Um vefinn

Heimasíðan mín er nokkurs konar óviljaverk sem smám saman hefur vaxið í meðförunum. Hún hefur nú að vissu leyti eignast sjálfstæða tilveru, spilar upp á eigin spýtur og hefur sinn dóm með sér.

Ég byrjaði að skrifa dagbók á netinu haustið 1999 á slóðinni www.hi.is/~binni. Árið 2002 færði ég mig á vefsvæðið www.annall.is. Árið 2004 gerðist ég minn eigin lénsherra með því að opna vefinn binni.is. Efni dagbókarinnar og annálsins hefur allt verið flutt hingað að undanskildum athugasemdum.

Einhvers konar skrifsýki er að sjálfsögðu hvötin sem býr að baki þessu gönuskeiði. Sumt af þessu er stílæfing. Lesendur geta brugðist við efninu með því að færa inn athugasemdir undir færslurnar ef þeir svo kjósa. Ég sækist þó ekkert sérstaklega eftir því. Nafnleysum, dónum og amapósti eyði ég fortakslaust.

Ég starfa hjá Hagstofu Íslands og legg jafnframt stund á nám í guðfræði og íslensku við Háskóla Íslands.

Um langt árabil hef ég fengist við prófarkalestur, málfarsráðgjöf, ritrýni og textasmíðar af ýmsu tagi. Þá hef ég lagt stund á grafíska hönnun og prentsmíðar alllengi, einkum umbrot bóka, kynningarbæklinga og tímarita. Einnig hef ég fengist nokkuð við vefsíðugerð.

Áríðandi tilkynning: Ég er steinhættur að prófarkalesa námsritgerðir!

Nafnið sem ég ber, Brynjólfur, þýðir brynjaður úlfur. Úlfar voru fyrr á öldum taldir mönnum ekki hollir í hugum og sögðu reyndar gamlir og lífsreyndir Rómverjar að „maður væri manni úlfur“ (homo homini lupus).

Brynjaður úlfur þolir talsvert sitt af hverju. Hann leggur út í orrustur sjálfum sér og sínum til varnar ef honum býður svo við að horfa. Stundum fer hann offari, ekki síst þegar honum þykir ómaklega að sér vegið.

Ég nota WordPress bloggkerfið til þess að knýja vefinn binni.is. Ef þú ert að hugleiða að koma þér upp eigin vef á eigin léni mæli ég með WordPress-vefumsýslukerfinu. Það kostar ekkert og er aðgengilegt á íslensku.

Tengingar við aðra bloggara eru flestar birtar hér í leyfisleysi (á hægri spássíu á forsíðu). Suma höfundana þekki ég, aðra ekki. Þetta eru síður sem ég hef fylgst með um langt skeið og les næstum daglega.

Einu sinni reyndi ég að taka saman 100 lýsandi atriði um sjálfan mig en tókst ekki að ljúka þeim.