Netið

WordPress 2.8 á íslensku

Ég hef lokið við að þýða stigbót 2.8 af WordPress. Þeir sem vilja nota þýðinguna geta sótt sér þýðingarskrána hér.

WordPress 2.7 á íslensku

Ég hef verið að rísla mér við að þýða nýjustu útgáfuna af WordPress-kerfinu, útgáfu 2.7. Henni er ekki að fullu lokið, en vegna fjölda áskorana er þýðingarskráin komin á vefinn. Um það bil 60 strengir eru óþýddir í skránni en þeir eru lítt áberandi í kerfinu. Áhugasamir geta nálgast þýðingarskrána hér.

Ég stefni að því að ljúka þýðingunni í febrúar. Þeir sem sækja sér þýðingarskrána núna eru vinsamlegast beðnir að fylgjast með uppfærslum hér og sækja sér lokagerðina þegar hún er tilbúin.

WordPress 2.6 á íslensku

Ég skellti inn þýðingu fyrir WordPress útgáfu 2.6 nú nýverið ef einhverjir áhugasamir vilja nýta sér hana. Sækja má þýðingarskrána hér.

Örfáar breytingar eru á milli útgáfu 2.6 og undirútgáfunnar 2.6.1 sem kom 15. ágúst síðastliðinn. Kannski lánast mér að ljúka henni innan tíðar, hver veit.

Nýtt útlit

Eins og sjá má hef ég umturnað útliti heimasíðunnar eftir alllangt hlé. Ég hef að sjálfsögðu sótt mér WordPress-stigbótina, útgáfu 2.5, og nýti hér eiginleika hennar til fulls. Til þess hef ég notið góðs af atorkusemi Michaels Pollocks. Honum séu þakkir, lof og prís fyrir sniðið.

Eins og sjá má er mikilvægt að nota myndir með þessu sniði, helst í hverri færslu svo að vel fari. Nú verður að koma í ljós hvort mér vinnist tími til þess arna.

Mestu varðar að þörfin fyrir að skrifa skjátexta og birta hann er enn frumhvötin að baki þessari gandreið.

Þó að sniðið sé eftir nýríkan Bandaríkjamann, þá er það allt á íslensku. Fattiði? Ég get ekki hugsað mér að setja upp vefsíðu þar sem enskir strengir standa bísperrtir og ulla framan í lesendur. Hvílíkt metnaðarleysi!

Þetta kemur því ekkert við að innan skamms er okkur Íslendingum líklega nauðugur sá einn kostur að ganga í Evrópusambandið og taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil. Við getum lagt rækt við móðurmálið þó að það ólánist fyrir okkur að stjórna efnahagsmálum okkar.

Megi ríkisstjórnin týna lífi í Kastljósinu.

WordPress 2.5 á íslensku

Ég hef verið að rísla mér við að þýða nýjustu útgáfuna af WordPress-kerfinu, útgáfu 2.5, sem kom út 29. mars síðastliðinn. Nú er þýðingin tilbúin og þeir sem vilja nálgast hana geta sótt sér þýðingarskrána hér.

Ekki þarf að fjölyrða um það að ýmsar áhugaverðar viðbætur og endurbætur eru í nýju stigbótinni. Hvet ég alla sem nota WordPress að uppnýja kerfið hjá sér.

Fífl og fávitar

Egill Helga vill ekki vera fífl sem skrifar fyrir fávita. Það er skiljanlegt. Ég væri sama sinnis ef ég fengi greitt hjá Baugi fyrir að blogga — já, eða Wall Street Journal.

Blaðamenn eru hræddir — og fúlir. Skelfileg fífl, margir hverjir. Og lesendur þeirra fávitar, að sjálfsögðu — tómir bloggarar.

Íslenskar gæsalappir fyrir WordPress

Bastarður víkinga hefur búið til verkfæri eða íbót fyrir WordPress-kerfið sem breytir enskum gæsalöppum í íslenskar. Íbótina má nálgast hér.

Nú er engin afsökun lengur til að láta í minni pokann fyrir Tjallanum. Sækið þessa íbót, Íslendingar!

Hleranir fyrr og nú

þessu má hlæja dátt. Vel skrifað og lúmsk kímnin salt jarðar.

Hugræn trúarbragðafræði

Guðmundur Ingi Markússon, doktorsnemi við Queens-háskólann í Belfast, skrifar áhugaverða grein um hugræn trúarbragðafræði sem birtist í Glímunni. Greinin er nýkomin á Kistuna og má nálgast hana með því að smella á stikluna hér að neðan:

Eru trúarbrögð náttúruleg? Um hugræna trúarbragðafræði.

Jón Hicks og WordPress

Jón Hicks er farinn að sjá kostina við WordPress. Þá er mikið sagt.