WordPress

WordPress 2.8 á íslensku

Ég hef lokið við að þýða stigbót 2.8 af WordPress. Þeir sem vilja nota þýðinguna geta sótt sér þýðingarskrána hér.

WordPress 2.7 á íslensku

Ég hef verið að rísla mér við að þýða nýjustu útgáfuna af WordPress-kerfinu, útgáfu 2.7. Henni er ekki að fullu lokið, en vegna fjölda áskorana er þýðingarskráin komin á vefinn. Um það bil 60 strengir eru óþýddir í skránni en þeir eru lítt áberandi í kerfinu. Áhugasamir geta nálgast þýðingarskrána hér.

Ég stefni að því að ljúka þýðingunni í febrúar. Þeir sem sækja sér þýðingarskrána núna eru vinsamlegast beðnir að fylgjast með uppfærslum hér og sækja sér lokagerðina þegar hún er tilbúin.

WordPress 2.6 á íslensku

Ég skellti inn þýðingu fyrir WordPress útgáfu 2.6 nú nýverið ef einhverjir áhugasamir vilja nýta sér hana. Sækja má þýðingarskrána hér.

Örfáar breytingar eru á milli útgáfu 2.6 og undirútgáfunnar 2.6.1 sem kom 15. ágúst síðastliðinn. Kannski lánast mér að ljúka henni innan tíðar, hver veit.

Íslenskar gæsalappir fyrir WordPress

Bastarður víkinga hefur búið til verkfæri eða íbót fyrir WordPress-kerfið sem breytir enskum gæsalöppum í íslenskar. Íbótina má nálgast hér.

Nú er engin afsökun lengur til að láta í minni pokann fyrir Tjallanum. Sækið þessa íbót, Íslendingar!

Jón Hicks og WordPress

Jón Hicks er farinn að sjá kostina við WordPress. Þá er mikið sagt.

Ýtarlegri leiðbeiningar

Vegna fjölda áskorana hef ég endurbætt leiðbeiningar mínar fyrir íslenska þýðingu WordPress-kerfisins.

WordPress 2.0 á íslensku

Ný útgáfa af vefumsýslukerfinu WordPress, útgáfa 2.0, kom út á áramótum. Ég hef nú lokið við að þýða hana á íslensku og geta íslenskir WordPress-notendur sótt sér þýðingarskrána hér. Þeir geta einnig sótt sér vinnsluskrána til þess að breyta þýðingunni eða lagfæra hana eftir eigin geðþótta.

Eins og að líkum lætur eru ýmsar áhugaverðar viðbætur og endurbætur í nýju útgáfunni. Ekki eru þó allir á eitt sáttir um stigbótina að þessu sinni. Sem dæmi nefni ég að Phu Ly í Lundúnum sér enga ástæðu til að fá sér nýju útgáfuna. Það gera ekki heldur þessir eðalnotendur: 1, 2, 3, 4. Flestir þessir notendur eiga það sameiginlegt að hafa lofsamað WordPress og sumir hafa búið til vinsæl hjálpargögn sem auka hæfni kerfisins. Rakel á Nýja Sjálandi fann að minnsta kosti fimm atriði sem henni líkar við í útgáfu 2.0 og Owen Winkler hefur skorað á þá sem ekki vilja nýju útgáfuna að færa rök fyrir ákvörðun sinni. Á síðu hans eru fjörugar umræður.

Ég hef sjálfur stigbætt WordPress vandkvæðalaust og skal ég nefna nokkur jákvæð og neikvæð atriði í nýju útgáfunni:

  • Viðbótin sem mér líkar best við er tvímælalaust sjálfvirka gagnaafritunin undir umsjón. Sú aðgerð gerir notanda kleift að afrita gagnagrunninn sinn milliliðalaust með því að smella á einn hnapp hvenær sem honum dettur í hug. Þetta geta notendur gert eins oft og þeir telja ástæðu til. Ef ég hefði haft þennan kost í fyrri útgáfunni hefði ég að líkindum ekki glatað gögnum þegar vefþjónninn bilaði í nóvember síðastliðnum. Það er gott að geta borið sjálfur ábyrgð á afritunum.
  • Einfaldaðri myndauppflutningur er líklega kærkomnasta endurbótin. Myndir eru nú fluttar upp um leið og færsla er skrifuð og á sama stað, en það er til mikilla bóta. Áður þurftu notendur að vista færsluna sína og færa sig um set til þess að flytja upp myndir. Síðan þurftu þeir að opna færsluna á nýjan leik og setja inn myndakóða í hana.
  • Fyrirferðarmesta nýjungin er líklega ritþórinn (Rich Text Editor; WYSIWYG; TinyMCE) en með honum er texti sniðinn um leið og hann er sleginn inn. Ritþórinn notar HTML-kóðun á bak við tjöldin svo notandinn geti einbeitt sér að skrifunum. Leturbreytingar, tenglar og myndir birtast því jafnóðum á sama hátt og á vefnum. Þetta er á hinn bóginn sú viðbót sem ég get síst fellt mig við, en til allrar hamingju er hægt að aftengja ritþórinn í stillingum. Þeir sem eru óvanir HTML-skipunum kunna sjálfsagt vel að meta þessa innbyggðu nýjung.
  • Akismet heitir innbyggt forrit sem safnar saman öllum amapósti sem ratar í umræðukerfið og kemur í veg fyrir endurtekningar. Hann er tvímælalaust til bóta fyrir þá sem ekki hafa tileinkað sér þessa tækni á annan hátt.
  • Önnur viðbót sem ekki verður hjá komist að nefna er flutningur. Með einni músarsmellu geta nýir WordPress-notendur nú flutt gögn úr öðrum bloggkerfum inn í WordPress. Þessi snjalla lausn styður gagnaflutning úr eftirtöldum kerfum: Blogger (blogspot-notendur), Movable Type, Textpattern og RSS-skrár.

Gaman verður að heyra hvað íslenskum WordPress-notendum finnst um nýju útgáfuna. Vonandi kjósa flestir þeirra að nota íslensku gerðina. Áfram íslenska!

Útliti breytt

Ég var ekki sáttur við útlitið. Heimasíðan var of dökk. Mér fannst eins og ég þyrfti að kveikja ljós. Það hef ég nú gert. Ég vona að fastagestir mínir taki þetta ekki óstinnt upp.

Síðan mín var ekki einungis of dökk, heldur var letrið of smátt fyrir minn smekk. Sérstaklega fannst mér bagalegt hversu smáar athugasemdirnar voru.

Ég er nú nokkuð sáttur og get haldið ótrauður áfram að fullnægja þörf minni fyrir að skrifa á netið.

Gaman væri að heyra álit ykkar á útlitinu. Sniðmátið er byggt á þýskri hönnun, Blix, sem Sebastian Schmieg á veg og vanda að fyrir WordPress-samfélagið. Ég hef þó knúið fram nokkrar breytingar á því og bætt við nokkrum veftólum.

Leitað að snillingum

Þegar góðir forritarar eru jafnframt góðir hönnuðir er gaman að horfa út um þakgluggann sem kallast skjár!

Eftir að hafa vafrað um Netið í nokkra sólarhringa hef ég komist að því að fjölmargir snjallir hönnuðir og forritarar þarna úti taka WordPress bloggkerfið fram yfir Moveable Type og telja sig hafa ærna ástæðu til.

Hverju þeir fá síðan áorkað þessir snillingar með bloggkerfinu finnst mér með hreinum ólíkindum.

Tökum til dæmis Dunstan Orchard (sem allir halda að sé hommi). Takið eftir því hvað vefurinn hans er áferðarfagur. Og takið einnig eftir því hvernig hann umbreytir einföldu athugasemdakerfi á heimasíðunni sinni í gagnvirkt umræðutorg með nokkrum einföldum verkfærum. Tær snilld!

Dunstan á einnig heiðurinn að því að ég get notað eyktamörk í staðinn fyrir hrútleiðinlega vélræna tímasetningu hér á heimasíðunni.