til þess að koma til móts við þá skoðun að hefðbundin notkun kynja ýti undir hugmyndir um að karlmenn séu „normið“ og það sem kvenlegt er sé einhvers konar frávik frá því. Í þessu felst krafa um að nota ekki nafnorð sem einkum eru tengd körlum um bæði kynin (lærisveinn, ráðherra), að nota ekki karlkynsmyndir fornafna og lýsingarorða um hópa karla og kvenna (þegar fyrstu gestirnir koma …) og að láta ekki málfræðilegt karlkyn fara með hlutleysishlutverkið (sá hlær best sem síðast hlær, sá á kvölina sem á völina). Vandinn er hins vegar sá, að þetta sjónarmið losar ekki heilaga ritningu úr sögulegu samhengi sínu. Það er hlutverk presta og guðfræðinga sem fást við túlkunarfræði að losa frumtexta ritningarinnar úr viðjum feðraveldisins. Það er ekki hlutverk þýðingarnefndar.

Öllum hugsandi mönnum má ljóst vera að enginn Íslendingur á „málfar beggja kynja“ að móðurmáli. Þetta verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir prestum og öðrum þjónum sem flytja fagnaðarerindið í kirkjunni. Enginn getur talað „mál beggja kynja“ lýtalaust. Prestar sem reyna þetta í stólræðum sínum eru næstum því brjóstumkennanlegir. Ég nefni aðeins eitt dæmi úr prédikun frá því í fyrra:

Um það hafa margir vitnað þegar þau sáu þessa ótrúlegu bylgju …

Hér mælir prestur sem vill rísa undir „máli beggja kynja“ í prédikunarstólnum. Þarna má sjá líffræðilegt kyn samkvæmt „máli beggja kynja“ (um það hafa mörg vitnað þegar þau sáu …) þreyta fangbrögð við hið hlutlausa karlkyn samkvæmt íslenskri málvenju (um það hafa margir vitnað þegar þeir sáu …). En þetta gengur ekki betur upp en svo, að á þessu verður ruglingur. Maður sem talar hefðbundna íslensku og maður sem talar „mál beggja kynja“ skilja ekki alltaf hvor annan. Þetta verður ennþá vandræðalegra þegar þeir eru einn og sami maðurinn.

Þeir sem leggja sig fram um að boða fagnaðarerindið á „máli beggja kynja“ mættu hafa hugfast að ekki er alltaf gerður skýr greinarmunur á málfræðilegu kyni og líffræðilegu kyni í Biblíu Kvennakirkjunnar (Vinkonur og vinir Jesú). Fuglar himinsins og illir andar fá til dæmis að halda karlkyninu af einhverjum undarlegum ástæðum:

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og Guð fæðir þá. [Ekki: Hvorki sá þau né uppskera né safna í hlöður og Guð fæðir þau.]

… en illu öndunum bannaði hann að tala því að þeir vissu hver hann var. [Ekki: þau vissu hver hann var.]

Hvenær á að vera skýr greinarmunur á málfræðilegu kyni og líffræðilegu kyni í guðfræðitextum og hver á að skera úr um það?

Nú er það svo að breytileiki í íslensku máli hefur sjaldnast valdið misskilningi eða vandræðum í samskiptum manna hér á landi. Þágufallssýki veldur til dæmis engum misskilningi neins staðar og skaðar ekki málkerfið. „Málfar beggja kynja“ veldur á hinn bóginn algerri ringulreið. Hversu margir kirkjunnar menn skyldu hafa áttað sig á þessu nú þegar? Gera prestar sér til dæmis grein fyrir því, að ekki er hægt að tala um einstakling í eintölu á íslensku ef kynferði hans er ekki tilgreint (sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi er ekki það sama og þau sem trúa á mig, munu lifa, þótt þau deyi)?

Sannleikurinn er sá að reginmunur er á kröfunni um breytta notkun kynja og flestum þeim breytingum öðrum sem kunnar eru úr íslenskri málsögu. Sú staðreynd ein og sér er yfrið nóg til þess að staldra við og velta upp þeirri spurningu hvort „málfar beggja kynja“ sé ekki einungis ný málhreinsun sem heimti af málhöfum sínum að ganga á svig við eðliseiginleika sinnar eigin tungu? Á góðum degi væru handaflsaðgerðir af þessu tagi kallaðar málfarsfasismi.

Vog og vindur

Þetta var æði fyrirsjáanlegt.

„Fullkomlega ósnortið af málhreinsun og málrækt“

Á ömurlegasta degi ársins er við hæfi að vitna í ummæli nokkurra spekinga á ráðstefnu um stöðu móðurmálsins sem fram fór í Norræna húsinu í gær.

Sjálfar undirstöður tungumálsins eru að bresta. Beygingakerfið er í uppnámi og setningafræðilegur grundvöllur líka. Svo virðist sem tilfinning fólks fyrir uppbyggingu eðlilegra og einfaldra setninga sé á mjög hröðu undanhaldi.

— Páll Valsson

Nýir miðlar eins og bloggsíður, sms-skeyti, tölvupóstur og spjallrásir hafa gert það að verkum að aldrei í Íslandssögunni hafa jafnmargir ritað jafnmikið og nú um stundir. Á sama tíma er mikið af því efni sem til verður fullkomlega ósnortið af málhreinsun og málrækt, sem sést á því að málið í þessum miðlum líkist meir talmáli en ritmáli.

— Jóhannes Bjarni Sigtryggsson

Eltihrellir

Eltihrellir kemur skemmtilega á óvart í stað stalker.